Námið
Rannsóknir
HR
23. janúar 2026

Vel heppnað hraðstefnumót í HR

Framadagar HR 2026 fóru fram í Háskólanum í Reykjavík fimmtudaginn 22. janúar. Þá kynntu fulltrúar frá 61 fyrirtæki og stofnunum starfsemi sína í Sólinni í HR. Voru Framadagar mjög vel sóttir og margt um manninn í Sólinni.

Auk þess var sú nýjung tekin upp í ár að bjóða nemendum í ör-starfsmannaviðtöl. Sótti fjöldi nemenda viðtöl en alls tóku tóku 22 fyrirtæki þátt og var góð stemning á viðburðinum.

Sandra Björk Bjarkadóttir, hjá mannauðssviði Icelandair, ásamt samstarfsmönnum sínum.

Sandra Björk Bjarkadóttir, hjá mannauðssviði Icelandair, var ein þeirra sem tók á móti nemendum, ásamt samstarfsmönnum sínum, og sagði viðburðinn hafa heppnast vel.

Við höfum fengið góðar spurningar og pælingar frá nemendum og við vorum einmitt að ræða áðan að okkur finnst þau almennt vera nokkuð með sitt á hreinu. Varðandi atvinnuviðtöl almennt þá má vera stressaður enda er þetta stórt skref. En besta ráðið myndi ég segja er að vera maður sjálfur og sýna hvernig maður er í grunninn.

Segir Sandra Björk.

Lísa Margrét Óskarsdóttir, nemandi í vélaverkfræði, var ánægð með viðburðinn. Hún sagði ör-viðtölin góðan undirbúning fyrir komandi atvinnuviðtöl og einnig hefði hún gert sér grein fyrir nýjum starfsmöguleikum innan fyrirtækja.

Skarphéðinn Vernharðsson er við að ljúka meistaranámi í lögfræði frá HR. Hann sagði fínt að koma í spjall og fá tilfinningu fyrir því hvernig sé að fara í atvinnuviðtöl. Hann hafði þegar átt gott spjall hjá Intellecta og Icelandir og var á leið í fleiri ör-viðtöl þegar rætt var við hann.

Nemendur áttu gott spjall við fulltrúa rúmlega 20 fyrirtækja.

Framadagar eru haldnir árlega í Háskólanum í Reykjavík með það að markmiði að gefa háskólanemum landsins tækifæri til að kynna sér fyrirtæki og fjölbreytta möguleika á sumarstörfum, framtíðarstörfum eða verkefnavinnu.

23. janúar 2026
Nýjustu fréttirnar