2. desember 2025
Verkfræðin er líflegt nám sem veitir frábæra þekkingu fyrir framtíðina
2. desember 2025
Verkfræðin er líflegt nám sem veitir frábæra þekkingu fyrir framtíðina
Ísabella Helga Harðardóttir er á öðru ári í orkuverkfræði við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík. Hún segir námið mjög líflegt og að það veiti nemendum frábæran grunn fyrir störf í framtíðinni. Að námi loknu við HR stefnir hún á framhaldsnám í orkuverkfræði í Danmörku.
Ég hafði velt fyrir mér að fara í verkfræði síðan ég var í menntaskóla. Það heillaði mig hvað námið er verklegt og ég hafði líka heyrt að það væru fjölbreyttir starfsmöguleikar í boði fyrir orkuverkfræðinga. Svo eru pabbi og afi báðir verkfræðingar svo kannski er þetta að einhverju leyti i genunum.
Segir Ísabella en hún lauk stúdentsprófi af eðlisfræðisbraut í MR sem hún segir hafa verið mjög góðan undirbúning. Hún segir að fyrirkomulag námsins í HR sé þægilegt, auðvelt sé að nálgasta kennarana og nemendum sé veitt persónuleg þjónusta og gott utanumhald.
Það eru mörg verkefni yfir önnina en það hjálpar manni líka mikið fyrir lokaprófin sem mér finnst mjög þægilegt. Námið er mjög verklegt, sem hentar mér vel, og hópaverkefni eru algeng. Núna var ég t.d. að byrja í þriggja vikna áfanga þar sem við förum strax í hóp og vinnum að alls konar mælingum sem við skrifum síðan skýrslur um. Slík verkefni eru frábær undirbúningur bæði fyrir rannsóknir og störf í framtíðinni.
Segir Ísabella sem einnig var dæmatímakennari í línulegri algebra nú í haust. Hún segir það hafa verið skemmtilega reynslu og góða upprifjun frá því sem hún lærði á fyrsta árinu. Línuleg algebra tengist í raun öllum áföngunum í orkuverkfræðinni og því hafi verið mjög þægilegt að rifja hana upp.
Mig langar að gera svo margt í framtíðinni en í sumar var ég í sumstarfi sem svæðisfulltrúi hjá Veitum og fékk fína starfsreynslu þar. Það var gaman að sjá þar hvað er margt í boði fyrir orkuverkfræðinga og mér finnst spennandi að eiga möguleika á að geta prófað alls konar í framtíðinni.
Segir Ísabella sem stefnir á framhaldsnám í orkuverkfræði í Danmörku að námi loknu. Nú á nýju ári heldur hún hins vegar í skiptinám til Madrid í eina önn.
Ég mæli með námi í verkfræði við HR. Námið er geggjaður undirbúningur fyrir komandi störf í framtíðinni, manni er hent út í djúpu laugina og lærir að tileinka sér nýja hluti. Námið er líflegt, skemmtilegir krakkar og frábærir kennarar.
Segir Ísabella að lokum.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir