Námið
Rannsóknir
HR
20. janúar 2026

Vinningshafar Torgsins heimsækja samstarfsaðila Reita í Kaupmannahöfn

Metnaðarfullt samstarfsverkefni á milli Háskólans í Reykjavík og Reita, fasteignafélags, hófst á síðasta ári með það að markmiði að tengja nám við raunveruleg verkefni og veita nemendum tækifæri til að spreyta sig á áskorunum á sviði fasteigna og þróunar.

Torgið - Auðugt samstarf háskóla og atvinnulífs

Úr varð hugmyndasamkeppni sem ber nafnið Torgið og gátu nemendur þvert á skólann skráð sig til leiks. Vinningsteymið fékk að launum ferð til Kaupmannahafnar til að heimsækja m.a. helstu samstarfsaðila Reita.

Vinningsteymið í fyrsta Torginu voru þær Emilía Nótt Davíðsdóttir og Karitas Líf Ríkarðsdóttir, nemendur í heilbrigðisverkfræði við HR. Með ferðinnni gafst þeim einstakt tækifæri til að kynnast fasteignaþróun, borgarskipulagi og arkitektúr í alþjóðlegu samhengi með heimsóknum, vettvangsferðum og samtölum við leiðandi aðila á sviðinu.

Hópurinn í ískaldri hjólaferð um Kaupmannahöfn.
Ísköld hjólaferð um borgina

Emilía Nótt og Karitas Líf dvöldu í Kaupmannahöfn ásamt starfsfólki Reita og fulltrúum frá HR dagana 10. – 14. janúar. Það má segja að þær hafi séð Kaupmannahöfn í öðru ljósi enda ekki hefðbundin ferð fyrir háskólanemendur. Fyrsta daginn var farið í skoðunarferð um borgina á hjólum í nístingskulda. Þótti Dönunum það helst til furðulegt uppátæki en það bítur jú ekkert á okkur Íslendinga og var hjólatúrinn eitt af því sem stóð upp úr í ferðinni hjá stelpunum. Hjólaferðin var á vegum Scaledenmark og í henni var borgarskipulag, sjálfbærar samgöngur og mannvæn hönnun sett í samhengi við daglegt borgarlíf.

Á degi tvö var farið í heimsókn í Fisketorvet, stærstu verslunarmiðstöð Kaupmannahafnar. Áskorunin sem stelpurnar leystu í Torginu sneri að framtíð Kringlunnar svo þeim þótti mjög áhugavert að fá einnig alþjóðlega sýn á slíkan rekstur.

Með ferðinnni gafst einstakt tækifæri til að kynnast fasteignaþróun, borgarskipulagi og arkitektúr í Kaupmannahöfn.
Samfélagsleg byggð

Í kjölfarið veitti arktitektarfyrirtækið C.F. Møller Architects innsýn í arkitektúr. Var farið í vettvangsferð í uppbyggingarverkefnið Sølund, þar sem samfélag, blönduð byggð og tenging kynslóða eru í forgrunni.

Okkur fannst mjög áhugavert að sjá framsetninguna og hugmyndafræðina á bak við blönduðu byggðina. Nú er þetta í byggingu en okkur finnst spennandi og hlökkum til að sjá hvernig byggðin mun verða þegar fólk flytur inn á komandi árum og sjá hvernig samfélagið innan byggðarinnar mun blómstra á sinn hátt.

Segja þær Emilía Nótt og Karitas Líf en einnig veitti markaðsstofan Dimension Design innsýn í markaðssetningu á fasteignaþróun.

Það má segja að þema ferðarinnar hafi verið kynning á íbúðarverkefnum sem eru hönnuð og byggð á þeim grunni að skapa samfélag. Einnig voru heimsóttir íbúðarkjarnarnir Robertshaven og Bovieran Danmark A/S sem eru einnig hannaðir með slíkt að leiðarljósi. Þar mátti sjá skýrt hvernig hönnun og sameiginleg rými geta stutt við vellíðan og sterkt samfélag, sérstaklega fyrir eldri borgara.

Kynntu úrlausn sína fyrir einni stærstu arktitektarstofu í Danmörku

Emílía Nótt og Karitas Líf fengu það flotta tækifæri að kynna úrlausn sína úr Torginu fyrir Henning Larsen, einni stærstu arkitektarstofu Danmerkur. Þess má til gamans geta að Henning Larsen kom að hönnun Háskólans í Reykjavík og Hörpu og vinnur nú með Reitum að uppbyggingu Nauthólsvegs (við hotel Natura). Þær fengu einnig kynningu á stórum, alþjóðlegum verkefnum sem eru í gangi innan stofunnar.

Reynslunni ríkari eftir lærdómsríka ferð

Ferðin var afar lærdómsrík og með henni staðfest enn frekar hversu mikilvægt það er að byggja brýr milli háskóla og atvinnulífs. Það eru sannarlega forréttindi að geta tengt nám og raunverulegt starfsumhverfi með þessum hætti og þannig veitt nemendum dýrmæta innsýn í fasteignaþróun sem skapar bæði skilning og veitir innblástur.

Við erum mjög glaðar að hafa ákveðið að taka þátt í Torginu og hvetjum aðra til að skrá sig í sambærileg verkefni. Þetta var gríðarlega stórt tækifæri sem við erum afar þakklátar fyrir. Við lærðum helling af verkefninu og fengum góða reynslu sem við munum geta nýtt okkur í framtíðinni. Við erum líka þakklátar öllu fólkinu sem við kynntumst á leiðinni og þeim samböndum sem við höfum myndað. Þetta er reynsla sem verður seint tekin af manni.

Segja þær Emilía Nótt og Karitas Líf að lokum um ferðina.

20. janúar 2026
Nýjustu fréttirnar