Are you kidding me!!! Finding Happiness When You're Fat, Broke, and Surrounded by Idiots

Opinn fyrirlestur um hamingjuna

  • 25.4.2017, 17:00 - 19:00

Opinn fyrirlestur með Judy Carter og Eddu Björgvinsdóttur

MPM, meistaranámið í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík, býður upp á upp á opinn fyrirlestur með hinum heimsþekkta uppistandara Judy Carter, í tilefni tíu ára afmælis námsins.

Judy Carter er óvenjulegur fyrirlesari sem er í senn stórkostlega fyndin, djúphyggin og með mjög áhugaverð skilaboð fyrir áheyrendur sína. Hún sýnir í fyrirlestri sínum fram á gildi þess að segja sögur og nýta skop og grín til þess að leysa vandamál, draga úr ágreiningi og sjá gildi þess jákvæða. Viðmið hennar „ekki verða æstur, vertu fyndinn,“ hvetur fólk til að takast á við breytingar, nýja tækni, jafnvægi á milli vinnu og einkalífs, kulnun í starfi - svo ekki sé talað um yfirþyrmandi vinnuálag - með gríni og glensi í stað örvæntingar.

Judy hefur komið fram í yfir 100 sjónvarpsþáttum, þar á meðal hjá Oprah Winfrey, og hún hefur unnið með Prince, Jerry Seinfeld, Jay Leno og Sarah Silverman. Hún er höfundur bókanna The Comedy Bible og Stand Up Comedy. Þetta er einstakt tækifæri til að læra um leiðtogahlutverkið og faglega stjórnun af þessari bráðfyndnu konu.

Edda Björgvins er landsmönnum að góðu kunn en hún hefur haldið fyrirlestra og námskeið um húmor á vinnustöðum sl. 10 ár. Á fyrirlestrinum mun hún hita upp fyrir Judy með vangaveltum um hversu grafalvarlegt samskiptatæki húmor er.

Fyrirlesturinn verður haldinn þriðjudaginn 25. apríl kl. 17-19 í stofu M101. Hann er öllum opinn meðan húsrúm leyfir.

Námskeið með Judy Carter

Judy mun jafnframt halda tvö námskeið sem fjalla um hvernig nýta má grín á árangursríkan hátt í  verkefnateymum.

Managing Projects with Comedy

Námskeiðið er kjörið fyrir alla sem óska sér að verða betri í að tala opinberlega, eiga skilvirkari samskipti, verða skemmtilegri og áhugaverðari — eða einfaldlega verða færari í að halda fólki vakandi á fundum. Námskeiðið kennir listina að láta aðra hlæja. Þátttakendur þurfa ekki að hafa neina reynslu af því að tala á sviði eða opinberlega.

Miðvikudaginn 26. apríl kl. 13 - 17 í stofum M325-326 í HR.

Managing with Your Story

Sögur og sagnalist eru mögnuð stjórnunartæki. Leiðtogar sem ná fram skuldbindingu fylgjenda sinna gera það með því að snerta við þeim tilfinningalega og skapa þannig djúpstæð tengsl. Lykillinn að því að láta þetta gerast eru frásagnir sem höfða til fólks, vekja hjá því metnað og leiða til umbreytinga. Þátttakendur læra meðal annars að beita sögum til að koma skilaboðum á framfæri og veita öðrum innblástur, byggja upp sögur þannig að þær hafi tilætluð áhrif, finna magnaðar sögur í hversdeginum og að skilgreina þær þrjár meginsögur sem þú þarft í viðskiptum.

Fimmtudaginn 27. apríl kl. 13-17 í stofum M325-326 í HR.Vinsamlegast athugið að á viðburðum Háskólans í Reykjavík (HR) eru teknar ljósmyndir og myndbönd sem notuð eru í markaðsstarfi HR. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á ru.is eða með því að senda tölvupóst á netfangið: personuvernd@ru.is
//
Please note that at events hosted at Reykjavik University (RU), photographs and videos are taken which might be used for RU marketing purposes. Read more about this on our ru.is or send an e-mail: personuvernd@ru.is