Námið
Rannsóknir
HR

Dómsalur í sýndarveruleika

Rannsókn við sálfræðideild HR
Yfirlit yfir rannsókn

Sálfræðideild Háskólans í Reykjavík hefur undanfarin ár verið að rannsaka notkun dómsals í sýndarveruleika fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta hvort sýndarveruleiki gagnist við að minnka vanlíðan og kvíða sem þolendur kynferðisofbeldis geta haft gagnvart því að fara í raunverulegan dómsal. 

Gagnaöflun er lokið og við erum mjög þakklát þeim fjölmörgu þolendum sem tóku þátt. Niðurstöður rannsóknarinnar verða birtar þegar þær hafa verið greindar að fullu. 

Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er Rannveig S. Sigurvinsdóttir, dósent við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík (HR) og rannsóknin fékk leyfi Vísindasiðanefndar (VSN-20-061).

Rannsóknarteymið

Rannveig S. Sigurvinsdóttir

Dr. Rannveig Sigurvinsdóttir er dósent við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík. 

Hún lauk doktorsprófi árið 2016 frá University of Illinois at Chicago í sálfræði.

Rannsóknir hennar hafa birst í alþjóðlegum tímaritum og fjalla um áhrif áfalla og ofbeldis á heilsu og líðan. Rannveig hefur einnig rannsakað hvað gerist þegar þolendur segja frá kynferðisofbeldi og hvernig viðbrögð annarra geta haft áhrif á líðan. Þar að auki hefur Rannveig áhuga á áföllum og geðheilsu hinsegin fólks og samfélagslegum inngripum gegn ofbeldi.

Bryndís Björk Ásgeirsdóttir

Dr. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir er prófessor og sviðsforseti samfélagssviðs Háskólans í Reykjavík. 

Hún lauk doktorsnámi í sálfræði við King´s College London, Institute of Psychiatry, Psychology and Neuroscience.

Bryndís Björk hefur birt fjölda vísindagreina í alþjóðlegum tímaritum um geðheilsu og áhrif streituvaldandi atburða og reynslu á líðan og hegðun ungmenna. Þá hefur hún rannsakað verndandi þætti í lífi ungs fólks sem hefur verið beitt kynferðislegu ofbeldi eða heimilisofbeldi og hvernig bæta má lífsánægju og vellíðan.

Erla Katrín Jónsdóttir

Doktorsnemi við sálfræði við Háskólann í Reykjavík.

Erla Katrín er doktorsnemi við Háskólann í Reykjavík. Hún er með meistaragráðu í taugasálfræði frá Bristol University. Erla Katrín hefur birt greinar í alþjóðlegum tímaritum um andlegan vöxt eftir áföll og um dómsal í sýndarveruleika.

Hún áhuga á afleiðingum áfalla, áfallastreituröskun, andlegum vexti eftir áföll og sálrænum ferlum s.s. minni, athygli, skynjun o.fl. Þá hefur hún einnig áhuga á taugaþroskaröskunum á borð við einhverfu og hvort það séu til einstakir undirhópar sem mynda ákveðið mynstur þegar kemur að taugasálfræðilegum svipgerðum og mismunandi birtingarmyndum.

Netfang: erlaj@ru.is

Netfang: annaa23@ru.is

Anna María Aradóttir

Meistaranemi í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík.

Anna María er fyrsta árs nemi MSc í klínískri sálfræði.

Hún starfar einnig sem meðferðarfulltrúi hjá SÁÁ en hefur auk þess langa reynslu af störfum með fötluðum börnum og einstaklingum sem glíma við geðfatlanir.

Anna María hefur þar af auki mikinn áhuga á áföllum og geðheilsu kvenna, sem og flestu sem viðkemur heilbrigðum lífstíl, markmiðasetningu og hvernig bæta má lífsánægju.

Hildur Hálfdánardóttir

Hildur er annars árs meistaranemi í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík og útskrifast sem sálfræðingur í sumar.

Hún hefur langa reynslu af starfi innan Landspítala, bæði af Bráðamóttöku og Móttökugeðdeild og lauk starfsnámi hjá Áfallteymi Landspítalans nú í vor. Hildur starfar sem sálfræðingur á Áfalla og Sálfræðimiðstöðinni. 

Hún hefur áhuga á áföllum og geðheilsu þolenda og hvernig hægt sé að auka lífsgæði þeirra í kjölfar áfalls. Hún skrifaði BS verkefni sitt um áhrif líkamlegs-, andlegs- og kynferðislegs ofbeldis í barnæsku á þróun þunglyndis á fullorðinsárum. Meistaraverkefni hennar fjallar um upplifun þolenda kynferðisofbeldis af réttarkerfinu og áhrif þess að bera vitni í máli sínu sem brotaþoli á andlega líðan. 

Hildur Hálfdánardóttir, Meistaranemi í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík

Netfang: hildurh22@ru.is

Kristína Lentz
Kristína Lentz

Kristína er með meistaragráðu í alþjóðalögum frá The Australian National University (ANU). Hún hefur starfað sem lögfræðingur í opinberri stjórnsýslu og býr yfir þekkingu á íslensku réttarkerfi.

Hún hefur áhuga á mannréttindum og málefnum tengdum stuðningi við þolendur ofbeldis.

Hafdís Ingimarsdóttir

Hafdís er meistaranemi í Mannauðsstjórnun og vinnusálfræði. Hún starfar sem ráðgjafi á geðsviði Landspítala og sem aðstoðarkennari innan sálfræðideildar Háskólans í Reykjavík. Hún kláraði grunnnám í sálfræði og skrifaði BS verkefni sitt um upplifanir þolenda kynferðisofbeldis af íslensku réttarkerfi.

Hafdís hefur áhuga á geðheilbrigði, afbrotahegðun og afleiðingum áfalla. Einnig hefur hún áhuga á málefnum tengdum velferð fólks og viðeigandi stuðningi.

Kristel Dögg Vilhjálmsdóttir

Kristel er í viðbótardiplómanámi í afbrotafræði við Háskóla Íslands. Hún lauk BSc námi í sálfræði við Háskólann í Reykjavík.

Kristel hefur reynslu af því að vinna með þolendum kynferðisofbeldis sem hópaleiðbeinandi í sjálfshjálparhópum hjá Stígamótum. Þar að auki var hún sjálfboðaliði í Kristínarhúsi í þau 3 ár sem það var starfrækt. Kristínarhús var athvarf fyrir konur sem voru fórnarlömb mansals, vændis og kynferðisofbeldis. Einnig skrifaði hún BSc lokaverkefnið sitt í tengslum við líkamlegt-, og kynferðislegt ofbeldi og kynferðislegt áreiti í afplánun, afleiðingar þess og framboð á aðstoð fyrir fanga sem orðið hafa fyrir slíkri reynslu í afplánun. Kristel hefur mikinn áhuga á að vinna með fólki og hefur meðal annars einnig starfað við liðveislu, lauk vettvangsnámi sínu á Vernd fangahjálp, það er áfángaheimili og mikilvægt úrræði fyrir dómþola sem eru að ljúka afplánun. Hún er núverandi sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum í verkefni sem heitir aðstoð eftir afplánun. 

Hún hefur áhuga á réttarsálfræði, afleiðingum áfalla, áfallastreituröskun, andlegum vexti, geðheilsu, persónuleikaröskunum og langvarandi og flóknum tilfinningalegum vanda, málefnum brotaþola kynfeðisofbeldis, málefnum og endurhæfingu fanga, og því hvernig má bæta lífsgæði, samkennd, innsæi og sjálfsvitund einstaklinga. 

Stuðningsúrræði

Hvert get ég leitað hjálpar í kjölfar kynferðisofbeldis?

Kvennaathvarfið
  • Sími: Skrifstofa: 561 3720
  • Neyðarnúmer allan sólarhringinn: 561 1205
  • Netfang:  kvennaathvarf@kvennaathvarf.is
  • Athvarf, fyrir konur og börn þeirra þegar dvöl í heimahúsum er þeim óbærileg vegna andlegs eða líkamlegs ofbeldis eiginmanns, sambýlismanns eða annarra heimilismanna. Athvarfið er einnig fyrir konur sem hefur verið nauðgað.
  • Símaráðgjöf allan sólarhringinn í síma 561 1205. Konur geta hringt og rætt mál sín og fengið stuðning og upplýsingar.
  • Ókeypis viðtöl, þar sem konur geta komið og fengið stuðning og upplýsingar án þess að til dvalar komi. Nauðsynlegt er að hringja áður í síma 561 1205 og panta tíma í viðtal.
  • Sjálfshjálparhópar starfa á vegum Kvennaathvarfsins, þar sem nokkrar konur hittast reglulega undir handleiðslu starfskonu athvarfsins. Nauðsynlegt er að koma í viðtal áður.
Stígamót
  • Laugavegur 170, 105 Reykjavík
  • Símanúmer : 562 6868 / 800 6868
  • Netfang: stigamot@stigamot.is
  • Þjónusta Stígamóta er fyrir fólk frá 18 ára aldri, bæði konur og karla. Flestir sem koma til Stígamóta eru brotaþolar kynferðisofbeldis, bæði í æsku og/eða á fullorðinsárum. Stígamót eru líka fyrir fjölskyldumeðlimi og aðra aðstandendur brotaþola.
Bjarkarhlíð
  • Bjarkarhlíð við Bústaðarveg, 108 Reykjavík
  • Símanúmer: 553 3000
  • Netfang:  bjarkarhlid@bjarkarhlid.is
  • Bjarkarhlíð er miðstöð fyrir fullorðna þolendur ofbeldis af öllum kynjum. Markmið Bjarkarhlíðar er að veita stuðning og ráðgjöf ásamt fræðslu og umfjöllun um eðli og afleiðingar ofbeldis, auk þess að gefa skýr skilaboð um að ofbeldi verði ekki liðið. Þar gefst einstaklingum kostur á viðtölum og ráðgjöf hjá félagsráðgjöfum, lögreglu og lögfræðingum þeim að kostnaðarlausu og á þeirra forsendum.
Kvennaráðgjöfin
  • Túngötu 14, 101 Reykjavík
  • Sími: 552 1500
  • Kvennaráðgjöfin er ókeypis lögfræði- og félagsráðgjöf fyrir konur. Opnunartímar eru þriðjudaga frá kl. 20:00 til 22:00 og fimmtudaga frá kl. 14:00 til 16:00. Megintilgangur starfseminnar er að veita konum stuðning og ráðgjöf, en Kvennaráðgjöfin er opin öllum konum og körlum og má hvort sem er koma eða hringja. Þjónustan er endurgjaldlaus og þurfa þeir sem leita til ráðgjafarinnar ekki að gefa upp nafn eða aðrar persónuupplýsingar.
  • Hjá Kvennaráðgjöfinni starfa lögfræðingar, félagsráðgjafar, laganemar og félagsráðgjarfanemar í sjálfboðavinnu. Alltaf er þörf nýrra sjálfboðaliða og leikur ekki vafi á því að reynslan af sjálfboðastörfum fyrir Kvennaráðgjöfina kemur bæði félagsráðgjafar- og laganemum til góða.
Heimilisfriður
  • Sími : 555 3020
  • Heimilisfriður (hét áður Karlar til ábyrgðar) er eina sérhæfða meðferðarúrræðið fyrir karla og konur sem beita ofbeldi á heimilum hér á landi. Um er að ræða einstaklings- og hópmeðferð hjá sálfræðingum. 
  • Mikilvægt er að rjúfa vítahring ofbeldis með því að styrkja meðferðarúrræði fyrir gerendur. Markmið verkefnisins er að veita körlum og konum sem beitt hafa heimilisofbeldi meðferð og aðstoð séu þeir reiðubúnir að leita sér hjálpar. Verkefnið er á ábyrgð Jafnréttisstofu og liður í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Verkefnið felur í sér einstaklings- og hópmeðferð fyrir karla og konur sem beita maka sína ofbeldi sem og stuðning við maka þeirra karla sem leita sér aðstoðar.
Drekaslóð
  • Borgartúni 3, 2.hæð, 105 Reykjavík
  • Símanúmer: 551 5511 / 860 3358
  • Fræðslu- og þjónustumiðstöð fyrir þolendur alls kyns ofbeldis og aðstandendur þeirra. Þau bjóða upp á einstaklingsviðtöl, fjölbreytt hópastarf og ýmis konar fræðslu. Miðstöðin er fyrir fólk af öllum kynjum. Skrifstofan þeirra er opin alla virka daga frá 10:00 - 17:00.
Þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar
  • www.reykjavik.is/thjonustumidstodvar
  • Sími: 411 1111
  • Þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar eru staðsettar í sex hverfum og sinna þjónustu ýmiss konar við einstaklinga og fjölskyldur. Þar er hægt að leita sér stuðnings ef um ofbeldistengd málefni eru að ræða, hvort sem það er á heimili eða utan þess. Stuðningurinn er í formi ráðgjafar ýmiss konar þar sem að þjónustumiðstöðvarnar veita meðal annars félags- og fjölskylduráðgjöf.
Leyfi og ábyrgðarmaður

Rannsóknin hefur fengið leyfi Vísindasiðanefndar (VSN-20-061) og er ábyrgðarmaður rannsóknarinnar Rannveig S. Sigurvinsdóttir, dósent við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík (HR).