Námið
Rannsóknir
HR

Rannsókn á geðheilsu karla og kvenna á Íslandi

Rannsókn við sálfræðisvið HR

Heildstæð mynd af geðheilsu Íslendinga

Vísindamenn við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík hófu nýlega viðamikla langtíma rannsókn á geðheilsu karla og kvenna á Íslandi. Sjónum verður sérstaklega beint að samspili geðheilsu, lífsánægju, félagslegs stuðnings, streitu og áfalla. 

Á undanförnum árum hefur orðið vitundarvakning á Íslandi um mikilvægi geðheilsu. Markmið rannsóknarinnar er að fá heildstæða mynd af geðheilsu Íslendinga og skoða hvernig félagslegur stuðningur getur gagnast sem best við streituvaldandi aðstæður og áföll. Þetta hefur aldrei verið kannað með þessum hætti áður hér á landi. Rannsóknin byggir á stóru tilviljunarúrtaki 18-80 ára einstaklinga úr Þjóðskrá. Þátttakan felst í að svara símakönnun. Hringt verður frá Háskólanum í Reykjavík og viðkomandi beðinn að svara spurningum. Svör þátttakenda eru ekki persónugreinanleg. 

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, er  verndari rannsóknarinnar.

Á mynd frá vinstri: Þóra Sigfríður Einarsdóttir sálfræðingur og doktorsnemi við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík, Dr. Rannveig Sigurvinsdóttir og lektor við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík, Guðni Th. Jóhannesson Forseti Íslands og Dr. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, dósent við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík.
Á mynd frá vinstri: Þóra Sigfríður Einarsdóttir sálfræðingur og doktorsnemi við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík, Dr. Rannveig Sigurvinsdóttir og lektor við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík, Guðni Th. Jóhannesson Forseti Íslands og Dr. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, dósent við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík.
Bryndís Björk Ásgeirsdóttir mætti í Kastljósið í gær með Guðna Th. Jóhannessyni forseta til að ræða nýja rannsókn á geðheilsu Íslendinga.
Bryndís Björk Ásgeirsdóttir mætti í Kastljósið í gær með Guðna Th. Jóhannessyni forseta til að ræða nýja rannsókn á geðheilsu Íslendinga. 

Upplýsingabréf

Kæri viðtakandi

Þér er boðið að taka þátt í rannsókn um geðheilsu karla og kvenna á Íslandi. Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna samspil geðheilsu, lífsánægju, félagslegs stuðnings, streitu og áfalla. Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er dr. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, dósent við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík (HR) og annar aðalrannsakandi er dr. Rannveig Sigurvinsdóttir, lektor við sálfræðisvið HR.

Verndari verkefnisins er forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson

Á undanförnum árum hefur orðið vitundarvakning um mikilvægi geðheilsu. Markmið þessarar rannsóknar er að fá heildstæða mynd af geðheilsu Íslendinga og skoða hvernig félagslegur stuðningur getur gagnast sem best við streituvaldandi aðstæður og áföll. Þetta hefur aldrei verið kannað með þessum hætti áður hér á landi. 

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands

Við bjóðum þér að taka þátt því nafn þitt kom upp í tilviljunarúrtaki 18-80 ára úr Þjóðskrá. Þetta er langtímarannsókn sem verður gerð árið 2019 og svo aftur að einu og tveimur árum liðnum.

Þátttakan felst í að svara símakönnun og mögulega ítarlegra viðtali fyrir þá sem hafa áhuga á því. Hringt verðurfrá Háskólanum í Reykjavík og þú beðin(n) að svara spurningum. Áætlað er að hvert símtal taki um 20 til 40 mínútur. Í lok könnunarinnar verður þér boðið að svara spurningunum aftur að ári liðnu og að taka afstöðu til hvort þú hafir áhuga á að haft verði samband við þig aftur til að taka þátt í öðrum hluta þessarar rannsóknar, þ.e. viðtalshluta hennar. Þá verður þér boðið að gefa kost á að haft verði samband við þig á næstkomandi árum og þér boðin þátttaka í öðrum rannsóknum á þessu sviði. 

Nafn þitt eða aðrar persónurekjanlegar upplýsingar verða ekki tengd við svör þín. Rannsóknin er unnin með samþykki Vísindasiðanefndar og hefur verið tilkynnt til Persónuverndar. Það er undir þér komið að ákveða hvort þú viljir taka þátt. Ef þú ákveður að taka þátt er þér frjálst að hætta í rannsókninni hvenær sem er eða sleppa að svara einstökum spurningum án útskýringa. Engin áhætta felst í því að svara spurningunum en ef þú upplifir einhver óþægindi á meðan þú svarar er þér að sjálfsögðu velkomið að taka hlé eða hætta þátttöku hvenær sem er. Öll rannsóknargögn verða varðveitt án persónuauðkenna og öllum rannsóknargögnum verður eytt að rannsóknarúrvinnslu lokinni.

Ekki er greitt fyrir þátttöku í rannsókninni en hún getur verið bæði áhugaverð og fræðandi fyrir þátttakendur. Niðurstöður rannsóknarinnar verða birtar í vísindaritum og kynntar almenningi í fjölmiðlum og á opnum fyrirlestrum. 

Ef þú hefur einhverjar spurningar er þér velkomið að hafa samband við ábyrgðarmann rannsóknarinnar, Bryndísi Björk Ásgeirsdóttur, í síma 599 6432 eða í tölvupósti:  bryndis@hr.is. Ef þú vilt ræða í trúnaði við meðferðaraðila er þér velkomið að hafa samband við Sjöfn Evertsdóttur, sálfræðing hjá Áfalla- og sálfræðimiðstöðinni í síma 899 4969 og eða í tölvupósti:  sjofn@asm.is og fá viðtalstíma hjá sálfræðingi þér að kostnaðarlausu.

Með von um góðar viðtökur, fyrir hönd rannsakenda,

Bryndís Björk Ásgeirsdóttir
Sviðsforseti samfélagssviðs HR

Rannsóknarteymið

Bryndís Björk Ásgeirsdóttir

Dr. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir er sviðsforseti samfélagssviðs Háskólans í Reykjavík. 

Hún lauk doktorsnámi í sálfræði við King´s College London, Institute of Psychiatry, Psychology and Neuroscience.

Bryndís Björk hefur birt fjölda vísindagreina í alþjóðlegum tímaritum um geðheilsu og áhrif streituvaldandi atburða og reynslu á líðan og hegðun ungmenna. Þá hefur hún rannsakað verndandi þætti í lífi ungs fólks sem hefur verið beitt kynferðislegu ofbeldi eða heimilisofbeldi og hvernig bæta má lífsánægju og vellíðan.

Rannveig S. Sigurvinsdóttir

Dr. Rannveig Sigurvinsdóttir er lektor við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík. 

Hún lauk doktorsprófi árið 2016 frá University of Illinois at Chicago í sálfræði.

Rannsóknir hennar hafa birst í alþjóðlegum tímaritum og fjalla um áhrif áfalla og ofbeldis á heilsu og líðan. Rannveig hefur einnig rannsakað hvað gerist þegar þolendur segja frá kynferðisofbeldi og hvernig viðbrögð annarra geta haft áhrif á líðan. Þar að auki hefur Rannveig áhuga á áföllum og geðheilsu hinsegin fólks og samfélagslegum inngripum gegn ofbeldi. 

Þóra Sigfríður Einarsdóttir

Þóra Sigfríður Einarsdóttir, doktorsnemi við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík starfar einnig sem sálfræðingur hjá Domus Mentis Geðheilsustöð þar sem hún sinnir einkum fólki sem hefur orðið fyrir áföllum, s.s. slysi, ofbeldi eða missi. 

Þóra Sigfríður lauk embættisprófi í sálarfræði frá Árósarháskóla árið 2003, með áherslu á áfallasálfræði. Hún hefur starfað bæði í Danmörku og á Íslandi og bætt við sig þekkingu um áföll, hugræna atferlismeðferð og handleiðslu. Einnig hefur hún athugað samspili áfalla, geðheilsu og verndandi þátta eins og félagslegs stuðnings og birt grein um það í Psykolog Nyt (danska sálfræðiritinu). 

Þóra Sigfríður Einarsdóttir, doktorsnemi við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík.
Dr. Sarah Ullman er prófessor í afbrotafræði og sálfræði við University of Illinois at Chicago.
Sarah E. Ullman

Dr. Sarah Ullman er prófessor í afbrotafræði og sálfræði við University of Illinois at Chicago. Rannsóknir hennar beinast að kynferðisofbeldi, heilsuáhrifum þess og ofbeldisforvörnum. 

Hún hefur birt fjölda fræðigreina um áhrif ofbeldis gegn konum og hvernig viðbrögð annarra geta haft sterk áhrif þegar þolendur segja frá ofbeldi. Hún hefur framkvæmt stórar langtímarannsóknir í Bandaríkjunum um áhættu- og vernandi þætti fyrir heilsu þolenda kynferðisofbeldis. 

Rannsóknir hennar núna beinast að því að meta inngrip fyrir þolendur kynferðisofbeldis og heimilisofbeldis sem miðar að því að bæta heilsu með því að bæta félagslegan stuðning þeirra. 

Hún hefur birt bók um brautryðjendastarf sitt og rannsóknir í bókinni Talking About Sexual Assault: Society's Response to Survivors sem er gefin út af American Psychological Association.

Aðstoðarrannsakendur

Fimm meistaranemar í klínískri sálfræði við HR eru aðstoðarrannsakendur í verkefninu. Þetta eru þær Daðey Albertsdóttir, Eva Bryndís Pálsdóttir, Helga Maren Hauksdóttir, Thelma Lind Smáradóttir og Valdís Ósk Jónsdóttir.

Spurt og svarað

Hver er tilgangur rannsóknarinnar?
Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna samspil lífsánægju, félagslegs stuðnings, streitu og áfalla. Á undanförnum árum hefur orðið vitundarvakning um mikilvægi geðheilsu. Markmið þessarar rannsóknar er að fá heildstæða mynd af geðheilsu Íslendinga og skoða hvernig félagslegur stuðningur getur gagnast sem best við streituvaldandi aðstæður og áföll. Þetta hefur aldrei verið kannað með þessum hætti áður hér á landi.

Hvað verður gert við niðurstöðurnar? 
Niðurstöður rannsóknarinnar geta gefið mikilvægar upplýsingar um áhrif streituvaldandi aðstæðna og áfalla á geðheilsu. Niðurstöðurnar verða nýttar til að stuðla að markvissari forvörnum og meðferðarúrræðum á Íslandi. Svör þín geta því hjálpað til við að hanna árangursrík stuðningsúrræði fyrir fólk sem hefur orðið fyrir áföllum. 

Af hverju er haft samband við mig?
Þátttakendur í rannsókninni eru fólk 18 til 80 ára og er valið af handahófi úr Þjóðskrá. 

Af hverju ætti ég að taka þátt? Hver er minn ávinningur af því að taka þátt?
Niðurstöður þessarar rannsóknar gætu gefið mikilvægar upplýsingar um áhrif áfalla á geðheilsu fólks á Íslandi og hjálpað til við að þróa stuðningsúrræði fyrir þá einstaklinga sem verða fyrir áföllum. 

Til að geta þróað úrræði þarf að hafa áreiðanlegar upplýsingar til að byggja á. Þín þátttaka er ákaflega mikilvæg og getur stuðlað að aukinni þekkingu um áhrif streituvaldandi aðstæðna og áfalla á geðheilsu fólks. 

Hverjir standa á bak við rannsóknina?
Rannsóknin er unnin af vísindamönnum við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík og Háskólann í Illinois í Chicago. Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er dr. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, dósent og er annar aðalrannsakandi dr. Rannveig Sigurvinsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík. 

Aðrir rannsakendur eru Þóra Sigfríður Einarsdóttir, sálfræðingur og dr. Sarah E. Ullman, prófessor við Háskólanum í Illinois í Chicago. 

Hvernig eru gögnin varðveitt? 
Svör þátttakenda verða ekki tengd við persónuauðkenni við vinnslu gagnanna. Rannsakendur hafa einir aðgang að gögnum og þau eru varðveitt á læstu gagnadrifi Háskólans í Reykjavík. 

Rannsóknaraðilar eru bundnir trúnaði og þagnarskyldu varðandi allar upplýsingar sem þátttakandi veitir og lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og skilmálum Persónuverndar vegna rannsóknarinnar verður fylgt í hvívetna. Rannsóknin er unnin með samþykki Vísindasiðanefndar og hefur verið tilkynnt til Persónuverndar. 

Hvað þarf ég að gera?
Sérþjálfaðir spyrlar hafa samband við þig símleiðis frá sálfræðisviði Háskólans í Reykjavík og bjóða þér að taka þátt í rannsókninni sem felst í því að svara spurningum í síma. 

Ég hef ekki glímt við neinn vanda, þarf ég að svara?
Til að fá sem réttasta mynd af geðheilsu íslensku þjóðarinnar og tíðni streituvaldandi aðstæðna og áfalla er mikilvægt að sem flestir taki þátt. Þannig er jafn mikilvægt að fólk sem hefur ekki upplifað áföll eða streitu taki þátt og fólk sem hefur upplifað slíkt.

Hvað gerist ef ég er byrjuð/aður að svara og hef ekki tíma til að klára spurningarnar? 
Þér er frjálst að taka hlé eða hætta þátttöku hvenær sem er. Spyrillinn mun bjóða þér tíma sem þér hentar til að halda áfram að svara könnuninni. 

Þarf ég að svara öllum spurningunum?
Nei, þú getur alltaf valið að svara ekki ákveðnum spurningum. 

Hvað tekur rannsóknin langan tíma?
Rannsóknin tekur á bilinu 20 til 40 mínútur. 

Ég er hrædd um að það verði erfitt fyrir mig að svara sumum spurningum. Get ég fengið stuðning ef þess þarf?
Ef þú vilt ræða í trúnaði við meðferðaraðila þér að kostnaðarlausu, þá er þér velkomið að hafa samband við Sjöfn Evertsdóttur sálfræðing hjá Áfalla- og sálfræðimiðstöðinni í síma 899 4969 og netfang: sjofn@asm.is og fá viðtalstíma hjá sálfræðingi þér að kostnaðarlausu.

Einnig er gott að hafa í huga að manneskjan hefur tilhneigingu til að einblína á það neikvæða eða veikleika í stað hið jákvæða, styrkleika okkar. Þetta virðist manneskjunni eðlilegt og er talað um tilhneigingu til hið neikvæða (e. Negativity Bias) því er mikilvægt að staldra við og skoða hvað er að skila árangri og hvað ekki.

Bryndís Björk Ásgeirsdóttir
Sviðsforseti samfélagssviðs HR