Grunnlínur: Mikilvægustu hagsmunir Íslands á sviði hafréttar?
Guðni Th. Jóhannesson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands og fyrrverandi forseti Íslands, Bjarni Már Magnússon, deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst og Snjólaug Árnadóttir, dósent við lagadeild HR, munu fjalla um álitamál varðandi stöðugleika íslenskra grunnlína í Háskólanum í Reykjavík miðvikudaginn 28. maí kl. 12-13:30. Fundarstjóri er Þórdís Ingadóttir, prófessor við lagadeild HR.
Íslendingar hafa haft umtalsverð áhrif á þróun alþjóðlegs hafréttar síðan þeir færðu efnahagslögsögu sína í 50 og því næst 200 sjómílur frá grunnlínum á tímum þorskastríðanna. Þeir hafa einnig teygt mörk hafsvæða sinna langt frá ströndum með því að styðjast við framsækna túlkun á reglum um grunnlínur, þ.e. með notkun beinna grunnlína allt frá árinu 1950.
Grunnlínur Íslands hafa tekið breytingum í áranna rás og til dæmis verið færðar út vegna eldgosa. Þær ná víða langt frá eiginlegri strandlengju Íslands og hefur það sætt gagnrýni vegna þess að Ísland fær með þessu móti fullveldisrétt yfir stærri hafsvæðum, og þar með fiskimiðum, en það myndi gera með hófstilltari grunnlínum. Alþjóðlegar reglur um grunnlínur hafa haldið áfram að þróast og framkvæmd ríkja breyst ört undanfarinn áratug.
Nú er svo komið að mörg ríki telja sér heimilt að festa grunnlínur í sessi þannig að þær breytist ekki vegna landrofs og hækkandi sjávarmáls. Þetta gengur gegn aldagömlu íslensku dómafordæmi en þó hafa íslensk stjórnvöld ekki gefið út opinbera afstöðu gagnvart þessari lagaþróun. Þá hefur Alþjóðadómstóllinn í Haag nýlega fjallað ítarlega um skilyrði til notkunar beinna grunnlína og kann að vera að grunnlínur Íslands standist ekki öll þau próf sem þar eru sett fram. Brýnt er að tryggja stöðugleika íslenskra grunnlína vegna þess að þær afmarka mikilvægustu hagsmuni Íslands á sviði hafréttar.
Dagskrá
- „Mjög vafasamt.“ Framlag Íslendinga til notkunar grunnlína í hafrétti
Guðni Th. Jóhannesson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands og fyrrverandi forseti Íslands. - Vandamál í hverju horni eða allt í góðu lagi?
Bjarni Már Magnússon, deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst. - Vendingar í hafrétti varðandi notkun grunnlína
Snjólaug Árnadóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík
Boðið verður upp á léttan hádegisverð og öll velkomin meðan húsrúm leyfir.
Vinsamlegast athugið að á viðburðum Háskólans í Reykjavík (HR) eru teknar ljósmyndir og myndbönd sem notuð eru í markaðsstarfi HR. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á ru.is eða með því að senda tölvupóst á netfangið personuvernd@ru.is.
Please note that at events hosted at Reykjavík University (RU), photographs and videos are taken which might be used for RU marketing purposes. Read more about this on out ru.is or send an e-mail: personuverd@ru.is.