Orku- og véltæknifræði
Hvað læri ég?
Í tæknifræði er lögð áhersla á að byggja upp verkvit, fræðilega fagþekkingu og tengsl við atvinnulífið. Námið er tilvalið fyrir þau sem vilja geta hafið starfsferil sinn strax að loknu BSc–námi. Þau sem útskrifast með lokapróf í tæknifræði hljóta lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur.
Störf orku- og véltæknifræðinga tengjast meðal annars farartækjum, framleiðsluferlum og orkuverum. Framfarir á sviði endurnýjanlegra orkugjafa opna fyrir ótal tækifæri í virkjun vatnsorku, vindorku og sjávarfallaorku ásamt þróun jarðvarma, lífmassa og efnarafala.
Þekking og færni
Í lærdómsviðmiðum má sjá hvaða þekkingu, leikni og hæfni nemendur eiga að búa yfir að námi loknu.
Hvernig læri ég?
Hönnun reglun og stýringar
Orku- og véltæknifræði snýr að hönnun, greiningu og rekstri fjölbreyttra vélrænna kerfa og byggir meðal annars á styrkri stoð í tölvustuddri hönnun, varma- og straumfræði, efnisfræði og vélahönnun ásamt reglun og stýringum. Lögð er áhersla á öll svið framleiðsluferils, frá hönnun og greiningu að hermun og smíði ásamt prófunum og rekstri.
Sérhæfing
Sérhæfingarsviðin eru tvö, véltæknileg hönnun og orkutækni. Einnig geta nemendur valið námskeið úr verkfræði, viðskiptafræði eða tölvunarfræði. Á 6. önn taka nemendur valnámskeið sem bjóða upp á sérhæfingu í véltæknilegri hönnun eða orkutækni. Sérhæfing fæst einnig í starfsnámi og með lokaverkefni á 7. önn.
Dæmi um sérhæfingu í orku er námskeiðið Jarðhiti. Dæmi um sérhæfingu í véltæknifræði er Sveiflufræði.
Lifandi nám
Nemendur í orku- og véltæknifræði við HR fá ótal tækifæri til þess að leysa raunveruleg vandamál, allt frá hugmyndastigi að hönnun og smíði, ásamt því að öðlast sterkan og breiðan fræðilegan grunn. Nemendur eru hvattir til að taka þátt í hönnunarverkefnum og/eða hönnunarnámskeiðum til að kynnast raunverulegum og aðkallandi hagnýtum verkefnum.
Í náminu vinna nemendur hagnýt, raunhæf verkefni á hverri önn þar sem markmiðið er að undirbúa þá fyrir atvinnulífið. Á fyrsta námsári standa nemendur frammi fyrir raunhæfu verkefni sem þarf að takast á við og skoða frá mörgum hliðum. Námskeiðið heitir Inngangur að tæknifræði. Sjá nánar í flipa um þriggja vikna námskeið.
Viðamikið lokaverkefni
Nemendur ljúka lokaverkefni á sjöundu og síðustu önn námsins. Lokaverkefnið byggist á sérhæfingu hvers og eins og það má vinna í samvinnu við fyrirtæki eða í tengslum við rannsóknarverkefni starfsmanna.
Starfsnámið veitir forskot
Nemendum í orku- og véltæknifræði býðst að taka 12 ECTS í starfsnámi. Tæknifræðideild er með samninga við um 40 fyrirtæki og stofnanir. Margir nemendur hafa fengið tilboð um starf til lengri eða skemmri tíma í kjölfar starfsnáms og lokaverkefna sem unnin eru í samstarfi við fyrirtæki.
Með því að ljúka starfsnámi auka nemendur þekkingu sína á því sviði sem þau stunda nám á. Nemendur búa sig jafnframt undir störf að námi loknu.
Ávinningur af starfsnámi er margvíslegur en helsta markmiðið með starfsnámi er að nemendur fái innsýn í fagið og efli tengsl sín innan atvinnulífsins. Um leið öðlast þeir reynslu af úrlausn raunhæfra viðfangsefna og beita aðferðum tæknifræðinnar við lausn þeirra.
Meðal fyrirtækja sem nemendur hafa sótt starfsnám til eru:
- Orka náttúrunnar
- Mannvit
- HB Grandi
- HS Orka
- Jáverk
- Orkuveita Reykjavíkur
- Ístak
- VSÓ Ráðgjöf
- Landsvirkjun
- Össur
- Marel
- Síminn
- VSB verkfræðistofa
- Verkís
- VHE vélaverkstæði
- Efla
- Landsnet
- Norðurorka
- Alcoa
- Stálsmiðjan
- Framtak
- Elkem
- Trefjar
Skiptinám
Nemendur geta sótt um að fara í skiptinám við erlendan háskóla. Skiptinám er tilvalið tækifæri fyrir upprennandi tæknifræðinga til að kynnast námi og störfum í öðrum löndum, og það er jafnvel hægt að nýta skiptinám til að öðlast meiri sérhæfingu á áhugasviði. Nemendur í BSc-námi þurfa að vera með 7 eða yfir í meðaleinkunn og búnir með 60 einingar þegar farið er í skiptinámið. Alþjóðaskrifstofa veitir frekari upplýsingar um hvert hægt er að fara í skiptinám.
CDIO-samstarfsnetið
Tæknifræðideild er aðili að samstarfsneti um að þróa og bæta kennslu í tæknifræði, CDIO (Conceive, Design, Implement, Operate). Í dag eru um 100 háskólar frá öllum heimshornum þátttakendur og vinna skólarnir kerfisbundið að því að þróa námsbrautir í tæknifræði og verkfræði með áherslu á þarfir atvinnulífsins.
Í tæknifræði við HR er færni í hugmyndavinnu, verkefnastjórnun, samskiptum og kynningum þjálfuð í ýmsum námskeiðum gegnum allt námið.
Í CDIO-aðferðafræðinni er lögð áhersla á samráð háskóla og atvinnulífs og fagfélaga. Mótun námsbrauta í anda CDIO á að tryggja að nemendur fái lausnamiðaða tæknilega færni sem vinnuveitendur sækjast eftir, án þess að slegið sé af fræðilegum kröfum.
Lesa meira um CDIO - Conceive, Design, Implement, Operate.
Raunveruleg verkefni
Nemendur taka þátt í spennandi hönnunarverkefnum strax á fyrsta ári. Stærri verkefni eins og lokaverkefni eru oftast unnin í samvinnu við fyrirtæki og stofnanir.
Á fyrsta námsári standa nemendur frammi fyrir raunhæfu verkefni sem þarf að takast á við og skoða frá mörgum hliðum. Námskeiðið heitir Inngangur að tæknifræði. Nemendur vinna í hópum við að útfæra lausnir og leysa þau fjölmörgu vandamál sem upp gætu komið. Nemendur kynna svo niðurstöður sínar fyrir leiðbeinendum og öðrum nemendum.
Viðfangsefni nemenda hafa meðal annars snúið að:
- Endurbótum á húsnæði Veraldarvina á Brú í Hrútafirði
- Færanlegum hraðhleðslustöðvum fyrir Bræðsluna
- Hönnun nýs þjóðarleikvangs
- Nýstárlegum hugmyndum að brú yfir Fossvoginn
- Aðgerðaráætlun við eldgosi í nágrenni Reykjavíkur
- Aðgerðaráætlun vegna bólusóttarfaraldurs
Tölvur í náminu
Nauðsynlegt er að hafa góða tölvu í tæknifræðináminu. Mörg forrit sem eru notuð eru eingöngu til fyrir Windows stýrikerfi en kjósi nemendur frekar að nota Apple tölvur er mikilvægt að þær séu nógu öflugar til að keyra forritin í virtual umhverfi. Þar sem er unnið mikið með teikningar er einnig mikilvægt að tölvan sé með gott skjákort. Sem dæmi má nefna að AutoCAD hefur gefið út viðmið fyrir forritin frá þeim sem má finna hér.
Hefur þú spurningar um námið?
Að námi loknu
Lögverndað starfsheiti
Þau sem ljúka lokaprófi í tæknifræði (BSc) hljóta staðfestingu viðkomandi ráðuneytis og lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur (enska: Certified Engineer). Þau sem ljúka BSc-námi í tæknifræði og eru með sveinsbréf geta jafnframt sótt um meistarabréf í tilsvarandi iðngrein, en HR ber ekki ábyrgð á að gefa út slík leyfi.
Fjölbreyttur starfsvettvangur
Starfssvið orku- og véltæknifræðinga er fjölþætt. Þeir starfa meðal annars við hönnun, stjórnun, eftirlit, ráðgjöf, þróun og nýsköpun. Þeir vinna á verkfræðistofum, í framleiðslufyrirtækjum og hjá orkufyrirtækjum.
Frekara nám
Tæknifræðinám veitir góða undirstöðu fyrir framhaldsnám í verkfræði á tengdum sviðum innanlands sem erlendis.
Iðnfræði metin
Útskrifaðir iðnfræðingar geta fengið hluta af námi sínu metið inn í tæknifræðinám tæknifræðideildar. Til að hefja nám tæknifræði þarf iðnfræðingur eftir atvikum að bæta við sig einni önn í Háskólagrunni. Uppfylli viðkomandi lágmarkseinkunn fæst eftirfarandi metið:
- Byggingariðnfræðingar fá að lágmarki 43 ECTS einingar metnar inn í byggingartæknifræði
- Rafmagnsiðnfræðingar fá að lágmarki 30 ECTS einingar metnar inn í rafmagnstæknifræði og 18 ECTS einingar metnar inn í iðnaðar- og orkutæknifræði.
- Véliðnfræðingar fá að lágmarki 35 ECTS einingar metnar inn í orku- og véltæknifræði og 18 ECTS einingar metnar inn í iðnaðar- og orkutæknifræði.
Skipulag náms
Nám í BSc Orku- og véltæknifræði er 210 ECTS einingar, sem skiptast í skyldunámskeið, valnámskeið, starfsnám og lokaverkefni.
Í náminu eru annir brotnar upp í tvo hluta. Fjögur námskeið eru kennd í 12 vikur og síðan er prófað úr þeim. Að prófum loknum taka við þriggja vikna námskeið þar sem námsefnið er sett í hagnýtt samhengi með verkefnavinnu, hópavinnu og/eða samstarfi við fyrirtæki.
Öll námskeið fyrstu annar í tæknifræði verða kennd samtímis skv. 15 vikna skipulagi. Nemendur á öðrum önnum fylgja hefðbundnu 12+3 skipulagi.
Þriggja vikna námskeið í tæknifræði
Í náminu eru annir brotnar upp í tvo hluta. Fjögur námskeið eru kennd í 12 vikur og síðan er prófað úr þeim. Að prófum loknum taka við þriggja vikna námskeið þar sem námsefnið er sett í hagnýtt samhengi með verkefnavinnu, hópavinnu og/eða samstarfi við fyrirtæki.
Raunveruleg verkefni
Nemendur taka þátt í spennandi hönnunarverkefnum strax á fyrsta ári. Stærri verkefni á borð við lokaverkefni eru oftast unnin í samvinnu við fyrirtæki og stofnanir.
Á fyrsta námsári standa nemendur frammi fyrir raunhæfu verkefni sem þarf að takast á við og skoða frá mörgum hliðum. Námskeiðið heitir Inngangur að tæknifræði. Nemendur vinna í hópum við að útfæra lausnir og leysa þau fjölmörgu vandamál sem upp gætu komið. Þeir kynna svo niðurstöður sínar fyrir leiðbeinendum og öðrum nemendum.
Viðfangsefni nemenda hafa meðal annars verið:
- Endurbætur á húsnæði Veraldarvina á Brú í Hrútafirði
- Færanlegar hraðhleðslustöðvar fyrir Bræðsluna
- Hönnun nýs þjóðarleikvangs
- Að koma fram með nýstárlegar hugmyndir að brú yfir Fossvoginn
- Gerð aðgerðaráætlunar vegna eldgoss í nágrenni Reykjavíkur
- Gerð aðgerðaráætlunar vegna bólusóttarfaraldurs
Aðstaða
Þjónusta og góður aðbúnaður
Öll kennsla fer fram í háskólabyggingu HR. Þar er lesaðstaða og bókasafn, aðstaða til verklegrar kennslu, hópavinnuherbergi, mötuneyti, náms- og starfsráðgjöf og önnur þjónusta við nemendur.
Verkleg kennsla
Í HR er áhersla lögð á verkkunnáttu og þjálfun ásamt fræðilegri undirstöðu. Því er aðstaða til verklegrar kennslu til fyrirmyndar. Nemendur í orku- og véltæknifræði hafa aðgang að vélsmiðju, orkutæknistofu og rafeindastofu.
Vélsmiðja
Vel búin vélsmiðja er mikilvægur þáttur í tæknifræðinámi því þar er bilið brúað milli þess fræðilega og þess hagnýta. Flestir nemendur sem útskrifast úr tækninámi frá HR hafa kynnst vélsmíði að einhverju marki, til að mynda unnið í rennibekk og fræsivél við að útfæra hugmyndir og hönnun sína. Í stofunni eru í boði inngangsnámskeið í vélsmíði, þar sem farið er yfir öryggismál og nemendum kennd viðeigandi handtök. Nemendur búa að þessari reynslu á seinni stigum náms og hafa aðgang að vélsmiðjunni til að leysa skemmtileg og raunveruleg verkfræðileg viðfangsefni.
Í vélsmiðjunni eru þrír rennibekkir, tvær fræsivélar, CNC rennibekkur og fræsivél, suðutæki, laser-skurðarvél, plasmaskurðvél ásamt öðrum hefðbundnum verkfærum. Ábyrgðarmenn vélsmiðju eru Gísli Freyr Þorsteinsson og Ármann Gylfason.
Orkutæknistofa
Í orkutæknistofunni er safn af tilraunum er lúta að orku og orkunýtingu. Nemendur í námskeiðum á borð við varmafræði, varmaflutningsfræði, straumfræði og tengdum greinum sækja verklegan hluta námsins í þessa stofu og framkvæma tilraunir er tengjast þeim viðfangsefnum. Orkutæknistofan býður upp á góða aðstöðu fyrir rannsóknaverkefni og lokaverkefni nemenda í grunnnámi og meistaranámi í verkfræði og tæknifræði. RU Racing lið Háskólans í Reykjavík hefur aðsetur í stofunni um þessar mundir. Ábyrgðarmenn orkutæknistofu eru Gísli Freyr Þorsteinsson og Ármann Gylfason.
Rafeindatæknistofa
Í rafeindatæknistofu er unnið að verkefnum og tilraunum á sviði rafeindatækni, rafmagnsfræði, raforku, stýringum og sjálfvirkni. Stofan býður upp á nútímalega aðstöðu fyrir nemendur sem vinna allt frá verklegum tilraunum í einstaka námskeiðum yfir í lokaverkefni í grunn- og meistaranámi. Tækjabúnaður er reglulega endurnýjaður til að mæta þróun náms og því sem atvinnulífið kallar á og hafa nemendur einnig aðgang að þrívíddar prenturum og fjölbreyttum íhlutalager.RU Robotics sem er nemendastýrt félag um róbóta og tengda tækni er með aðstöðu í rafeindatæknistofunni. Ábyrgðarmaður rafeindatæknistofu er Hannes Páll Þórðarson og Indriði Sævar Ríkharðsson.
Kennslustofur og lesaðstaða
Húsnæði Háskólans í Reykjavík býður upp á afar góða aðstöðu til kennslu, lesturs og samvinnu nemenda. Kennslustofur eru vel búnar og nemendur geta nýtt sér hópavinnuherbergi. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn.
Góð þjónusta
Í háskólabyggingunni er greiður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, alþjóðaskrifstofu og tækniaðstoð. Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða. Safnið býður aðgang að bókum og fræðigreinum og upplýsingafræðingar eru með opna tíma þar sem nemendur geta litið við og fengið ráðleggingar og aðstoð vegna heimildavinnu.
Verslanir og kaffihús
Í HR er Krambúðin sem selur nauðsynjavörur, kaffihús, æfingasalur World Class og Málið veitingasala.
Kennarar
Sérfræðiþekking og reynsla
Nemendur í orku- og véltæknifræði njóta leiðsagnar öflugra vísindamanna á fagsviðinu, tæknimanna og hönnuða innan háskólans, og fjölda stundakennara með sérfræðiþekkingu úr atvinnulífinu. Kennarar við HR eru að jafnaði í miklum samskiptum við nemendur og í góðum tengslum við atvinnulífið.
Af hverju tæknifræði í HR?
- Löggilt starfsheiti sem tæknifræðingur
- Nemendur sem eru með sveinspróf geta sótt um meistarabréf í tilsvarandi iðngrein
- Góð aðstaða til bóklegs og verklegs náms
- Öflugt starfsnám
- Traust undirstaða
- Hagnýt og raunhæf verkefni