Tæknifræðideild
Nám við tæknifræðideild HR veitir sterka, fræðilega undirstöðu í bland við sérhæfða og hagnýta fagþekkingu. Nemendur eru hvattir til að nota frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð í raunhæfum verkefnum.
Eftirfarandi fræðasvið tilheyra tæknifræðideild
- Tæknifræði
- Iðnfræði
- Byggingafræði
Fagsvið
Fagsvið deildarinnar eru þrjú:
- Rafmagnssvið
- Byggingarsvið
- Orku- og véltæknisvið
Ef þú hefur áhuga á að tengja saman þína fagþekkingu, hugvit og verkvit þá ættir þú að huga að námi í tæknifræðideild. Að námi loknu bjóðast fjölmörg tækifæri í dag t.d. í orkuskiptum, í byggingariðnaði eða við nýsköpun.
Ásgeir Ásgeirsson Deildarforseti tæknifræðideildar
Lögverndað starfsheiti
Að lokinni útskrift hljóta nemendur í BSc tæknifræði lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur, nemendur í BSc byggingafræði lögverndaða starfsheitið byggingafræðingur og nemendur diplóma iðnfræði hljóta lögverndaða starfsheitið iðnfræðingur.
Kennsluaðferðir tæknifræðideildar eru í sífelldri þróun og námið sjálft tekur breytingum í takt við þarfir atvinnulífsins.
CDIO samstarfsnetið
Tæknifræðideild er aðili að samstarfsneti framsækinna háskóla um allan heim sem kenna tæknigreinar, CDIO (Conceive, Design, Implement, Operate). Í dag eru um 100 háskólar frá öllum heimshornum þátttakendur og vinna skólarnir kerfisbundið að því að þróa námsbrautir í tæknigreinum með áherslum og þörfum atvinnulífsins.
Meðal þess sem þátttaka í CDIO felur í sér er samráð háskóla við atvinnulífið og fagfélög. Samkvæmt hugmyndafræðinni sem höfð er til hliðsjónar er tæknifólki framtíðarinnar veittur traustur, fræðilegur grunnur en þeir vinna þar að auki raunhæf verkefni ásamt því að leysa verkefni í hópum. Nemendur kunna því á ferlið frá hugmynd yfir í hönnun, framkvæmd og rekstur þegar þeir koma á vinnumarkaðinn.
Hvað þýðir þetta fyrir nemendur?
Fræði og þjálfun á sama tíma
Við menntun tæknifræðinga takast gjarnan á tvö sjónarmið sem bæði eiga rétt á sér. Nemendur þurfa annars vegar að meðtaka aukna, fjölþætta vísindalega þekkingu til að verða góðir sérfræðingar. Hins vegar þurfa þeir að ná yfirsýn yfir uppbyggingu flókinna kerfa, tengja fræðin við praktíkina og hafa samskiptafærni til að ná árangri í hópavinnu með öðrum sérfræðingum.
Vinnuveitendur hafa þær væntingar að tæknifræðingar séu góðir í samskiptum og ráði við að greina flókin verkefni, bera kennsl á aðalatriði og skorður, hanna hagnýtar lausnir og koma þeim í framkvæmd og rekstur. Þessa hæfni er æskilegt að nemendur öðlist á meðan á skólagöngu stendur. Þessum kröfum um fræðilegan grunn, ásamt þjálfun í að leysa verkefni, er reynt að mæta með CDIO-aðferðinni.
Saga CDIO - framsæknir tækniháskólar Boeing og Volvo
Stofnun CDIO árið 2000 var svar við áhyggjuröddum atvinnulífsins. Á tíunda áratug síðustu aldar fengu kennarar við verkfræðideildir tveggja virtra háskóla, MIT og Chalmers, skýr skilaboð frá samstarfsfyrirtækjum, m.a. Boeing flugvélaverksmiðjunum og Volvo bílaverksmiðjunum, um að ungir verkfræðingar sem skólarnir útskrifuðu réðu ekki við einföld verkfræðileg viðfangsefni. Þótt þau kynnu fræðin þá réðu þau hvorki við raunhæfar lausnir, hagnýta hönnun né hópavinnu. Fyrirtækin kvörtuðu undan því að það tæki of langan tíma að kenna nýútskrifuðum nemendum að vinna. Prófessorar við háskólana ræddu þetta sín á milli og hófu samstarf um hvernig bæta mætti tæknimenntun og úr því varð CDIO-samstarfið.
Fleiri háskólar í CDIO eru meðal annars
- MIT - Massachusetts Institute of Technology
- DTU - Danmarks Tekniske Universitet
- Chalmers Tekniska Högskola
- KTH - Royal Institute of Technology
- Aalborg University
- Delft University of Technology
- University of Sydney
- Beijing Jiaotong University
Rannsóknir
Tveir fastir akademískir starfsmenn tæknifræðideildar stunda rannsóknir samhliða kennslu við deildina:
- Eyþór Rafn Þórhallsson sem hefur umsjón með SEL rannsóknarsetrinu
- Ólafur Haralds Wallevik sem hefur umsjón með IBRI setrinu.
SEL rannsóknarsetur
SEL (Structural Engineering and Composites Laboratory) er rannsóknarsetur á byggingasviði tæknifræðideildar.
Markmið setursins er að efla rannsóknir í burðarþolsfræðum, jarðskjálftahönnun, álagsgreiningu, efnisfræði, umhverfisfræði og skyldum fögum.
Rannsóknir Eyþórs snúa að notkun basalttrefjaefna í burðarvirkjum þá bæði sem innri bending og jafnframt sem styrkingarefni á eldri mannvirkjum. Einnig standa yfir rannsóknir á notkun CLT- timbureininga í byggingariðnaði.
Samstarf við atvinnulífið
Stundakennsla
Nemendur í tæknifræðideild njóta leiðsagnar öflugra vísindamanna á fagsviðinu, tæknimanna og hönnuða innan háskólans og fjölda stundakennara með sérfræðiþekkingu úr atvinnulífinu, en um 70 stundakennarar starfa við deildina á hvorri námsönn. Kennarar við HR eru að jafnaði í miklum samskiptum við nemendur og í góðum tengslum við atvinnulífið.
Gestafyrirlesarar
Auk fastra kennara og stundakennara í námskeiðum fá nemendur við tæknifræðideild tækifæri til þess að hlusta á gestafyrirlesara í ýmsum námskeiðum. Þeirra á meðal eru einstaklingar með sérfræðiþekkingu úr atvinnulífinu, innlendir og erlendir vísindamenn og jafnvel ráðherrar.
Hagnýt verkefni í námskeiðum
Í námi sínu við deildina vinna nemendur í hagnýtum verkefnum í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir. Þetta á við um námskeið í byggingafræði, iðnfræði og tæknifræði, hvort sem er í skyldu- eða valnámskeiðum‚ sem og í stórum lokaverkefnum nemenda sem nauðsynlegt er fyrir þau að ljúka og verja fyrir útskrift úr náminu. Hagnýtu verkefnin eru raunhæf verkefni sem endurspegla þau verkefni sem tæknifræðingar fá á borð til sín eftir útskrift.
Starfsnám
Tæknifræðideild er með samninga við um 40 fyrirtæki og stofnanir. Nemendur í tæknifræði eiga kost á að fara í starfsnám til fyrirtækja og verja nemendur á 12 vikna tímabili sem nemur 1-2 vinnudegi í viku við starfsnámið.
Ávinningur af starfsnámi er margvíslegur bæði fyrir nemandann og fyrir fyrirtækin. Markmið starfsnáms er meðal annars að efla tengsl nemenda við atvinnulífið, auka innsýn og skilning nemenda á viðfangsefnum viðkomandi fagsviðs, að nemendur öðlist reynslu af því að vinna að úrlausn raunhæfra viðfangsefna á vettvangi undir leiðsögn leiðbeinenda úr atvinnulífinu, að nemendur beiti aðferðum tæknifræðinnar við lausn hagnýtra verkefna, að nemendur geti unnið sjálfstætt og borið ábyrgð á eigin þekkingarleit og faglegum áherslum, að nemendur tileinki sér sjálfstæð og markviss vinnubrögð við úrlausn raunhæfra hönnunar-, greiningar- og/eða rannsóknarverkefna á fagsviðinu.
Margir nemendur hafa fengið tilboð um starf til lengri eða skemmri tíma í kjölfar starfsnáms sem unnin eru í samstarfi við fyrirtæki.
Lokaverkefni
Nemendur í tæknifræði, byggingafræði og iðnfræði vinna við og ljúka lokaverkefni á síðustu önn námsins. Lokaverkefnið byggist á sérhæfingu hvers og eins og eru mörg þeirra unnin í samvinnu við fyrirtæki og stofnanir.

Fagráð
Tæknifræðideild hefur skipað fagráð sem munu hafa aðkomu að þróun náms við deildina. Markmiðið er að tryggja enn betur að námið svari þörfum atvinnulífsins og að fyrirtæki fái til sín útskrifaða nemendur með þá þekkingu sem krafist er í nútíma starfsumhverfi. Fagráðin eru þrjú talsins og er hvert þeirra skipað 3-4 einstaklingum úr atvinnulífinu. Fagráðin eru fagráð byggingafræði, byggingasviðs, rafmagnssviðs og orku- og vélasviðs.
Deildarforseti
Starfsfólk
Sérfræðiþekking og reynsla
Nemendur í tæknifræðideild njóta leiðsagnar öflugra vísindamanna á fagsviðinu, tæknimanna og hönnuða innan háskólans og fjölda stundakennara með sérfræðiþekkingu úr atvinnulífinu. Kennarar við HR eru að jafnaði í miklum samskiptum við nemendur og í góðum tengslum við atvinnulífið.
Tæknifræðideild heyrir undir tæknisvið HR og er Dr. Ólafur Eysteinn Sigurjónsson settur sviðsforseti. Deildarforseti tæknifræðideildar er Ásgeir Ásgeirsson.
Í tæknifræðideild starfa 17 fastir starfsmenn ásamt rúmlega 70 stundakennurum sem kenna námskeið deildarinnar á hvorri námsönn.
Skrifstofa deildarinnar
Skrifstofa tæknifræðideildar er staðsett á þriðju hæð HR, í Venus. Starfsfólk skrifstofu getur aðstoðað með ýmis mál s.s. val á námi, mati á fyrra námi og svara spurningum nemenda.
Almennar fyrirspurnir má senda á netfangið tfd@ru.is
Fagstjórar
- Aldís Ingimarsdóttir, byggingasviði
- Guðmundur Kristjánsson, rafmagnssviði
- Indriði Sævar Ríkharðsson, vélasviði
- Jens Arnljótsson, iðnfræði
- Viggó Magnússon, umsjónarmaður byggingafræði
Deildarforseti
Byggingasvið
Fagstjóri er Aldís Ingimarsdóttir
Rafmagnssvið
Fagstjóri er Guðmundur Kristjánsson
Vélasvið
Fagstjóri er Indriði Sævar Ríkharðsson
Kennsla þvert á deildir
Upplýsingar fyrir nemendur
Tæknifræði (BSc)
Byggingafræði
Iðnfræði
Starfsnám BSc tæknifræði
Örnám í rekstrarfræði
Nauðsynlegt er að hafa góða tölvu í tæknifræðináminu. Mörg forrit sem notuð eru í náminu fást eingöngu fyrir Windows stýrikerfi en ef nemendur kjósa frekar Apple tölvur er mikilvægt að þær séu nógu öflugar til að keyra forritin í sýndarumhverfi (e. virtual umhverfi). Þar sem er unnið mikið með teikningar er gott skjákort einnig eitthvað til að huga að. Sem dæmi má nefna að AutoCAD hefur gefið út viðmið fyrir forritin frá þeim sem má finna hér
Skipulag
Deildarfundur
Deildarfundur samanstendur af öllum föstum starfsmönnum deildar auk fulltrúa nemenda úr Technis og fulltrúa verkfræðideildar og tölvunarfræðideildar. Deildarfundur er vettvangur til gagnkvæmra upplýsingaskipta um málefni deildarinnar. Deildarfundir eru haldnir mánaðarlega innan skólaársins.
Nefndir og ráð
Hlutverk deildarráðs snýr að stjórnun, skipulagi, framþróun og gæðum tæknifræðideildar.
Deildarráð er samráðsvettvangur forseta, fagstjóra, formanns atvinnu- og nýsköpunarráðs, formanns námsráðs og skrifstofustjóra.