Sérnám í klínískri taugasálfræði
Hvað læri ég?
Hagnýtt nám fyrir klíníska sálfræðinga
Klínísk taugasálfræði er sérgrein innan sálfræðinnar sem fjallar um þau áhrif sem heilaskaði, heilasjúkdómar og taugaþroskafrávik hafa á hugræna færni, hegðun og líðan einstaklinga. Aukin þekking og sérhæfing á þessu sviði er lykilatriði til að bæta greiningu, meðferð og endurhæfingu fólks með heilaskaða, heilabilun, ADHD, einhverfu og önnur áföll eða frávik í heilastarfsemi.
Í þessu hagnýta sérnámi öðlast starfandi klínískir sálfræðingar umfangsmikla þekkingu og þjálfun í greiningu og mati einstaklinga með taugasálfræðilegan vanda. Námið byggir á gagnreyndri þekkingu og veitir færni í að beita taugasálfræðilegum prófum, túlka niðurstöður þeirra og nýta þær við greiningu og meðferð.
Auk þess fá nemendur innsýn í nýjustu aðferðir í hugrænni endurhæfingu og sálfræðimeðferð aðlagaðri að einstaklingum með taugasálfræðileg frávik. Námið felur einnig í sér starfsþjálfun á heilbrigðistengdum stofnunum og starfsstöðvum þar sem nemendur öðlast hagnýta reynslu undir handleiðslu sérfræðinga.
Sérnámið er ætlað sálfræðingum með starfsleyfi og að lágmarki þriggja ára starfsreynslu í klínískri sálfræði. Að námi loknu geta nemendur sótt um sérfræðiviðurkenningu í klínískri taugasálfræði hjá Embætti Landlæknis, að því gefnu að þeir uppfylli önnur skilyrði sem sett eru fyrir sérfræðinga í sálfræði.
Námið er mikilvægur liður í að efla þjónustu við einstaklinga með taugasálfræðileg frávik og styrkja færni sálfræðinga til að mæta vaxandi þörf á þessu sviði innan heilbrigðiskerfisins.
Með aukinni þekkingu á taugaþroskaröskunum og hækkandi aldri þjóðarinnar hefur þörfin fyrir sérhæfða taugasálfræðilega þjónustu aldrei verið meiri. Sérfræðingar í klínískri taugasálfræði munu gegna lykilhlutverki í heilbrigðisþjónustu framtíðar.
Brynja Björk Magnúsdóttir
PhD í sálfræði og sérfræðingur í klínískri taugasálfræði
Hvernig læri ég?
Þörf á sérhæfðri þjónustu við fólk með heilasjúkdóma og taugaþroskafrávik
Heilaáverkar og heilasjúkdómar eiga stóran þátt í sjúkdómsbyrði vestrænna ríkja og hafa veruleg áhrif á einstaklinga, fjölskyldur og heilbrigðiskerfið í heild. Með hækkandi hlutfalli eldra fólks eykst álag á heilbrigðisþjónustu enn frekar, sérstaklega í tengslum við sjúkdóma eins og heilabilun. Fjölgun einstaklinga með Alzheimer og aðrar tegundir heilabilunar kallar á aukinn mannafla í heilbrigðiskerfinu með sérhæfða þekkingu og aðgengi að fjölbreyttum úrræðum, svo sem sérhæfðri öldrunarþjónustu, stuðningi við aðstandendur og þróun nýrra meðferða.
Á sama tíma hefur þörf fyrir þjónustu við börn með taugaþroskafrávik, svo sem ADHD og einhverfu, aukist mikið. Langir biðlistar eftir greiningu og meðferð valda því að börn og fjölskyldur bíða lengi eftir nauðsynlegri aðstoð, sem getur haft neikvæð áhrif á þroska, heilsu og lífsgæði þeirra. Mikilvægt er því að fjölga sérfræðingum, svo sem taugasálfræðingum, til að mæta þessari auknu eftirspurn og tryggja að börn fái viðeigandi stuðning og meðferð.
Þörf á sérnámi í klínískri taugasálfræði á Íslandi
Eftirspurn eftir þjónustu taugasálfræðinga hefur aukist hratt á undanförnum árum, en í dag er Ísland langt frá því að anna þeirri þörf fyrir sálfræðinga með sérfræðiþekkingu í klínískri taugasálfræði. Menntunartækifæri á þessu sviði, bæði hérlendis og erlendis, hafa ekki haldist í hendur við þessa auknu eftirspurn, og brýnt er að bregðast við því með skipulögðu sérnámi í klínískri taugasálfræði.
Sérfræðingar í klínískri taugasálfræði gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu, meðal annars með því að koma að eða annast:
- Greiningu og meðferð barna með ADHD, einhverfu, önnur taugaþroskafrávik og námsvanda.
- Greiningu heilabilunarsjúkdóma, svo sem Alzheimer.
- Greiningu og endurhæfingu vegna heilaáverka, heilablæðinga og taugaþroskafrávika hjá börnum og fullorðnum.
Í greiningu heilabilunar gegnir taugasálfræðilegt mat lykilhlutverki og verður enn mikilvægara með tilkomu nýrrar lyfjameðferðar. Þegar kemur að heilaáverkum er hlutverk klínískra taugasálfræðinga ekki aðeins að greina og kortleggja hugrænan vanda, heldur einnig að styðja við endurhæfingu. Þá skiptir sérfræðiþekking á þessu sviði miklu máli í vinnu með börnum með taugaþroskafrávik og námsvanda.
Fyrir hverja er námið?
Sérnám í klínískri taugasálfræði er ætlað sálfræðingum sem þegar hafa réttindi til að starfa sem sálfræðingar frá Embætti Landlæknis. Að sérnáminu loknu, samhliða viðeigandi starfsþjálfun og handleiðslu, ættu sálfræðingar að geta sótt um sérfræðiviðurkenningu í klínískri taugasálfræði. Námið mun uppfylla skilyrði reglugerðar um sálfræðinga nr. 1130/2012.
Inntökuskilyrði eru gilt starfsleyfi sem sálfræðingur á Íslandi og að minnsta kosti þriggja ára starfsreynsla sem klínískur sálfræðingur. Gerð er krafa um að sálfræðingar sem sækja um námið séu í starfi sem sálfræðingar á meðan þeir stunda námið.
Að námi loknu
Markmiðið með sérnámi í klínískri taugasálfræði er að veita starfandi sálfræðingum sérhæfða menntun á sviði klínískrar taugasálfræði. Að loknu náminu geta nemendur sótt um sérfræðiviðurkenningu á sviði klínískrar taugasálfræði hjá Embætti Landlæknis, að því gefnu að þeir uppfylli aðrar kröfur sem gerðar eru til sérfræðinga í sálfræði.
- Að loknu námi ættu nemendur að hafa öðlast yfirgripsmikla þekkingu og þjálfun í að greina taugaþroskafrávik, taugahrörnunarsjúkdóma, og meta áhrif ákominna breytinga á heila.
- Nemendur ættu, að loknu námi, að hafa öðlast þekkingu og færni í notkun taugasálfræðilegra prófa og matstækja, sem ætlað er að greina taugaþroskafrávik og breytingar á hugrænni færni, og nýta niðurstöðurnar til greiningar eða mats á hugrænni færni einstaklinga.
- Að loknu námi ættu nemendur að hafa öðlast grunnþekkingu á hugrænni endurhæfingu eftir ákomnar breytingar á heila, meðferð og endurhæfingu á taugaþroskafrávikum, og sálfræðimeðferð aðlagaðri að taugaþroskafrávikum og afleiðingum breytinga á heila.
- Nemendur ættu að loknu námi að hafa fengið innsýn í réttartaugasálfræði, öðlast þekkingu og fengið þjálfun í klínískri handleiðslu og lært um hlutverk faglegra leiðtoga í heilbrigðiskerfinu.
Ertu með spurningar um námið?
Inntökuskilyrði
- Menntun: MSc/CandPsych eða annað sambærilegt réttindanám í klínískri sálfræði.
- Starfsréttindi sem klínískur sálfræðingur á Íslandi frá Embætti Landlæknis.
- Hafa starfað sem klínískur sálfræðingur í a.m.k. þrjú ár og vera Í starfi sem slíkur.
Umsókn og fylgigögn
Umsækjendur fylla út rafræna umsókn og eftirtöldum fylgigögnum skal skila inn í umsóknarkerfið:
- Staðfest afrit af prófskírteini.
- Yfirlit yfir náms- og starfsferil (ferilskrá á ensku eða íslensku).
- Greinargerð: Hvers vegna sækir þú um námið og hvert er markmið þitt með náminu? Greinargerð skal vera allt að 300 orð og skilað á pdf-formi í gegnum umsóknarkerfi.
- Matsblað: Að minnsta kosti eitt matsblað á að fylgja umsókn. Matsblað skal koma frá einstaklingi sem er hæfur til meta getu umsækjenda til að takast á við námið. Matsblaðið má vera á ensku eða íslensku og á að berast beint frá viðkomandi meðmælanda á netfangið matsblad@ru.is Vinsamlega biðjið meðmælanda að fylla út matsblað og senda það svo á pdf formi. Ef matsblað vantar þegar farið er yfir umsóknir þá verður umsækjandi látinn vita með tölvupósti.
- Matsblað fyrir meðmælendur
- Nemendur þurfa að framvísa sakavottorði við upphaf náms á skrifstofu skólans. Kallað er eftir fyrrnefndum upplýsingum þar sem námið felur í sér verknám á stöðum þar sem unnið er með viðkvæmum hópum. Á þessum stöðum er almennt óheimilt að ráða inn einstaklinga sem hafa hlotið refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hefningarlaga nr. 19/1940. Verknám þetta er mikilvægur þáttur námsins og er forsenda fyrir útskrift úr námslínunni. Óþarfi er að láta sakavottorð fylgja sem fylgigögn.
Umsóknarfrestur
- Umsóknarfrestur er frá 5. febrúar til 15. apríl.
- Öll gögn verða að berast áður en umsóknarfrestur rennur út.
Verðið er 351.000 hver önn.
Skipulag náms
Námið verður 60 ECTS og nær yfir tvö ár þar sem nemendur sinna því samhliða starfi sem klínískir sálfræðingar og ljúka nemendur því 15 ECTS á hverri önn. Námið er bæði fræðilegt og hagnýtt þar sem um 1/3 hluti námsins verður formleg þjálfun og handleiðsla.
Fyrsta árið verður byggt upp á fimm þriggja eininga staðlotum á hverri önn. Fyrir hverja lotu fá nemendur lesefni, verkefni og upptökur af fyrirlestrum.
Seinna árið verða tvær staðlotur á hvorri önn en nemendur ljúka 18 ECTS í starfsþjálfun, og velja hvort það er á sviði barna eða fullorðinna. Starfsþjálfun fer fram á heilbrigðistengdum stofnunum og starfsstöðvum.
Námskeið 1. önn - 15 ECTS
- Inngangur að klínískri taugasálfræði - 3 ECTS
- Heilasjúkdómar og heilaáverkar - Fullorðnir - 3 ECTS
- Heilasjúkdómar, heilaáverkar og fjölbreyttur taugaþroski – Börn – 3 ECTS
- Taugasálfræðilegt mat fullorðinna A – 3 ECTS
- Taugasálfræðilegt mat fullorðinna B – 3 ECTS
Námskeið 2. önn - 15 ECTS
- Taugasálfræðilegt mat barna A – 3 ECTS
- Taugasálfræðilegt mat barna B – 3 ECTS
- Einhverfugreiningar ADOS/ADI – 3 ECTS
- Réttartaugasálfræði – 3 ECTS
- Hugræn endurhæfing fullorðinna – 3 ECTS
Námskeið 3. önn - 15 ECTS
- Sérhæfð sálfræðimeðferð - 3 ECTS
- Meðferð og endurhæfing barna - 3 ECTS
- Starfsþjálfun og handleiðsla – 9 ECTS
Námskeið 4. önn - 15 ECTS
- Hugræn endurhæfing barna – 3 ECTS
- Leiðtogafærni og handleiðslufræði-– 3 ECTS
- Starfsþjálfun og handleiðsla - 9 ECTS

Sérnám í klínískri taugasálfræði er samstarfsverkefni sálfræðideildar Háskólans í Reykjavík og sálfræðideildar Háskóla Íslands.
Aðstaða
Verkleg kennsla á margvíslegum vettvangi
Í HR er áhersla lögð á verkkunnáttu og þjálfun ásamt fræðilegri undirstöðu. Því er aðstaða til verklegrar kennslu til fyrirmyndar og hafa nemendur í sálfræði aðgang að fullbúinni rannsóknarstofu
Kennslustofur og lesherbergi
Húsnæði Háskólans í Reykjavík býður upp á afar góða aðstöðu til kennslu, lesturs og samvinnu nemenda. Kennslustofur eru vel búnar og nemendur geta nýtt sér hópavinnuherbergi. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn. Sjá frekari upplýsingar um aðstöðuna í HR.
Góð þjónusta
Í háskólabyggingunni er greiður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, alþjóðaskrifstofu og tækniaðstoð. Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða. Safnið býður aðgang að bókum og fræðigreinum og upplýsingafræðingar eru með opna tíma þar sem nemendur geta litið við og fengið ráðleggingar og aðstoð vegna heimildavinnu.
Verslanir og kaffihús
Í HR er Háskólabúðin sem selur nauðsynjavörur, kaffihús, æfingasalur World Class og Málið veitingasala.
Kennarar
Gestakennarar erlendis frá verða að auki fengnir til að miðla af sérfræðiþekkingu sinni í einstökum námskeiðum eða námskeiðshlutum.
Af hverju meistaranám í sálfræði við HR?
- Leið að sérfræðiviðurkenningu. Námið er skilgreint þannig að það uppfyllir skilyrði til umsóknar um sérfræðiviðurkenningu í klínískri taugasálfræði.
- Hagnýtt, gagnreynt nám fyrir starfandi klíníska sálfræðinga. Áhersla er á greiningu og mat taugasálfræðilegs vanda, notkun taugasálfræðilegra prófa, túlkun niðurstaðna og hagnýtingu í greiningu/meðferð.
- Nemendur fá innsýn í nýjustu aðferðir í hugrænni endurhæfingu og sálfræðimeðferð aðlagaðri að einstaklingum með taugasálfræðileg frávik.
- Námið felur í sér starfsþjálfun á heilbrigðisstofnunum/starfsstöðvum, þar sem reynslan er byggð upp undir handleiðslu sérfræðinga.
- Gæði í kennslu og umgjörð: Takmarkaður nemendafjöldi styður við persónulegri leiðsögn, hagnýtt og þverfaglegt nám.













