Fjármála-verkfræði
Hvað læri ég?
Fjármálaverkfræði er þverfagleg grein sem samþættir fjármálafræði við verkfræðilegar aðferðir, stærðfræðileg líkön, tölfræði, aðgerðagreiningu og hagnýta tölvunarfræði. Nám í fjármálaverkfræði hentar þeim sem hafa áhuga á að takast á við áhættustýringu, afleiðuviðskipti eða fjárstýringu, hvort sem er í markaðs– eða fyrirtækjageiranum.
Til að leysa vandamál sem snúa að fjármálum má beita verkfræðilegum aðferðum og reiknilíkönum. Það er eitt helsta viðfangsefni fjármálaverkfræðinga. Þeir eiga jafnframt mikilvægan þátt í að ná markmiðum í fjármögnun, fjárfestingum og áhættustýringu.
Í náminu takast nemendur á við krefjandi og raunhæf verkefni þar sem þeir læra að beita stærðfræði og tölvunarfræðilegum aðferðum. Auk góðrar þekkingar á fjármálafræðum þurfa nemendur að hafa skilning á margvíslegum eiginleikum mismunandi kerfa og ferla. Í þessu sambandi er góð undirstöðuþekking á sviði almennrar verkfræði og raunvísinda, aðallega eðlisfræði, mjög mikilvæg. Með því að glíma við raunhæf verkefni og finna lausnir við vandamálum hljóta nemendur góðan undirbúning fyrir störf að námi loknu.
Til þess eru notaðar aðferðir eins og líkanagerð, hermun, tölfræði, aðgerðagreining og tölvunarfræði.
Fimm ára nám
Verkfræði er í heildina fimm ára nám og 300 ECTS. Nemendur öðlast löggilt starfsheiti sem verkfræðingar eftir bæði BSc- og MSc-nám.
Ég hef alltaf haft mjög gaman af því að skipuleggja leiki og búa til leikreglur. Svo ég fór og kannaði valmöguleikana á vefsíðu HR. Þar blasti þetta við mér: Fjármálaverkfræði.
Árni Steinn Viggósson
Hvernig læri ég?
Undirstöðunámskeið
Á öllum námsleiðum í verkfræði eru fyrstu annir námsins helgaðar undirstöðunámskeiðum sem nýtast verkfræðingum alla starfsævina. Að námskeiðunum loknum hafa nemendur góða þekkingu á:
- Stærðfræði
- Eðlisfræði
- Forritun
- Verkefnastjórnun
- Sjálfbærni
Sérhæfð námskeið
Eftir fyrsta árið er námið sífellt meira sniðið að hverri og einni námsleið. Sérhæfð námskeið námsleiðar byggja undir meiri sérhæfingu
Sérhæfð námskeið í fjármálaverkfræði eru t.d:
- Aðgerðagreining
- Verðbréf
- Fjármál fyrirtækja
- Líkindafræði og slembiferlar
- Gagnasafnsfræði
- Hagfræði
- Afleiður
- Áhættustýring
Verkfræði X
Á sjöttu önn BSc-náms ljúka allir nemendur í verkfræði viðamiklu lokanámskeiði. Í námskeiðinu vinna nemendur verkefni í hópum þar sem að unnið er frá hugmynd að lokaafurð. Viðfangsefnin eru ýmist sérsniðin verkefni fyrir mismunandi námsleiðir eða unnið þvert á þær. Námskeiðið er góður undirbúningur fyrir atvinnulífið.
Áhersla á sjálfbærni
Málefni sjálfbærni og umhverfis eru sífellt mikilvægari í okkar umhverfi. Í verkfræðináminu er brugðist við þessu í þremur skyldunámskeiðum. Á fyrstu önn fara allir verkfræðinemar í námskeið um orkunýtingu og í námskeiðinu Inngangur að verkfræði er áhersla á sjálfbærni og umhverfi. Á fimmtu önn er svo sérstakt námskeið um sjálfbærni. Auk þess eru umhverfismál tengd við umfjöllunarefni annarra námskeiða.
Val
Nemendur geta valið sér námskeið eftir áhugasviði t.d. starfsnám, námskeið úr öðrum námsleiðum verkfræðinnar eða úr öðrum deildum HR.
12+3 kerfið
Í náminu eru annirnar brotnar upp í tvo hluta. Fjögur námskeið eru kennd í 12 vikur og síðan er prófað úr þeim. Að prófum loknum taka við þriggja vikna námskeið við þar sem námsefnið er sett í hagnýtt samhengi með verkefnavinnu, hópavinnu og/eða samstarfi við fyrirtæki.
Starfsnám
Nemendur geta sótt um 6 ECTS starfsnám á síðasta ári BSc-námsins. Líkt er eftir atvinnuleit þar sem nemendur senda inn ferilskrá og kynningarbréf og fyrirtækin velja úr hópi umsækjenda og boða í viðtöl.
Markmið með starfsnámi er m.a. að efla tengsl nemenda verkfræðideildar HR við atvinnulífið, auka innsýn og skilning nemenda á viðfangsefnum síns fagsviðs og undirbúa þá undir störf að loknu námi með úrlausn raunhæfra viðfangsefna á vettvangi.
Skiptinám
Nemendur geta sótt um að fara í skiptinám við erlendan háskóla. Nemendur í BSc-námi þurfa að vera með 7 eða hærra í meðaleinkunn og hafa lokið 60 einingum þegar þeir fara í skiptinámið. Alþjóðaskrifstofa veitir frekari upplýsingar um hvert hægt er að fara í skiptinám.
Í HR fá verkfræðinemar ótal tækifæri til þess að leysa raunveruleg vandamál og læra á hönnunarferlið allt frá hugmynd, hönnun og smíði að virkni.
Klúbbastarf
Nemendur geta tekið þátt í alls konar starfi sem tengist verkfræðinni t.d. verið í Formúlu-liði skólans (RU Racing), róbótaklúbbnum eða tekið þátt í nýsköpunar- eða stjórnunarkeppnum.
Ertu með spurningar um námið?
Að námi loknu
Hluti námsins er að bjóða nemendum hagnýta reynslu við lausn raunhæfra verkefna í fjármálum. Að loknu námi eiga nemendur að geta nýtt lausnamiðaðar verkfræðilegar- og magnbundnar aðferðir, ásamt heilbrigðri skynsemi, til að þróa hagkvæmar nýjar fjármálalausnir. Þessar lausnir geta jafnvel breytt því hvernig neytendur og fyrirtæki hegða sér við mat á fjármálalegri áhættu.
Starfsvettvangur
Fjárfestingabankar, vogunarsjóðir, lífeyris – og fjárfestingarsjóðir eru dæmi um algenga vinnustaði fjármálaverkfræðinga. Eins vinna fjármálaverkfræðingar iðulega að fjárhagslegri og rekstrarlegri skipulagningu og endurskipulagningu fyrirtækja á ýmsum sviðum atvinnulífsins, svo sem í hátækni, nýsköpun, sjávarútvegi og í fjármálageiranum. Greining á samruna og yfirtöku fyrirtækja er einnig algengt verkefni fjármálaverkfræðinga.
Verkfræðingar frá HR
BSc- og MSc-gráða í verkfræði frá HR tryggir nemendum góðan undirbúning til að taka næsta skref í átt að framtíðarmarkmiðum sínum. Hvort heldur sem þau eru frekara nám, stofnun fyrirtækis eða starf hér heima eða erlendis.
Við útskrift eiga nemendur að vera færir um samstarf og hafa tamið sér góð og öguð vinnubrögð, sem samræmast bestu og nýjustu aðferðum hverju sinni, ásamt fræðilegri þekkingu og hæfni á sínu sviði.
Löggilt starfsheiti
Verkfræðinám samanstendur af 3ja ára (180 einingar) grunnnámi og tveggja ára (120 einingar) MSc námi. Til að öðlast starfsréttindi og leyfi til að nota lögverndaða starfsheitið verkfræðingur þarf að ljúka MSc-gráðu í samræmi við kröfur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
Ég hef alltaf haft mjög gaman af því að skipuleggja leiki og búa til leikreglur. Svo ég fór og kannaði valmöguleikana á vefsíðu HR. Þar blasti þetta við mér: Fjármálaverkfræði. Þetta orð, þetta féll eins og flís við rass! Maður á bara að gera það sem manni finnst skemmtilegt og grípa tækifærin þegar þau gefast.
Starfsnámið sem er í boði er frábært! Það gefur manni betri sýn á möguleikana í framtíðinni og getur opnað á tækifæri. HR er með góð tengsl við atvinnulífið sem er mikill kostur þar sem möguleikarnir eru endalausir þegar maður er með
verkfræðigráðu á bakinu!
Skipulag náms
Í þriggja ára grunnnámi til BSc-gráðu kynnast nemendur undirstöðugreinum í fjármálaverkfræði. Til að öðlast sérhæfingu og starfsréttindi sem verkfræðingur þarf að BSc-námi loknu að ljúka tveggja ára MSc-námi.
Verkfræði, BSc (180 ECTS) og MSc (120 ECTS) einingar, er 5 ára námsleið (alls 300 ECTS einingar) sem uppfyllir skilyrði fyrir lögverndaða starfsheitið verkfræðingur.
Valnámskeiðin
Valnámskeið geta verið sérhæfð námskeið á sviði fjármálaverkfræði eða námskeið úr öðrum námsleiðum við verkfræðideild HR, eða úr öðrum deildum HR s.s. tölvunarfræðideild eða viðskiptadeild, sjá nánar í kennsluskrá.
Þriggja vikna námskeið
Aðstaða fyrir verkfræðinema
Verkleg kennsla á margvíslegum vettvangi
Í HR er áhersla lögð á verkkunnáttu og þjálfun ásamt fræðilegri undirstöðu. Því er aðstaða til verklegrar kennslu til fyrirmyndar.
Kennslustofur og lesherbergi
Húsnæði Háskólans í Reykjavík býður upp á afar góða aðstöðu til kennslu, lesturs og samvinnu nemenda. Kennslustofur eru vel búnar og nemendur geta nýtt sér hópavinnuherbergi. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn. Sjá frekari upplýsingar um aðstöðuna í HR.
Góð þjónusta
Í háskólabyggingunni er greiður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, alþjóðaskrifstofu og tækniaðstoð. Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða. Safnið býður aðgang að bókum og fræðigreinum og upplýsingafræðingar eru með opna tíma þar sem nemendur geta litið við og fengið ráðleggingar og aðstoð vegna heimildavinnu.
Verslanir og kaffihús
Í HR er Háskólabúðin sem selur nauðsynjavörur, kaffihús, æfingasalur World Class og Málið veitingasala.
Kennarar
Hagnýt reynsla og fræðilegur grunnur
Þó nokkuð er um að kennarar við deildina komi úr fjármála- og bankageiranum og byggja þeir þá á hagnýtri reynslu sinni úr atvinnulífinu. Samtvinnun þessa við sterkan fræðilegan grundvöll námsins undirbýr nemendur einstaklega vel til að takast á við fjármálatengd verkefni fyrirtækja, fjármálastofnana og fjárfestingarsjóða, svo sem lífeyrissjóða.
Kennarar verkfræðideildar
Af hverju verkfræði í HR?
- Kennt er í 12 vikur og svo tekur við þriggja vikna hagnýtur áfangi.
- Markviss verkefnavinna með raunverulegum viðfangsefnum.
- Líkt eftir atvinnulífinu: nemendur ljúka hinu viðamikla verkfræði X námskeiði.
- Frábær aðstaða fyrir verklegt og bóklegt nám.
- Góður stuðningur í námi frá hjá náms- og starfsráðgjöfum, starfsfólki bókasafns, skrifstofum deilda og kennurum.
- Allar námsleiðir eru í boði sem samfellt fimm ára nám (BSc & MSc).
- Nemendur hljóta þekkingu í raungreinum og þjálfun í aðferðafræði og vinnubrögðum sem gagnast til framtíðar.
- Möguleiki á starfsnámi
- Nemendur geta sótt um leigu á herbergi eða íbúð í Háskólagörðum HR sem eru við rætur Öskjuhlíðar.
- Allt nám undir einu þaki.