Námið
Rannsóknir
HR

23. júní 2025

697 nemendur útskrifuðust frá HR

697 nemendur útskrifuðust frá Háskólanum í Reykjavík á laugardag. Útskriftarathafnir fóru fram í Eldborg í Hörpu og var útskrifað af tæknisviði fyrir hádegi en eftir hádegi af samfélagssviði.

Alls luku 19 nemendur doktorsprófi frá HR að þessu sinni, sem er metfjöldi í sögu skólans og sagði dr. Ragnhildur Helgadóttir, rektor HR, í ræðu sinni það vera sérstakt gleðiefni að útskrifa svo marga doktorsnema.

Nemendur sem luku doktorsprófi frá tæknisviði.

Fyrsti nemandinn til að ljúka doktorsprófi frá íþróttafræðideild HR útskrifaðist á laugardag, síðan luku 11 nemendur doktorsprófi frá tölvunarfræðideild, fimm nemendur luku doktorsprófi frá verkfræðideild og tveir nemendur luku doktorsprófi frá viðskipta- og hagfræðideild.

Dr. Katrín Ýr Friðgeirsdóttir er fyrst til að ljúka doktorsprófi frá íþróttafræðideild HR.

326 nemendur útskrifuðust frá tæknisviði, 225 karlar og 101 kona. Af öllum deildum skólans útskrifuðust flestir nemendur frá verkfræðideild, eða alls 143. 95 luku grunnnámi frá deildinni og 43 útskrifuðust úr meistaranámi. 142 nemendur útskrifuðust frá tölvunarfræðideild. 119 útskrifuðust úr grunnnámi og 12 úr meistaranámi. Frá tæknifræðideild útskrifaðist 41 nemandi og luku þeir allir grunnnámi.

Útskriftarnemendur af tæknisvæði ásamt rektor,sviðsforsetum og deildarforsetum.

371 nemandi útskrifaðist frá samfélagssviði, 160 karlar og 211 konur. Alls útskrifuðust 48 frá íþróttafræðideild. 27 luku grunnnámi og 20 meistaranámi. Frá lagadeild útskrifuðust 90 nemendur. 47 nemendur útskrifuðust úr grunnnámi frá deildinni og 43 úr meistaranámi. Frá sálfræðideild útskrifuðust 100 nemendur. 67 útskrifuðust úr grunnnámi og 33 luku meistaranámi. 133 nemendur útskrifuðust frá viðskipta- og hagfræðideild. 82 útskrifuðust úr grunnnámi og 16 úr meistaranámi.

Útskriftarnemendur af samfélagssviði ásamt rektor, sviðforsetum og deildarforsetum.

Í ræðu sinni minnti rektor HR nemendur á að lífið snýst um meira en keppni.

„Ef ég má gefa ykkur ráð, þá er það að láta ekki blekkjast til að halda að þið þurfið – í framhaldinu – að vera alltaf að keppa ykkar á milli eða við aðra! Við ykkur sjálf, já! Við verkefnin, já! En ekki falla í þá gildru að trúa því að allt gott sem kemur til eins taki þá eitthvað af öðrum – að lífið sé zero-sum-game, svo maður sletti,“ sagði Ragnhildur og hélt áfram:

„Réttindi sem einn nýtur minnka ekki þó annar njóti þess sama, þekking minnkar ekki þó fleiri hafi hana, velferð er þeim mun sterkari þegar hún nær til stærri hluta samfélagsins og öll vitum við að vinátta og gleði eru smitandi en ekki auðlind sem klárast! Og í jafn litlu þjóðfélagi og okkar, er reyndin sú – líka í atvinnulífi og pólitík – að aldan lyftir öllum! Svo sannarlega er enginn annars bróðir í leik – en samfélagið okkar verður því sterkara sem fleirum gengur vel í því sem þeir leggja áherslu á.“

Dr. Ragnhildur Helgadóttir rektor HR.

Ragnhildur sagði háskólafólk halda þessu til haga.

„Auðvitað keppa háskólarnir hér á landi sín á milli, en í stóra samhenginu gera allir sér grein fyrir því að það er lykilatriði fyrir Ísland að háskólastarf hér – menntun fólks eins og ykkar, sköpun nýrrar þekkingar, nýsköpunarstarfsemi og miðlun þekkingar út í opinbera umræðu – gangi sem allra best alls staðar!“

Auk rektors fluttu þau Eva Rut Bernhöft Reynisdóttir, sem útskrifaðist með BSc úr rekstrarverkfræði, og Sveinn Sær Vattnes Ingólfsson, sem útskrifaðist með BSc úr íþróttafræði, ræður fyrir hönd útskriftarnemenda. Dr. Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, sviðsforseti tæknisviðs, flutti ræðu við útskrift nemenda af tæknisviði, og dr. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, sviðsforseti samfélagssviðs, flutti ræðu við útskrift nemenda af samfélagssviði.

Þá flutti Háskólakórinn nokkur lög og Ásta Sigríður Fjeldsted, forstjóri Festis og stjórnarmaður í Viðskiptaráði Íslands, hélt ræðu fyrir hönd ráðsins, en Viðskiptaráð er einn af eigendum og stofnendum Háskólans í Reykjavík og veitir útskriftarnemendum viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur. 

Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir