7. nóvember 2025
Að mæta í HR gefur lífinu lit
7. nóvember 2025
Að mæta í HR gefur lífinu lit
Í markaðs- og kynningarráði HR skólaveturinn 2025-2026 eru þau Bergdís Valdimarsdóttir, nemandi í viðskiptafræði með lögfræði, Helgi Espel Lopez, nemandi í hugbúnaðarverkfræði, Bjartur Freyr Bjarnason, nemandi í viðskiptafræði með tölvunarfræði, Sandra Dís Heimisdótir, viðskiptafræðinemi, og Kiara Adhikari lögfræðinemi.
Sandra Dís var í Fjölbrautaskóla Garðabæjar en hin í Kvennaskólanum og hafa þau öll tekið þátt í félagsstörfum áður eða sinna slíkum störfum í dag. Bergdís og Sandra Dís eru mentorar fyrir nýnema í viðskipta- og hagfræðideild auk þess sem Sandra Dís er viðburðastjóri Birtu, sjálfbærninefndar HR. Bjartur Freyr var í upptökunefnd í Kvennó, sem sér um að taka upp viðburði á vegum skólans. en Helgi var í leikfélagi Kvennaskólans, Fúríu, í þrjú ár. Kiara útskrifaðist úr Verzlunarskólanum og var áður í Alþjóðaskólanum á Íslandi.
Fulltrúar markaðs- og kynningarráðs aðstoða samskiptasvið HR við kynningar í framhaldsskólum landsins, taka þátt í Háskóladeginum, opnu húsi og fleiri slíkum viðburðum. Rakel Gunnarsdóttir, verkefnastjóri, segir mikilvægt að vinna náið með nemendum skólans að kynningarstarfi;
Það er mikilvægt að vinna náið með nemendum okkur í ýmsum verkefnum eins og t.d. framhaldsskólakynningum. Þau hafa góða innsýn í menntaskólalífið og geta kynnt HR fyrir nemendunum á jafningjagrundvelli. Ég er mjög spennt að vinna með markaðs- og kynningarráðinu í ár, þau eru metnaðarfull með góðar hugmyndir og þarft að fá þeirra sýn líka á hlutina.
Bergdís, Bjartur, Helgi og Sandra eru á einu máli um að aðstaðan sé það besta við HR. Bjartur segist í raun alltaf vera í húsinu hvort sem hann sé að læra eða ekki og Sandra tekur undir það og segir það mjög hvetjandi að öll aðstaða sé á sama stað. Auðvelt sé að hitta vini og það hvetji nemendur til að mæta og fá lit í daginn. Þau nefna líka að auðvelt sé að ná til kennara og það haldi nemendum betur við efnið að hafa minni verkefni og krossapróf frekar en stór lokapróf. Það fyrirkomulag henti t.d. nemendum með prófkvíða mjög vel.
Helgi segir marga kosti við HR og nefnir sérstaklega 12 + 3 kerfið í HR sem hann segir að dreifi álaginu mun jafnar út yfir önnina. Kerfið virkar þannig að önninni er skipt upp í tvo hluta og fjögur námskeið kennd í 12 vikur sem lýkur með námsmati. Hann tekur undir það að auðvelt sé að hitta fólk úr öllum deildum í HR og halda félagslegum tengslum auk þess sem stúdentafélögin haldi gjarnan sameiginleg partý þannig að nemendur kynnist þvert á deildir.
Þau segja ánægjulegt að taka þátt í kynningarstarfi fyrir HR. Það sé gaman að deila með verðandi nemendum því sem þeim finnst skipta mestu máli og því sem dregur þau að skólanum.
Kiara segist hafa boðið sig fram í markaðs- og kynningarráð þar sem henni finnist gaman að kynnast fólki og eiga í mannlegum samskiptum. Hún hafi sótt HR kynningu þegar hún var í Verzló og fundist mjög gaman að heyra sögur af félagslífinu og náminu. Hana langaði því að vera hluti af teyminu sem hvetur nýtt fólk til að koma í HR og upplifa skólann á jafn ánægjulegan hátt og hún.
Á myndinni eru f.v. þau Bergdís, Helgi, Bjartur Freyr, Sandra Dís og Kiara.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir