Frábær árangur HR-inga í Gullegginu
HR-ingar stóðu sig frábærlega í Gullegginu, stærstu frumkvöðlakeppni landsins, en lokakeppni Gulleggsins fór fram nú síðastliðinn föstudaginn 14. febrúar. Var keppnin haldin í hátíðarsal Grósku þar sem keppendur kynntu nýstárlegar hugmyndir sínar og heilluðu áhorfendur og dómara upp úr skónum.
Í fyrsta sæti var Sagareg sem einfaldar gerð umsóknarskjala (dossiers) um markaðsleyfi lyfja með gervigreind og sérhæfðum hugbúnað og í öðru sæti Hvað nú? sem er heildstæð þjónusta sem einfaldar ferlið í kjölfar andláts ástvina.
Lið HR-inga er að baki Samvís er hlaut þriðja sæti í keppninni og snýr að því þróa nýja kynslóð leitarvéla fyrir vísindamenn og námsmenn með gervigreindartækni. Lausnin auðveldar aðgengi að rannsóknum og skapar brú milli vísinda og samfélags.
Samvís var einnig valið sem háskólateymið sem fer fyrir Íslands hönd til Aþenu á alþjóðlega frumkvöðlakeppni í boði JA Iceland.
Í Samvís eru þeir Birgir Bragi Gunnþórsson, Einir Sturla Arinbjarnarson, Haukur Ingi Sigrúnar Jónsson og Jóhann Tómas Portal.
Þær Brynja Rún Sævarsdóttir, Anna Lilja Sigurðardóttir, Rakel Hrönn Sveinsdóttir og Björk Gunnarsdóttir eru allar útskrifaðar frá HR en liðið þeirra Planda hlaut sérstök verðlaun frá bakhjörlum fyrir lausn sem auðveldar vinahópum að finna sameiginlegan tíma til að hittast. Bakhjarl að þessu sinni var Coca-Cola á Íslandi.
Dagsetning
Deila