18. september 2025
Leiðandi vísindamaður á sviði taugavísinda heimsækir HR
18. september 2025
Leiðandi vísindamaður á sviði taugavísinda heimsækir HR

Prófessor Robert (Bob) Harris, vísindamaður á sviði taugamótefnafræði við Karolinska Institutet (KI) í Stokkhólmi, hélt nú í byrjun mánaðar fyrirlestur um þróun áhrifaríkra meðferða við taugahrörnunarsjúkdómum. Harris hefur verið tengiliður KI við NeurotechEU samstarfið þar sem HR er samstarfsaðili.
Harris er leiðandi vísindamaður á sínu sviði en rannsóknir hans fjalla um það hvernig aukinn skilningur á samstarfi taugakerfisins og ónæmiskerfisins geti mögulega orðið að lækningalegum úrræðum gegn heilabilun og taugasjúkdómum í framtíðinni. Með tilkomu Neurotech samstarfsins hefur aðgangur vísindamanna HR að vísindamönnum í fremstu röð orðið enn betri, sem mun skila sér í enn meira og öflugra rannsóknastarfi í HR í framtíðinni. Taugavísindum fleygir nú fram og því er nauðsynlegt að mynda samstarfsnet eins og Neurotech sem miðar að því að vinna þverfaglega á háskóla og deila dýrmætri þekkingu.
Dr. Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, forseti tæknisviðs HR og aðstoðarrektor rannsókna, nýsköpunar og atvinnulífstengsla
Dr. Harris hefur byggt upp öflugt og alþjóðlegt rannsóknarstarf sem beinist að samspili ónæmiskerfisins og taugakerfisins. Sérstaklega hefur hann rannsakað hlutverk átfrumna, örglía og stjórnunaráhrif boðefna á borð við TGF-β í bólgusvörun og viðgerðarferlum í taugavef.
Rannsóknir Harris hafa meðal annars varpað nýju ljósi á hvernig ónæmisfrumur komast yfir blóð–heilaþröskuldinn, hvernig þær taka þátt í taugahrörnun og afmýlingu, og hvernig nýta má þær í meðferð við sjúkdómum á borð við mænusigg, Alzheimer-sjúkdóm og Parkinson-sjúkdóm.
Auk vísindalegra afreka sinna hefur Harris gegnt lykilhlutverki sem leiðtogi innan Karolinska Institutet, meðal annars sem námsbrautastjóri og leiðbeinandi í doktorsnámi, þar sem hann hefur stuðlað að uppbyggingu næstu kynslóðar fræðimanna.
Öflugt rannsóknastarf á sviði taugavísinda fer fram í HR. Við verkfræðideild skólans stundar til að mynda vísindamaðurinn Karl Ægir Karlsson, prófessor í heilbrigðisvekfræði, rannsóknir á ýmsum taugasjúkdómum með því að rannsaka áhrif lyfja í Zebra fiska módelum. Paolo Gargiulo, prófessor í heilbrigðissverkfræði, notar sýndarveruleika til að rannsaka snemm greiningu á Parkinssong og Hanna Steinunn Steingrímsdóttir dósent í Sálfræðideild HR, hvernig EEG-mælingar geti endurspeglað breytingar á heilastarfsemi sem gætu bent til vægrar vitrænnar hnignunar.

Nánari upplýsingar um rannsóknir innan HR og Neurotech samstarfið:
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir