6. október 2025
Málþing um ávinning og áskoranir evrópsku háskólanetanna
6. október 2025
Málþing um ávinning og áskoranir evrópsku háskólanetanna
Þann 14. október næstkomandi klukkan 13.00 fer fram málþing í Norræna húsinu, um ávinning og áskoranir evrópsku háskólanetanna fyrir nemendur, starfsfólk, stöðu háskólanna og samfélagið. Innan Evrópu er nú lögð rík áhersla á dýpra samstarf háskóla en áður hefur þekkst með fjármögnun evrópskra háskólaneta.
Fjórir íslenskir háskólar eru hver um sig í einu af 65 háskólanetum í Evrópu. Háskólarnir boða til málþings um ávinning og áskoranir háskólanetanna fyrir nemendur, starfsfólk, stöðu háskólanna og samfélagið. Málþingið er haldið í samstarfi við Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi og menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið.
Netin eiga að styðja við nýsköpun í kennslu og rannsóknum til að mæta örum samfélagsbreytingum og fjölþættum áskorunum nútímans. Háskólum í netum er þannig ætlað að ýta undir bæði sjálfbæra þróun til framtíðar og samkeppnishæfni Evrópu.
Háskólinn í Reykjavík er þátttakandi í NeurotechEU háskólanetinu. Það er hluti af verkefni Evrópusambandsins og Erasmus+ sem snýr að evrópskum háskólum og kallast European University Initiative.
Dr. Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, og Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, sviðsforseti samfélagssviðs, munu taka þátt í pallborðum fyrir hönd HR en viðburðurinn er opin öllum.

Þátttaka í viðamiklu háskólaneti á borð við NeurotechEU felur í sér mikil tækifæri fyrir HR enda um stórt og stefnumótandi samstarf að ræða. Í samstarfsnetinu felast meðal annars tækifæri til að móta og þróa kennsluaðferðir framtíðarinnar, fjölmörg rannsóknartækifæri fyrir vísindafólk og doktorsnema skólans auk þess sem nemendur HR fá aukin tækifæri á skiptinámi og starfsnámi hjá samstarfsaðilum.
Tilgangur NeurotechEU er að styrkja stöðu Evrópu á sviði tækni- og taugarannsókna með öflugu rannsóknasamstarfi og því að fólk geti sótt sér menntun á sviðinu í mörgum skólum og á mörgum tungumálum. Við njótum góðs af samstarfi við öfluga háskóla, meðal annars í auknu framboði á námskeiðum og námsleiðum, en líka af því að háskólarnir deila reynslu, styrkleikum og verklagi sem hefur reynst þeim best.
Hér má sjá myndband þar sem þau Þorbjörn Rami Aaro Joukhi, nemandi í tölvunarfræði, og Guðlaug Matthildur Jakobsdóttir, forstöðukona alþjóðasviðs, ræða sína upplifun af þátttöku í NeurotechEU samstarfsnetinu.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir