1. desember 2025
Mikilvægast að skila af okkur nemendum sem eru flinkir í að tileinka sér og skapa nýja þekkingu
1. desember 2025
Mikilvægast að skila af okkur nemendum sem eru flinkir í að tileinka sér og skapa nýja þekkingu
Verkfræðideild Háskólans í Reykjavík fagnar 20 ára starfsafmæli um þessar mundir og af því tilefni verður haldið afmælismálþing þar sem nokkrir af helstu rannsakendum og kennurum deildarinnar kynna rannsóknir sínar. Við deildina stunda nú nám um 500 BSc nemar og 75 meistaranemar og er námsúrvalið mjög fjölbreytt bæði í grunnnámi og meistaranámi auk þess sem nám til doktorsprófs er í boði.
Ágúst Valfells, prófessor við verkfræðideild, hefur starfað við deildina síðan hún var sett á laggirnar árið 2005. Hann hafði þá lokið doktorsnámi í kjarnorkuverkfræði í Bandaríkjunum og starfað hérlendis í fimm ár. Hann segir að í raun hafi aldrei komið annað til greina en að læra verkfræði. Að vissu leyti hafi það verið í genunum þar sem pabbi hans var prófessor og verkfræðingur.
Já pabbi var kjarnorkuverkfræðingur, rétt eins og ég, en mér fannst líka gaman að verkfræðinni og fylgdi flestum vinum mínu í vélaverkfræði. Grunnnámið í vélaverkfræðinni var skemmtilegt og þá sérstaklega varmafræðin sem er svo yfirgripsmikil. Ég ætlaði í raun síðan aldrei í kjarnorkuverkfræði en hún virkaði mjög fjölbreytt og mig langaði að læra meira um rafsegulfræði, rafgös og kjarnasamruna svo ég sló til og sé ekki eftir því.

Í doktorsnáminu sérhæfði Ágúst sig í að rannsaka rafeindageisla og aflmiklar örbylgjur. Að námi loknu hóf hann fyrst störf hjá Maryland-háskóla og svo hjá Orkustofnun og segist þá hafa tekið smá u-beygju í því að vinna að orkumálum. Rafeindageislarnir þyki honum þó skemmtilegastir og hefur hann getað unnið við rannsóknir á þeim síðan hann hóf störf í HR. Slíkir geislar eru mikið notaðir í fjarskiptakerfum t.a.m. í gervihnöttum og radarkerfum en Ágúst hefur sérhæft sig í rannsóknum á rafeindageislum í örsmæðarkerfum. Þar hefur hann aðallega skoðað rafeindalindir sem mynda geislana, en skilningur á þeim er lykilatriði í notkun rafeindageisla fyrir rafeindasmásjár, tölvukubbaframleiðslu, lækningatæki, efnagreiningartæki og alls konar efnismeðhöndlun. Ágúst er á því að markmið verkfræðideildar eiga að vera að gera gagn og ásetningurinn sé ætíð góður.
Grunnurinn skiptir öllu máli
Þegar Ágúst hóf störf í HR ágúst 2005 tók við mikið starf í að byggja upp deildina.
Þarna komum við til starfa allir mjög ungir ég, Hlynur Stefánsson, Ármann Gylfason (núverandi deildarforseti) Halldór Guðfinnur Svavarsson og Karl Ægir. Miðað við aldur og fyrri störf áttum við ekkert að vera í uppbyggingu á deild svo það var óvænt og skemmtilegt tækifæri enda mætti maður til starfa fullur af hugmyndum. En þetta kostaði auðvitað heilmikla auka vinnu.
Ágúst segir að vissulega hafi margt breyst á þessum 20 árum en grunnurinn sé sá sami.
Að vinna eftir haldbærri þekkingu á undirliggjandi vísindum og aðferðum er nokkuð sem ekki breytist. Sá grunnur er ætíð til staðar þó að fram komi ný tækni. Strax í upphafi var stundað rannsóknarstarf innan deildarinnar sem hefur vaxið mjög enda aðstaðan til þess orðið sífellt betri hjá okkur. Þá hefur námið fest sig rækilega í sessi og mér fannst muna miklu þegar við byrjuðum með framhaldsnám árið 2008. Þá gerðum við út á að fá fleiri erlenda nemendur til okkar í gegnum orkuskólann sem breytti bragnum á deildinni mjög til hins betra. Hið sama er að segja um erlenda rannsóknarnemendur sem við höfum haft hjá okkur en Paolo hefur t.d. verið mjög duglegur með að koma inn með nemendur frá Ítalíu.
Námsúrval er fjölbreytt í verkfræðináminu og breiddin í fögum mikil enda kenna við deildina eðlisfræðingar, stærðfræðingar og líffræðingar auk verkfræðinga. Í náminu er lögð áhersla á verklegt nám sem nýtist nemendum vel þegar kemur út á vinnumarkaðinn. Einnig býðst grunnnámsnemendum að taka þátt í alvöru rannsóknarverkefni sem Ágúst segir hafa verið mjög góða breytingu sem geri námið enn meira spennandi.
Almennt er það þannig að nemendur okkar fá vinnu og nemendur sem hafa staðið sig vel komast inn í bestu skóla heims. Þetta eru aðal mælikvarðarnir á gæði starfs okkar, að nemendur komast inn í framhaldsnám víða um heim og fá vinnu.
Framtíðin mótist af samskiptum
Að lokum er ekki úr vegi að spyrja Ágúst hvernig hann sjái fyrir sér framtíð verkfræðinnar við HR og þar stendur ekki á svari.

Ég sé framtíðina fyrir mér í því að við í HR einblínum algjörlega á að þar sé til staðar samfélag til að læra og að allir séu á staðnum. Tæknin má ekki taka algjörlega yfir heldur verðum við að gera kröfur um það að nemendur og kennarar séu í húsi að vinna saman. Samskipti tel ég að séu lykillinn að velgengni, það að skiptast á hugmyndum og kryfja hlutina saman. Með þessum hætti getum við gert miklu betur í því að koma verkfræðilegri þekkingu til skila næstu 20 árin. Eins hefur það verið svolítið mottóið hjá mér að það sé út í hött að kenna alltaf nýjustu tækni því hún breytist svo hratt, við þurfum miklu frekar að skila af okkur nemendum sem eru flinkir í að tileinka sér og skapa nýja þekkingu.
Afmælismálþing verkfræðideildar HR fer fram þriðjudaginn 2. desember klukkan 15:00 í stofu M101. Boðið verður upp á léttar veitingar í lok þess í Olympus á 3. hæð í HR og eru öll velkomin. Sjá má dagskrá þingsins hér.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir