12. nóvember 2025
NeurotechEU Student Workshop haldin fyrir nemendur í HR
12. nóvember 2025
NeurotechEU Student Workshop haldin fyrir nemendur í HR
NeurotechEU Student Workshop var haldin fyrir nemendur í HR fyrr í haust þar sem kynntar voru þær rannsóknir við háskólann sem sameina taugavísindi og tækni.

Viðburðurinn hófst á erindi Lisu Maríu Wu, dósent við sálfræðdeild HR, sem kynnti markmið og framtíðarsýn NeurotechEU, og þau fjölbreyttu tækifæri sem bjóðast nemendum innan samstarfsnetsins í rannsóknum, námi og alþjóðlegu samstarfi.

Fulltrúar nemenda, þær Telma Ósk Þórhallsdóttir og Lorena Guerrini, deildu reynslu sinni af starfi innan NeurotechEU, og lögðu áherslu á þátttöku nemenda og möguleika á skiptinámi. Telma fjallaði um hlutverk nemendaráðs NeurotechEU og samstarf þess við önnur evrópsk nemendasamfélög. Lorena greindi frá rannsóknarvinnu sinni og því hvernig NeurotechEU styður fræðilega þróun með sumarskólum, tengslamyndun og rannsóknarsamstarfi.

Fulltrúar frá Nox Medical og Össur kynntu hvernig taugavísindi og nýsköpun samtvinnast og er nýtt innan fyrirtækjanna. Þóra Sigmarsdóttir, frá Nox Medical, fjallaði um nýjungar í svefngreiningu og Sophie Tiele og Valentina Betti frá Össuri kynntu nýjustu þróun í stoðtækni er kemur að bættri notendaupplifun. Þær sögðu einnig frá rannsóknarsamstarfi fyrirtækisins við Heilbrigðistæknisetur Háskólans í Reykjavík. Innan þess eru m.a. stundaðar rannsóknir á sjóveiki og líkamsstöðu með svokallaðri BioVRSea-sýndarveruleikatækni og hefur tæknin verið nýtt til að mæla hugræna áreynslu við notkun stoðtækja.
Námskeiðinu lauk með heimsókn í rannsóknarstofur og loks gafst nemendum, vísindafólki og samstarfsaðilum úr atvinnulífinu kostur á að styrkja tengslin sín á milli.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir