25. september 2025
Sannkallað tækniævintýri fyrir alla fjölskylduna á Vísindavöku
25. september 2025
Sannkallað tækniævintýri fyrir alla fjölskylduna á Vísindavöku
Vísindavaka 2025 fer fram laugardaginn 27. september í Laugardalshöll frá klukkan 12 til 17. Þar verður að vanda spennandi framboð frá Háskólanum í Reykjavík og yngstu kynslóðinni býðst að spreyta sig á ýmsum verkefnum og finna út hvar þeirra hæfileikar til að skapa framtíðina liggja.

Hjá SKEMA verður í boði að hanna HR í Minecraft, sameina tónlist og forritun, læra grunn í tölvuleikjagerð og stjórna vélmenni. Nemendur í RU racing sjá um að gera alla klára fyrir formúluna og Systur sjá um forritunarkennslu. Hjá RU robotics verður sýnt hvernig vísindin koma við sögu þegar hanna skal vélmenni og frostbyte sýnir hversu auðvelt er að hakka heimili og hvernig hægt sé að verjast slíku. Þá munu fulltrúar íþróttafræðideildar leyfa gestum að prófa mælingabúnað sem mælir hversu hátt fólk stekkur og hversu fast það grípur.
Skema í HR er brautryðjandi í forritunarkennslu fyrir börn á Íslandi. Úlfur Atlason, verkefnastjóri Skema, segir skemmtilegt að taka á móti yngstu kynslóðinni á Vísindavöku og kynna fyrir þeim tækniheiminn.
Við hjá Skema sköpum sannkallað tækniævintýri fyrir alla fjölskylduna á Vísindavöku þar sem öll geta fengið að prófa og leika. Við stillum upp stöðvum sem eru sýnishorn af námskeiðunum okkar. Þar verður t.d. hægt að taka þátt í byggingarkeppni í Minecraft, fá kennslu í grunnforritun og leikjahönnun og skapa eigin tónlist með forritun. Einnig eiga keppendur í heimagerðum tölvuleik möguleika á að vinna ókeypis námskeið hjá okkur í Skema.

Vísindavaka er ætluð öllum aldurshópum en markmiðið með henni er að færa vísindin nær fólki, kynna manneskjurnar á bak við vísindin og minna á mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamfélagi.

Hlökkum til að skapa framtíðina með þér - sjáumst á Vísindavöku!
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir