Námið
Rannsóknir
HR
26. maí 2025

Stelpur, stálp og tækni skilar nemendum í tæknigreinar

Rúmlega 1.200 stelpur og stálp voru samankomin í Háskólanum í Reykjavík þegar Stelpur, stálp og tækni, árlegur viðburður að erlendri fyrirmynd fór fram föstudaginn 23. maí. Stelpur, stálp og tækni hefur fest sig í sessi sem einn stærsti viðburður Háskólans í Reykjavík ár hvert en viðurðurinn var fyrst haldinn árið 2014.

Þátttakendur sóttu vinnustofur hjá nemendum, kennurum og fyrrverandi nemendum í HR m.a. í hönnun tölvuleikja, forritunar og stærðfræðilegrar bestunar og nemendakynningar. Þá tóku mörg af stærstu tæknifyrirtækjum landsins á móti hópum t.a.m CCP games, Síminn, Efla. Héðinn, Orkuveitan, Míla og Marel.

Í hádeginu gæddu þátttakendur sér á pizzu, Ragnhildur Helgadóttir, rektor HR, bauð hópinn velkominn og Guðrún Valdís Jónsdóttir, forstöðumaður ráðgjafasviðs hjá Origo, flutti nokkur hvatningarorð.

Markmiðið er að kynna stelpur og stálp fyrir tæknistörfum og tæknimenntun þar sem hallað hefur á þessa hópa í tæknigeiranum almennt. Þótt staðan sé enn þannig að betur má ef duga skal þá er virkilega gaman að segja frá því að Stelpur, stálp og tækni hefur haft áhrif á námsval og við hér í HR höfum fengið nemendur til okkar í tæknigreinarnar sem kynntust þeim fyrst á þessum viðburði. Hlutfall kvenna fer til dæmis vaxandi í tölvunarfræðideild og í verkfræðideildinni okkar eru kynjahlutföllin nokkuð jöfn.

Ragnhildur Helgadóttir, rektor háskólans í reykjavík

Þann 4. júní nk. verður einnig í fyrsta sinn haldinn viðburðurinn Strákar og stálp og háskóli. Viðburðurinn er samfélagslegt verkefni á vegum HR og er ætlaður til að kynna fyrir drengjum og stálpum háskólaumhverfið og möguleika innan þess.

Með viðburðinum viljum við í HR bregðast við þeirri þróun að drengir sæki sér síður menntun á háskólastigi. Við vonumst til þess að heimsókn til okkar veki áhuga á fjölbreyttri menntun og þeim leiðum sem hún getur opnað.

ragnhildur helgadóttir rektor háskólans í reykjavík

Anna Kristín Sigurðardóttir, Talent Acquisition Specialist hjá CCP, fagnar framtakinu. Stelpur, stálp og tækni sé frábær viðburður þar sem tækifæri gefst á að fræðast um fjölbreytt störf í tæknigeiranum, tala við fyrirmyndir og spyrja spurninga í öruggu umhverfi. Hóparnir hafi ætíð reynst áhugasamir og spenntir um það sem fram fer.

Við hjá CCP höfum tekið þátt í mörg ár til að auka áhuga á tölvuleikjagerð og starfstækifærum í geiranun.
Þetta eru alltaf skemmtilegar heimsóknir og þátttakendur einstaklega áhugasöm og alls ekki feimin við að taka þátt.
Við hlökkum sömuleiðis mikið til að taka þátt í Strákar og stálp í háskóla þann 4. júní og hvetjum sem flest til að íhuga framtíð í tölvuleikjabransanum.

ANNA KRISTÍN SIGURÐARDÓTTIR

Við í HR þökkum öllum þátttakendum, fyrirtækjum og samstarfsaðilum kærlega fyrir gott samstarf og hlökkum til að ári.

26. maí 2025
Nýjustu fréttirnar