Styrkveiting HR til SHFR eflir starfsemi stúdentafélagsins enn frekar
Undirritaður hefur verið samningur á milli HR og SFHR, stúdentafélags HR, um styrkveitingu til SFHR. Styrkurinn er ætlaður til að efla enn frekar hina mikilvægu starfsemi SFHR.
Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, aðstoðarrektor náms, nemenda og sjálfbærni, segir starf SFHR og samstarf við skólann lykil að því að skapa hvetjandi, styðjandi og faglegt námsumhverfi og stuðla að ánægju nemenda. Samningurinn skilgreini vel ábyrgð og verkefni aðila meðal annars tryggi hann þátttöku nemenda í ráðum og nefndum skólans og að nemendur taki þátt í stefnumótandi umræðum sem snerta nemendur og þeirra námsumhverfi.
Meðlimir SFHR eru rödd nemenda innan háskólans og í málefnum sem snerta hagsmuni nemenda. Félagið sér um að skipuleggja viðburði sem efla félagslíf og vellíðan nemenda, stuðla að því að nýnemar fái góða aðlögun að háskólasamfélaginu og gefur út Háskólablaðið á starfsárinu.
Af hálfu SFHR er lögð sérstök áhersla á að styrkurinn tryggi jafnt aðgengi allra nemenda Háskólans í Reykjavík að félagslífi skólans.
Með styrknum er félaginu gert kleift að halda fjölbreytta viðburði, bæði innan skólans og utan, sem allir skráðir nemendur í HR geta tekið þátt í. Þannig er stuðlað að aukinni samheldni, virkri þátttöku nemenda og bættri heildarupplifun þeirra af námi og skólalífi.
Segir Særún Björk Jónasdóttir, formaður SFHR.
Særún segir samninginn jafnframt fela í sér þá mikilvægu breytingu að með honum verði samstarf SFHR og HR skýrara og einfaldara. Skýrar liggi fyrir hvert hlutverk beggja aðila sé, hvaða væntingar séu gerðar til samstarfsins yfir skólaárið og hvernig ábyrgð og samskiptum sé háttað.
Gréta Matthíasdóttir sviðsstjóri nemendaþjónustu fagnar því að efla samstarf og aðkomu nemenda að öllu starfi HR.
Hjá Nemendaþjónustu er lögð áhersla á að þjónusta og stuðningur við nemendur sé góður. Liður í því er að leggja áherslu á bættari og skýrari boðleiðir. Þessi samningur er hluti af því að nemendur hafi skýra aðkomu og rödd í ávörðunum er þá varðar. Við vinnum statt og stöðugt að því að bæta aðstöðu nemenda og huga að inngildingu og er aðkoma SFHR lykill að því að þessu markmiði sé náð.
Segir Gréta.
Dagsetning
Deila