Tengdu þig við framtíðina á Framadögum HR
Framadagar 2026 fara fram í Háskólanum í Reykjavík dagana 20.- 22. janúar en hápunktur þeirra verður fimmtudaginn 22. janúar kl. 10:00-14:00 þegar fulltrúar frá 61 fyrirtæki og stofnunum kynna starfssemi sína í Sólinni í HR.
Í hádeginu þann dag mun Forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir mæta í sófaspjall með Dr. Gunnari Þór Péturssyni forseta lagadeildar sem ber yfirskriftina Leiðtogar framtíðarinnar. Dr. Ragnhildur Helgadóttir, rektor HR, opnar viðburðinn og í lokin gefst gestum tækifæri til að spyrja um hugðarefni sín varðandi leiðtogahugtakið, fyrstu skrefin á vinnumarkaðnum og framtíðarsýn.
Framadagar eru mikilvægur þáttur í því að byggja brú milli háskólanáms og starfsframa. Þá fá háskólanemar tækifæri til þess að kynna sér fjölbreytta starfsemi framúrskarandi fyrirtækja og fulltrúar þeirra komast í kynni við framtíðar fagfólk atvinnulífins. Dagskrá Framadaga í ár er með glæsilegasta móti. Okkur er sérstakur heiður að því að fá frú Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, í sófaspjall til okkar þar sem hún mun veita nemendum og öðrum gestum innblástur og raunhæfa sýn á leiðtogahlutverkið.
Segir Hrafntinna Viktoría Karlsdóttir, verkefnastjóri atvinnulífstengsla hjá HR.
Þá verður í boði að mæta í ör-starfsmannaviðtöl (sem mætti líkja við faglegt hraðstefnumót) í stofum M325 og M326 á fimmtudeginum klukkan 10:30-11:30. Þar gefst gestum Framadaga tækifæri á að eiga stutt samtöl við fulltrúa við fyrirtækja sem jafnvel geta leitt til framtíðarráðningar, sé gagnkvæmur áhugi fyrir hendi.Líkt og fyrri ár verður Sólin svo full af framúrskarandi fyrirtækjum þar sem þau kynna starfsemi sína.
Sú nýlunda verður í ár að dagana 20. og 21. janúar verða haldnir áhugaverðir fyrirlestrar þar sem gestir koma í hús og halda erindi fyrir nemendur varðandi atvinnuleit og starfsmöguleika.
Á þriðjudeginum 20. janúar munu þær Lea Kristín Guðmundsdóttir og Þuríður Pétursdóttir, sérfræðingar í ráðningum hjá Intellecta, veita hagnýta fræðslu og ráðleggingar um hvernig best er að undirbúa sig fyrir atvinnuleit. Þær koma m.a. inn á hvað sé mikilvægast fyrir atvinnuviðtal og hvernig eigi að byggja upp skýra og sannfærandi ferilskrá. Fyrirlesturinn fer fram í stofu M209 frá 12:00-12:45.
Á miðvikudeginum 21. janúar mun Steinar Þór Ólafsson, halda fyrirlestur um tækifærin á LinkedIn og hvernig megi nýta sér miðilinn á skilvirkan og árangursríkan hátt. Fyrirlesturinn fer fram miðvikudaginn 21. janúar í stofu M209 frá 12:00-12:45.
Við hvetjum nemendur okkar til að mæta á þessa viðburði sem eru frábær viðbót við Framadaga. Það mun vafalaust nýtast þeim vel fyrir næstu skref að námi loknu.
Segir Hrafntinna að lokum.
Framadagar eru haldnir árlega í Háskólanum í Reykjavík með það að markmiði að gefa háskólanemum landsins tækifæri til að kynna sér fyrirtæki og fjölbreytta möguleika á sumarstörfum, framtíðarstörfum eða verkefnavinnu.
Öll eru velkomin á Framadaga fimmtudaginnn 22 janúar.
Dagsetning
Deila