Vel heppnað Hugmyndahraðhlaup Gulleggsins og Landsbankans
Hugmyndahraðhlaup Gulleggsins & Landsbankans fór fram í Landsbankanum helgina 9.-10. janúar s.l. á vegum KLAK-Icelandic Startups. Háskólinn í Reykjavík er einn af eigendum KLAK og bakhjarl Gulleggsins, stærstu og elstu frumkvöðlakeppni Íslands.
Hugmyndahraðhlaupið er sérstaklega ætlað að að hvetja háskólanema til þátttöku en vinningsteymi Hugmyndahraðhlaupsins fær að launum 150.000 krónur og á tryggt sæti með þeim tíu efstu í lokakeppni Gulleggsins.
Í Hugmyndahraðhlaupinu komu saman teymi háskólanema alls staðar að af landinu. Þau fengu það verkefni að leysa úr raunverulegum áskorunum sem lagðar voru fram frá bakhjörlum Gulleggsins, ELKO, Háskólanum í Reykjavík, KPMG, JBT Marel og Reykjavíkurborg.
Teymið Orden stóð uppi sem sigurvegari Hugmyndahraðhlaupsins. Í teyminu voru Haukur Hólm Gunnarsson, nemandi í rekstrarverkfræði við HR, Sunna Guðlaugsdóttir, meistaranemi í menningarstjórnun við Bifröst og Margeir Haraldsson, grunnnemi í skapandi greinum við Bifröst.
Teymið tókst á við áskorun JBT Marel, sem sneri að því hvernig minni matvælaframleiðendur geti nýtt sér sjálfvirknivæðingu og snjallar tæknilausnir til að efla gæði og auka skilvirkni. Orden kynnti hugmynd að hugbúnaðarlausn sem samþættir gögn frá ólíkum vélum og skynjurum og innleiðir sjálfvirka skýrslugerð. Lausnin léttir verulega á handavinnu við gæðaeftirlit og vottanir, sem hefur verið stór þröskuldur fyrir smærri fyrirtæki.
Gulleggið er hluti af víðtækum stuðningi KLAK – Icelandic Startups við frumkvöðla, þar sem þekking, tengsl og leiðsögn sérfræðinga skapa vettvang fyrir framfarir og verðmætasköpun.
Dagsetning
Deila