Tölvunarfræði við Háskólann á Akureyri og á Austurlandi
Nám í tölvunarfræði hentar þeim sem hafa áhuga á að hanna hugbúnað og vefsíður, þróa tölvuleiki, glíma við stærðfræði, læra forritun og margt, margt fleira. Námið við HR hefur alþjóðlega vottun sem staðfestir gæði þess. Hægt er að stunda námið við Háskólann á Akureyri og á Reyðarfirði, þar sem lögð er áhersla á forritun og leikjahönnun.
Um námið
Nemendur segja frá náminu í tölvunarfræði við HR
Nám í tölvunarfræði á Akureyri
Hægt er að velja um að taka BSc-námið í staðarnámi á Akureyri eða í Reykjavík. Nemendur eru í öllum tilvikum skráðir nemendur við Háskólann í Reykjavík og greiða skólagjöld við HR. Á Akureyri hlýða nemendur á fyrirlestrana frá HR á netinu en eru með kennara á svæðinu sem sér um dæmatíma. Verkefnafulltrúi við HA heldur utan um nemendur og námið fyrir norðan. Gert er ráð fyrir að nemendur séu í fullu námi.
Nemendur halda hópinn
Reynt er að halda bekkjarkerfi í náminu þannig að þeir nemendur sem eru á sama ári haldi hópinn. Nemendur á Akureyri eru meðlimir í nemendafélaginu við tölvunarfræðideild HR, Tvíund, og eru jafnframt með sitt eigið nemendafélag sem heitir DATA.
Forritun og leikjahönnun
Í BSc-náminu á Akureyri er lögð áhersla á forritun og leikjahönnun.
Nám í tölvunarfræði á Austurlandi
Hægt er að velja um að taka BSc-námið í sveigjanlegu námi á Reyðarfirði. Nemendur eru í öllum tilvikum skráðir nemendur við Háskólann í Reykjavík og greiða skólagjöld við HR. Nemendur mæta reglulega í hverri viku í verkefnatíma í Fróðleiksmolanum. Gert er ráð fyrir að nemendur séu í fullu námi.
Nemendur halda hópinn
Reynt er að halda bekkjarkerfi í náminu þannig að þeir nemendur sem eru á sama ári haldi hópinn. Nemendur á Reyðarfirði eru meðlimir í nemendafélaginu við tölvunarfræðideild HR, Tvíund, og eru jafnframt með sitt eigið nemendafélag sem heitir DATA.
Forritun og leikjahönnun
Í BSc-náminu á Reyðarfirði er lögð áhersla á forritun og leikjahönnun.
Annað háskólanám metið til eininga
Sú færni og kunnátta sem nemendur öðlast með námi í tölvunarfræði nýtist mjög vel í bland við þekkingu sem nemendur hafa þegar aflað sér, jafnvel í greinum sem við fyrstu sýn virðast alls óskyldar tölvunarfræði. Tölvunarfræðideild vill hvetja sem flesta til að kanna hina fjölmörgu möguleika sem fagið veitir. Nemendur geta því fengið margvíslegt háskólanám sem þeir hafa lokið metið til eininga.
Metið sem val
Ef nemandi hefur lokið heildstæðu háskólanámi er möguleiki á að fá það nám metið sem val, jafnvel þó það sé í óskyldri grein.
Metið sem kjarni
Einnig geta nemendur fengið fyrra háskólanám metið í stað þess að ljúka skyldunámskeiði, ef það er samsvarandi þeim námskeiðum sem kennd eru í kjarna.
Starfsnám
Fraunhofer eða CCP
Nemendur geta sótt um að fara í starfsnám til hinnar virtu Fraunhofer-rannsóknarstofnunar, í Maryland í Bandaríkjunum. Starfsnámið er metið til eininga. Við Fraunhofer eru stundaðar öflugar rannsóknir í nánu samstarfi við ýmsar stofnanir og fá nemendur að taka þátt í þeirri vinnu. Nemendur fá greidd laun meðan á starfsnáminu stendur sem yfirleitt tekur sex mánuði.
CCP Games og Háskólinn í Reykjavík eru með samstarfssamning um rannsóknir og kennslu í tölvunarfræði. Hluti af þessum samningi er starfsnám nemenda HR hjá fyrirtækinu. Frekari upplýsingar um starfsnámið veitir skrifstofa tölvunarfræðideildar: td@ru.is .
Lokaverkefni með fyrirtækjum
Lokaverkefni nemenda í BSc-námi eru hópverkefni sem unnin eru í samstarfi við kennara og oftast í samvinnu við fyrirtæki. Undanfarin ár hafa nemendur unnið verkefni fyrir Icelandair, Advania, Minjastofnun, Marel, Tempo, Netorku, Össur, Valitor, Neyðarlínuna og Landspítalann.
Alþjóðleg vottun
BSc-námið í tölvunarfræði við HR hefur þá sérstöðu hér á landi að það hefur hlotið alþjóðlega gæðavottun (ASIIN).
Fjölbreytt nám við öfluga deild
Tölvunarfræði er fjölbreytt og lifandi grein sem skarast við ýmis önnur fræðasvið eins og stærðfræði, sálfræði, verkfræði, lífupplýsingafræði og viðskiptafræði. Nám í tölvunarfræði við HR hefur sérstöðu vegna sterkra tengsla við atvinnulífið og áherslu á raunhæf verkefni. Tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík er sú stærsta sinnar tegundar á landinu og við hana starfa vísindamenn og kennarar sem eru í fremstu röð í sínu fagi.
Vísindamenn í fremstu röð
Tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík er sú stærsta sinnar tegundar á landinu og við hana starfa vísindamenn og kennarar sem eru í fremstu röð í sínu fagi. Þannig hafa fræðimenn tölvunarfræðideildar til dæmis hlotið hin virtu Kurzweil-verðlaun tvisvar sinnum og CADIA player, sigursælasta leikjavél sem gerð hefur verið með gervigreind í almennri leikjaspilun, var þróuð innan deildarinnar einnig hafa nokkrir starfsmenn deildarinnar hlotið heiðurinn Fellows of the European Association for Theoretical Computer Science og eru meðlimir Academia Europaea (the Academy of Europe). Helstu rannsóknarsvið tölvunarfræðideildar eru gervigreind, fræðileg tölvunarfræði og hugbúnaðar- og tölvukerfi.
Að námi loknu
Lögverndað starfsheiti
Nemendur öðlast réttindi til að nota lögverndaða starfsheitið tölvunarfræðingur að loknu námi.
Fjölbreytt störf
Útskrifaðir nemendur starfa meðal annars við greiningu og hönnun kerfa, vef- og viðmótshönnun, forritun, gæðaprófanir og fleira. Í BSc-námi við tölvunarfræðideild er lögð áhersla á raunhæf verkefni sem eru góð þjálfun fyrir slík störf að námi loknu.
Meistaranám
Með því að ljúka meistaranámi (MSc) í framhaldi af grunnnámi (BSc) geta nemendur náð enn betra forskoti á vinnumarkaði, sérstaklega ef viðkomandi vill sinna stjórnunarstöðu eða vinna á erlendri grundu.
Aðstaða
Þjónusta í tveimur háskólum
Nemendur fá að nýta sér alla aðstöðu í Háskólanum á Akureyri og eins geta þeir nýtt sér aðstöðuna í Háskólanum í Reykjavík ef þeir kjósa það. Nemendur á Austurlandi stunda námið í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði.
Aðstaða í HA
Nemendur fyrir norðan eru með sína heimastofu í HA og hafa aðgang að bókasafni, námsráðgjöfum og allri þjónustu sem HA býður nemendum sínum.
Aðstaða í HR
Nemendur geta jafnframt nýtt sér aðstöðu og þjónustu í Háskólanum í Reykjavík.
Kennarar
Vísindamenn og sérfræðingar
Nemendur í tölvunarfræði njóta leiðsagnar öflugra vísindamanna og sérfræðinga á fagsviðinu, stundakennara og gestafyrirlesara með sérfræðiþekkingu úr atvinnulífinu. Kennarar við HR eru að jafnaði í miklum samskiptum við nemendur.
Stundakennarar
Meðal þeirra sem koma að kennslu í tölvunarfræði er fjöldi stundakennara sem færa atvinnulífið beint inn í skólastofunar og miðla fræðslu um verklag og verkefni sem þau eru að fást við hverju sinni.
Meðal kennara eru:

Hallgrímur Arnalds
Forstöðumaður grunnnáms í tölvunarfræði og hefur séð um samstarf deildarinnar við fyrirtæki og lokaverkefni.

Kári Halldórsson
Kári hefur um árabil kennt tölvugrafík, fengist við tölvuleikjagerð og stundað rannsóknir í gervigreind. Einnig hefur hann leiðbeint hópum í verklegum námskeiðum og lokaverkefnum, bæði almennum og rannsóknartengdum.

Marta Kristín Lárusdóttir
Sérfræðingur á sviði notendamiðaðrar hugbúnaðargerðar og kennir meðal annars námskeið um samskipti manns og tölvu.

Ólafur Andri Ragnarsson
Er í stjórn samtaka leikjaframleiðenda, IGI (Icelandic Gaming Industry) og fulltrúi Íslands í Nordic Game samstarfinu. Hann er einn stofnenda Betware.
Skipulag náms
Uppbygging náms
Tölvunarfræði BSc
Til að ljúka BSc. í tölvunarfræði við Háskólann á Akureyri eða Austurlandi þarf að ljúka 180 ECTS einingum. Hvert námskeið er 6 ECTS einingar, nema lokaverkefni sem er 12 ECTS einingar. Dæmi um hvernig nám í staðarnámi er skipulagt má sjá í meðfylgjandi töflu, en raða má námskeiðum á annan hátt ef undanfarareglum er fylgt.
Einingar
Nemandi þarf að ljúka 180 ECTS einingum til BSc-prófs í tölvunarfræði.
1. ár - Haust | 2. ár - Vor |
---|---|
Forritun Tölvuhögun Strjál stærðfræði I Greining og hönnun hugbúnaðar Verklegt námskeið 1 (3. vikna) |
Gagnaskipan Strjál stærðfræði II Vefforritun Gagnasafnsfræði Verklegt námskeið 2 (3. vikna) |
2. ár - Haust | 2. ár - Vor |
---|---|
Stærðfræðigreining fyrir tölvunarfræðinema Reiknirit Hugbúnaðarfræði Hagnýt tölfræði og inngangur að gagnagreiningu Þróun smáforrita |
Forritunarmál Stýrikerfi Vefforritun 2 Vöruþróun og nýsköpun (HA) Forritunarmálið Python |
3. ár - Haust | 3. ár - Vor |
---|---|
Tölvusamskipti Tölvugrafík Hönnun og smíði hugbúnaðar Vefþjónustur Hönnun og þróun tölvuleikja |
Högun leikjavéla Gervigreind Advanced Game Design Lokaverkefni |
- Nemendur sem hafa lokið heildstæðu námi að lágmarki 60 ECTS einingar á háskólastigi í öðrum deildum geta sótt um að fá þær metnar, allt að 60 ECTS einingar.
- Ef ekki er um heildstætt nám að ræða geta nemendur sótt um að fá metnar allt að 36 ECTS einingar utan deildar.
Lokaverkefni
Raunveruleg hugbúnaðarverkefni
Lokaverkefni nemenda í tölvunarfræðideild eru tvenns konar, hefðbundin lokaverkefni og lokaverkefni með rannsóknaráherslu. Í hefðbundnum lokaverkefnum fá nemendur tækifæri til að vinna að raunverulegum hugbúnaðarverkefnum í nánum tengslum við atvinnulífið. Nemendur vinna í 2-4 manna hópum, undir leiðsögn verkefniskennara og fá aðstöðu hjá tilteknu fyrirtæki.
Frumkvæði að verkefnum hefur á undanförnum árum bæði komið frá fyrirtækjum og nemendum. Nemendur verða að hafa lokið a.m.k. 78 ECTS einingum og Verklegu námskeiði 2 og Hugbúnaðarfræði. Mælt er með að nemendur taki Lokaverkefni á 6. önn.
Nemendur skrifa greinargóða verkefnisskýrslu sem þeir leggja fram með hugbúnaðinum. Lokaverkefni er metið af verkefniskennara og tveimur prófdómurum frá HR. Verkefnisvinnunni lýkur formlega með opinni kynningu í skólanum.
Nánari upplýsingar um lokaverkefni má finna hér
Dæmi um lokaverkefni nemenda
- Ground tester app
Samstarfsaðili: Icelandair - A Computer Game for Patient Education
Samstarfsaðili: Landspítalinn - Minjakort
Samstarfsaðili: Minjastofnun Íslands - Cloud Analytics
Samstarfsaðili: Marel - Innova - Quizup - Single Player Web App
Samstarfsaðili: Plain Vanilla - Dynamics AX og Internet of Things
Samstarfsaðili: Advania - Tempo Chrome Extension
Samstarfsaðili: Tempo ehf. - Raforkumarkaður á vefnum
Samstarfsaðili: Netorka
Inntökuskilyrði
Nauðsynlegur undirbúningur
Til að hefja nám í tölvunarfræði þurfa umsækjendur að hafa lokið stúdentsprófi, frumgreinaprófi eða sambærilegu prófi. Æskilegt er að nemendur hafi haldgóða þekkingu á stærðfræði, sér í lagi ef rannsóknarmiðaða námsleiðin er valin. Við mat á umsóknum er tekið tillit til einkunna á stúdentsprófi, frekari menntunar, starfsreynslu ofl. Umsækjendur eru því hvattir til að gera grein fyrir öllu því sem þeir telja geta orðið umsókn sinni til framdráttar.
Sótt um hjá HR
Nemendur fyrir norðan og austan sem hyggjast stunda diplómanám eða BSc-nám í tölvunarfræði sækja um hjá Háskólanum í Reykjavík.
Fylgigögn með umsókn
Allir umsækjendur verða að fylla út rafræna umsókn og fylgigögnum skal skila inn í umsóknarkerfið. Eftirfarandi gögn þurfa að fylgja umsókn:
- Afrit af stúdentsprófi sem skila þarf rafrænt í umsóknarkerfi HR.
- Ferilskrá eða viðeigandi upplýsingar um starfsreynslu (kostur en ekki skylda).
Vantar þig grunninn?
Þeim nemendum sem vilja hefja nám í tölvunarfræði en vantar nauðsynlegan undirbúning, til dæmis í stærðfræði er bent á háskólagrunn HR sem er undirbúningsnám fyrir háskóla. Þar er hægt að velja strax áherslulínu fyrir tölvunarfræði.
Mat á fyrra námi
Ef umsækjandi hefur lokið námskeiðum á háskólastigi er hægt að sækja um mat á fyrra námi á skrifstofu deildarinnar td@ru.is
Getum við aðstoðað?
Frekari upplýsingar
- Getum við aðstoðað? Sendu skrifstofu tölvunarfræðideildar tölvupóst
- Um deildina
- Upplýsingar fyrir nemendur sem þegar eru í námi við tölvunarfræðideild
- Styrkir
- Skólagjöld
- Tvíund - félag nemenda við tölvunarfræðideild HR
- /sys/tur - félag kvenna við tölvunarfræðideild HR