Aðstoðarkerfi HR
Nemendur með fötlun eða hömlun
Aðstoðarkerfi HR - Nemendur með fötlun eða hömlun
Stefna Háskólans í Reykjavík er að styðja við alla nemendur þannig að þeir nái að hámarka hæfni sína og auka styrk sinn á námstímanum. Haft er að leiðarljósi að nemendum með fatlanir, sértæka námsörðugleika og aðrar hamlanir séu sköpuð skilyrði til að taka virkan þátt í starfsemi háskólans. Stúdentaþjónusta Háskólans í Reykjavík ber ábyrgð á aðstoðarkerfi skólans.
Fötlun eða hömlun sem aðstoðarkerfið nær til getur verið eftirfarandi:
- Hreyfihömlun s.s. fatlanir, tímabundin hreyfihömlun vegna slyss
- Heyrnarskerðing, heyrnarleysi
- Sjónskerðing, blinda/lögblinda
- Sértækir námsörðugleikar s.s. lesblinda eða sértækir lestrarörðugleikar, dyscalculi
- Taugasálfræðileg vandamál s.s., ADHD, Tourette- eða Asperger-heilkenni
- Langvarandi veikindi s.s. krabbamein, MS, MND, geðfatlanir
Aðgerðir og úrræði sem falla undir ofangreinda flokka:
- Nemendur með hreyfihömlun: Húsnæði skólans í Nauthólsvík er hannað frá upphafi með það í huga að taka á móti einstaklingum með hreyfihömlun og er hjólastólaaðgengi mjög gott. Flóttaleiðir fylgja ítrustu kröfum fyrir einstaklinga með hreyfihömlun.
- Heyrnarskerðing: Unnið er á einstaklingsmiðaðan hátt að úrræðum fyrir nemendur með heyrnarskerðingu/heyrnarleysi. Tæki eru í kennslustofum sem bjóða upp á að heyrnarskertir einstaklingar fái magnað upp hljóð úr tækjum og tal kennara. Góð hljóðkerfi eru í öllu húsinu svo auðvelt er að senda út kallskilaboð til allra nemenda.
- Sjónskerðing/blinda: Gert er ráð fyrir að merkingar á kennslustofum og í lyftum í húsnæði skólans verði gerðar þannig úr garði að sjónskertir og blindir einstaklingar geti nýtt sér þær. Unnið er á einstaklingsmiðaðan hátt að úrræðum fyrir blinda/sjónskerta nemendur sem hefja nám við skólann. Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda,sjónskerta og daufblinda veitir auk þess ýmsa þjónustu fyrir nemendur.
- Námsörðugleikar og -hamlanir, taugasálfræðileg vandamál og veikindi: Unnið er á einstaklingsmiðaðan hátt að úrræðum fyrir nemendur sem þurfa sérstakan stuðning á námstímanum. Stúdentaþjónusta HR ásamt sérúrræðanefnd tekur fyrir mál nemenda sem sækja um skólavist og/eða hefja nám og óska eftir sérstökum úrræðum. Nemendum sem þurfa sérúrræði á námstímanum er boðið upp á ráðgjöf og sérstakan stuðning hjá Stúdentaþjónustu HR.