Hugverkaréttindastefna HR
Hugverkaréttindastefna HR
1. Inngangur
1.1. Samkvæmt lögum nr. 63/2006 er háskóli sjálfstæð menntastofnun sem sinnir kennslu, rannsóknum, varðveislu þekkingar, þekkingarleit og sköpun á sviðum vísinda, fræða, tækniþróunar eða lista. Hlutverk háskóla er að stuðla að sköpun og miðlun þekkingar og færni til nemenda og samfélagsins alls. Starf háskóla miðar að því að styrkja innviði íslensks samfélags og stöðu þess í alþjóðlegu tilliti með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi. Háskóli er miðstöð þekkingar og hluti af alþjóðlegu mennta- og vísindasamfélagi.
1.2. Háskólinn í Reykjavík leggur áherslu á að starfsmenn hafi tækifæri til að vinna að hagnýtingu rannsókna og verkefna, hvort sem það felst í gerð nytjaleyfissamninga, sölu hugverka eða stofnun sprotafyrirtækja. Markmið þeirrar hugverkaréttindastefnu sem hér er lýst, er að styðja þá starfsmenn sem telja að rannsóknir þeirra geti leitt til hugverka, með því að tryggja bæði réttindi og skyldur þeirra. Í því samhengi er mikilvægt að stuðla að jafnvægi milli hagsmuna rannsakenda, háskólans, atvinnulífs og samfélagsins.
1.3. Hugverkaréttindastefna þessi byggir á lögum nr. 72/2004 um uppfinningar starfsmanna og meginreglum vinnuréttar.
1.4. Hugverkaráð Háskólans í Reykjavík hefur umsjón með hugverkaréttindastefnunni. Ráðið starfar í umboði rektors að vernd og hagnýtingu hugverka og stofnun sprotafyrirtækja. Í Hugverkaráði sitja þrír aðilar skipaðir af rektor, af þeim skulu tveir aðilar vera fulltrúar akademískra starfsmanna, og skal annar þeirra vera af tæknisviði, og einn aðili utan Háskólans. Hugverkaráð er skipað til þriggja ára.
2. Gildissvið
2.1. Hugverkaréttindastefnan tekur til alls starfsfólks við Háskólann í Reykjavík, hvort heldur það er í fullu starfi eða hlutastarfi. Sama gildir um gestastarfsfólk og nemendur sem þiggja greiðslur í formi launa eða styrks frá skólanum (hér eftir vísað til sem starfsmaður/starfsfólk). Stefnan á jafnt við um hugverk sem einn eða fleiri standa saman að.
2.2. Hugverkaréttindastefnan tekur til uppfinninga í skilningi laga nr. 17/1991 um einkaleyfi og annarra hagnýtanlegra rannsókna og verkefna (í stefnu þessari sameiginlega vísað til sem hugverka). Til annarra hagnýtanlegra rannsókna og verkefna í skilningi hugverkastefnunnar, telst t.d. hönnun í skilningi laga nr. 46/2001 um hönnun, verkþekking (e. know how) og verk skv. ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972. Undanþeginn er þó höfundaréttur að bókmenntaverki, þ.m.t. kennsluefni, handritum, greinum og bókum, nema um annað sé samið.
2.3. Hugverkaréttindastefnan gildir um hugverk sem eru þáttur í starfi starfsfólks skólans eða tengjast tilteknum rannsóknum eða verkefnum sem þeim hefur verið falið eða taka sér fyrir hendur innan skólans. Sama gildir um hugverk sem til verða við notkun á auðlindum skólans, þ.m.t. fjármunum, húsnæði, efni, tækjabúnaði og annarri aðstöðu, nema um annað sé samið.
2.4. Hafa skal hliðsjón af ákvæðum hugverkaréttindastefnu þessarar þegar samið er um tilkall til hugverka í samstarfsverkefnum sem starfsfólk Háskólans í Reykjavík eru aðilar að. Þegar um er að ræða þjónusturannsóknir eða aðrar rannsóknir fjármagnaðar af fyrirtækjum, stofnunum, háskólum eða samtökum, í heild eða hluta, kann það að vera sanngjarnt að vikið sé frá ákvæðum hugverkaréttindastefnunnar að einhverju leyti. Slík frávik skulu rædd við viðkomandi starfsfólk. Frávik skulu háð sérstökum samningum sem hugverkaráð skólans skal upplýst um hverju sinni.
2.5. Hugverkaréttindastefna þessi hefur ekki áhrif á stefnu skólans um birtingu rannsókna og opinn aðgang. Starfsfólk er hvatt til að huga að hagnýtingu rannsóknaniðurstaðna og mögulegri einkaleyfavernd áður en niðurstöður rannsókna og verkefna eru birtar.
3. Réttur til hugverka
3.1. Háskólinn í Reykjavík getur krafist framsals réttar á hugverkum starfsfólks til sín samkvæmt lögum nr. 72/2004 um uppfinningar starfsmanna og meginreglur vinnuréttar, sbr. 2. gr.
4. Tilkynning um hugverk
4.1. Ef starfsfólk telur sig hafa þróað hagnýtanlegt hugverk í starfi (uppfinningar og aðrar hagnýtanlegar rannsóknir og verkefni) ber því að tilkynna hugverkaráði Háskólans í Reykjavík um hugverkið, nema um annað sé samið. Gildir það óháð því hvort hugverkið hafi orðið til í samstarfi við annað starfsfólk, nemendur eða utanaðkomandi aðila. Starfsfólk skal leita álits hugverkaráðs sé það í vafa um hvort hugverkið sé hagnýtanlegt. Nemendur sem jafnframt teljast starfsmenn samkvæmt stefnu þessari skulu tilkynna um hugverk með leiðbeinanda sínum. Hugverkaráði ber að svara erindum innan þriggja mánaða. Hægt er að óska eftir flýtimeðferð og ber þá hugverkaráði að svara innan 4 vikna. Slíka ósk þarf að rökstyðja.
4.2. Upplýsingar um hugverk skulu vera þannig að skólinn geti með góðu móti metið mikilvægi þess. Telji hugverkaráð að tilkynning sé ótímabær, t.d. vegna skorts á rannsóknum eða upplýsingum, getur ráðið farið fram á að starfsfólk sendi inn nýja tilkynningu þegar hugverkið er komið í þann búning að nefndin geti tekið afstöðu til þess.
4.3. Tilkynningu, sbr. 4.1. gr. skal senda áður en hugverkið er birt hvort heldur í ræðu eða riti. Til að fá hugverk verndað t.d. með einkaleyfi þá má hugverkið ekki hafa verið birt í ræðu eða riti. Starfsfólk skal því huga að því að hugverkið verði ekki birt fyrr en ákvörðun um framsal og innlögn einakleyfisumsóknar hefur verið tekin og hugverkaráð hefur lýst því yfir skriflega að það muni ekki krefjast framsals á hugverkinu.
5. Framsal og hagnýting hugverka
5.1. Hugverkaráð tekur innan þriggja mánaða frá móttöku tilkynningar ákvörðun um það hvort krafist er framsals hugverks til skólans, að því gefnu að tilkynning uppfylli tilsett skilyrði. Áður en hugverkaráð tekur ákvörðun um framsal er viðkomandi boðið að koma á fund ráðsins og gera grein fyrir hugverki og mögulegum tækifærum. Starfsfólki skal skýrt frá ákvörðun um framsal innan sömu tímamarka.
5.2. Taki Háskólinn í Reykjavík ákvörðun um að fá hugverk starfsfólks framseld til sín skal gengið frá skriflegum framsalssamningi. Í slíkum tilvikum getur hugverkaráð boðið nemanda/nemendum til samninga líkt og um starfsfólk er að ræða, þegar hugverk er í sameign starfsfólks og nemenda. Hafi hugverk orðið til í sameign skólans við þriðja aðila skal hugverkaráð koma að samningi við viðkomandi um hlutdeild þeirra í hugverki, rétt til hagnýtingar og skiptingu fjárhagslegs ágóða áður en að framsalssamningi kemur.
5.3. Hugverkaráð tekur allar ákvarðanir varðandi vernd hugverks sem fengist hefur framselt, m.a. ákvarðanir um að leggja inn og draga til baka einkaleyfisumsókn/ir, svara athugasemdum einkaleyfayfirvalda og bregðast við andmælum. Sama gildir um ákvarðanir um hvort og með hvaða hætti hugverk verður hagnýtt, t.d. með nytjaleyfisamningi eða sölu og fjárhagslega skilmála hagnýtingar. Hugverkaráð skal hafa samráð við viðeigandi starfsfólk um hagnýtingu hugverka. Hugverkaráð getur jafnframt samþykkt að sprotafyrirtæki verði stofnað til hagnýtingar á hugverki, ef að ósk um slíkt kemur fram viðeigandi starfsfólki og ef við á gerður nytjaleyfissamningur um hugverkið við fyrirtækið eða að ráðist verði í samstarf við þriðja aðila við hagnýtingu á hugverki. Starfsfólk nýtur réttar til nafngreiningar við vernd, markaðssetningu og hagnýtingu hugverksins.
5.4. Starfsfólki ber að veita hugverkaráði alla nauðsynlega aðstoð við öflun réttarverndar og hagnýtingu hugverka sinna og virða þær skuldbindingar sem vernd og hagnýting leiðir til. Þá skal starfsfólk gera hugverkaráði grein fyrir mögulegum hagsmunaárekstrum.
5.5. Hugverkaráð skal leitast við að tryggja, að í samningum við þriðja aðila um hagnýtingu hugverks, hafi Háskólinn í Reykjavík heimild til að nýta hugverkið í kennslu og við rannsóknir, enda sé slík notkun ekki í fjárhagslegum tilgangi. Ákvarðanir um annað skulu rökstuddar í fundargerð hugverkaráðs.
5.6. Hugverkaráð getur hvenær sem er ákveðið að fallið skuli frá hugverkavernd og/eða hagnýtingu hugverka sem fengist hafa framseld. Hugverkaráði ber að rökstyðja slíkar ákvarðanir.
5.7. Hugverkaráð metur eigi sjaldnar en árlega hvort viðhalda eigi skráðum hugverkaréttindum, þ.m.t. einkaleyfum.
6. Skipting fjárhagslegs ágóða
6.1. Sá fjárhagslegi ágóði sem kemur til skipta er nettóafrakstur, þ.e. sú fjárhæð sem eftir stendur þegar beinn útlagður kostnaður Háskólans í Reykjavík vegna verndar og hagnýtingar hugverka hefur verið greiddur, t.d. kostnaður vegna nýnæmisathugana, einkaleyfaumsókna og annarrar vinnu við einkaleyfaferlið, markaðsrannsóknir og viðskiptaþróun. Meginreglan um skiptingu fjárhagslegs ágóða vegna hagnýtingar hugverks sem Háskólinn í Reykjavík hefur fengið framselt til sín er eftirfarandi:
- Hugverkaráð 15%
Tekjurnar er m.a. nýttar til að greiða kostnað af starfi hugverkaráðs m.a. til að greiða kostnað við þekkingar- og tækniyfirfærsluskrifstofu, sérfræðiþjónustu, einkaleyfakostnað sem ekki fæst endurgreiddur og annan kostnað sem fellst í að vernda og verja hugverk. Þessi hlutur kann að vera hærri í þeim tilvikum þegar hugverkið er í eigu HR og annarra aðila sem sjá um vernd og hagnýtingu hugverksins. Allur ágóði umfram kostnað rennur í rannsóknasjóð Háskólans í Reykjavik.
Eftir að ofangreindur kostnaður hefur verið greiddur skiptast eftirstöðvar sem hér segir: - Starfsmaður/starfsfólk 33%
Ef starfsfólk stendur saman að hugverki ber stjórnandi rannsóknar/verkefnis ábyrgð á því að samið sé um hlutdeild hvers þeirra. Samningur þess efnis skal liggja fyrir áður en að framsalssamningi kemur. - Starfseining, s.s. deild 33%
- Háskólinn í Reykjavík 34%
Tekjurnar fara í nýsköpunarsjóð Háskólans í Reykjavík.
6.2. Í undantekningartilvikum getur hugverkaráð vikið frá framangreindri meginreglu ef fjárhagsleg skiptingin telst ekki sanngjörn, t.d. vegna framlags aðila og fjármögnun rannsókna. Samningum um fjárhagslega skiptingu má breyta að kröfu annars aðila síðar, þegar þær aðstæður sem lágu upphaflega til grundvallar hafa breyst verulega eða aðrar sérstakar aðstæður mæla með því. Þó skal aldrei endurgreiða fé sem starfsfólk hefur tekið við samkvæmt fyrri ákvörðun. Hugverkaráð skal rökstyðja ákvörðun um aðra fjárhagslega skiptingu í fundargerð.
6.3. Fjárhagslegur ágóði af hagnýtingu hugverka greiðist til Háskólans í Reykjavík, sem greiðir hverjum aðila sína hlutdeild.
7. Fallið frá hugverkum og/eða hagnýtingu
7.1. Hugverkaráð getur hvenær sem er fallið frá rétti til hugverks og/eða hagnýtingu, ákveði ráðið að leggja ekki inn umsókn um einkaleyfi, hönnun eða önnur skráð hugverkaréttindi, eða hagnýta hugverk sem skólinn hefur fengið framselt til sín. Áður en ákvörðun er tekin ber Hugverkraráði að leita afstöðu viðkomandi starfsfólks. Sprotastefna Háskólans í Reykjavík gildir þegar starfsfólk ákveður í kjölfarið að stofna sprotafyrirtæki til að vinna að hagnýtingu hugverksins.
7.2. Ákveði hugverkaráð að falla frá rétti til hugverks og/eða hagnýtingu, sbr. 7.1. grein og hafi hugverkaráð stofnað til kostnaðar t.d. með innlögn umsóknar um einkaleyfi, hönnun eða önnur skráð hugverkaréttindi, eða þegar hafið hagnýtingu hugverks, getur hugverkaráð ákveðið að framselja hugverkið aftur til viðkomandi, gegn einum eða fleiri eftirfarandi skilyrðum, sem samið skal sérstaklega um í hverju tilviki:
- Starfsfólk endurgreiði útlagðan kostnað Háskólans í Reykjavík, s.s. vegna lögfræðiráðgjafar, einkaleyfisumsókna og einkaleyfa, samninga og aðgerða við markaðssetningu og hagnýtingu hugverks.
- Háskólinn í Reykjavík og starfseining starfsfólks fái hlutdeild í fjárhagslegum ágóða af hagnýtingu hugverksins.
- Háskólinn í Reykjavík fái hlut í sprotafyrirtæki starfsfólks, sá hlutur er óháður aðkomu skólans að fyrirtækinu á grundvelli sprotastefnu Háskólans í Reykjavík. Hagnaður af sölu eignarhluta í sprotafyrirtækjum rennur í nýsköpunarsjóð Háskólans í Reykjavík.
8. Notkun á heiti eða merki
8.1. Það eru hagsmunir Háskólans í Reykjavík og samstarfsaðila að heiti og/eða merki þeirra séu notuð til að auka veg aðila, með réttum og viðeigandi hætti. Háskólanum í Reykjavík er heimilt að vísa til starfsfólks, nytjaleyfishafa, kaupanda að hugverki eða samstarfsaðila í tengslum við hugverk, nema samið hafi verið um annað. Að sama skapi er starfsfólki, nytjaleyfishafa, kaupanda og samstarfsaðila heimilt að nota heiti eða merki Háskólans í Reykjavík í tengslum við hugverkið. Allar stærri fréttatilkynningar skulu bornar undir viðkomandi aðila.
9. Endurskoðun stefnu
9.1. Hugverkaráð endurskoðar hugverkaréttindastefnuna eftir þörfum, þó eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti, og leggur tillögur að breytingum fyrir framkvæmdaráð skólans. Stefnan með samþykktum breytingum skal birt á heimasíðu skólans.
Hugverkaréttindastefnan tekur gildi frá og með samþykkt framkvæmdaráðs Háskólans í Reykjavík.
Samþykkt í framkvæmdaráði HR 10. desember 2024.