Samþykktir fyrir Háskólann í Reykjavík ehf
1. gr. Heiti og heimilisfang
Heiti félagsins er Háskólinn í Reykjavík ehf. Heimili félagsins er að Menntavegi 1, 102 Reykjavík.
2. gr. Hlutverk
Hlutverk félagsins er að auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og lífsgæði, meðal annars með því að efla og auka menntun, rannsóknir og nýsköpun á háskólastigi, sem nýtist atvinnulífinu. Í þeim tilgangi rekur félagið háskóla, sem verður meginverkefni félagsins, og aðra þá starfsemi sem þjónað getur þessu hlutverki. Hlutverk félagsins er ekki að afla hluthöfum þess fjárhagslegs ávinnings af rekstri.
Félagið hyggst sinna hlutverki sínu varðandi menntun og rannsóknir meðal annars með gerð þjónustusamninga við stjórnvöld um fjárveitingar. Þá hyggst félagið sinna hlutverki sínu með því að taka að sér margvíslega þjónustu á sviði menntunar og rannsókna og þar m.a. samstarf við fyrirtæki, rannsóknarstöðvar og aðrar menntastofnanir á Íslandi og erlendis.
3. gr. Hlutafé
Hlutafé félagsins er kr. 525.000.000,-. Hlutaféð skiptist í hluti að fjárhæð ein króna að nafnvirði eða margfeldi þar af. Eitt atkvæði fylgir hverri krónu í hlutafé.
Hlutafé skiptist þannig í ISK: | Upphæð |
---|---|
Menntastjóður Viðskiptaráðs Íslands | 320.000.000 |
Samtök iðnaðarins (SI) | 120.000.000 |
Samtök atvinnulífsins (SA) | 60.000.000 |
Eigin bréf | 25.000.000 |
4. gr. Hlutafjáraukning og lækkun, hlutabréf, hlutaskrá og eigendaskipti
Samþykki hluthafafundar þarf til að auka hlutafé enda samþykki 2/3 hluthafa þá tillögu. Stjórnin ákveður nafnverð hluta, útboðsgengi og skiptigengi og aðrar sölureglur, frest til áskriftar og greiðslu ákveður stjórnin og skal í einu og öllu fara eftir ákvæðum samþykkta félagsins og V. kafla einkahlutafélagalaga nr. 138/1994.
Viðskipti með hlutafé í félaginu eru heimil hljóti þau samþykki 2/3 hluta hluthafa félagsins. Seljandi hluta í félaginu skal upplýsa, innan fimm virkra daga frá því ákvörðun er tekin um sölu, aðra hluthafa sem og stjórn félagsins formlega um ætlanir sínar og veita nákvæmar upplýsingar um væntanlega kaupendur.
Ef til viðskipta kemur með hlutafé í félaginu hefur stjórn félagsins forkaupsrétt að fölum hlutum fyrir hönd félagsins. Hluthafar hafa forkaupsrétt að fölum hlutum í hlutfalli við skráða hlutafjáreign sína að félaginu sjálfu frágengnu. Frestur forkaupsréttarhafa til að nýta sér forkaupsrétt er einn mánuður frá tilkynningu stjórnar til þeirra um sölu hlutanna og skulu seldir hlutir staðgreiddir. Eigendaskipti að hlutum öðlast gildi við tilkynningu til stjórnar. Verði ágreiningur um verð hluta skulu dómskvaddir matsmenn kallaðir til.
Óheimilt er að veðsetja hluti í félaginu, gefa, lána eða arfleiða einhvern að hlutum án samþykkis aukins meirihluta stjórnar. Aðeins hluthafafundur getur ákveðið lækkun hlutafjár og þarf til þess samþykki 90% hluthafa.
Stjórn félagsins skal halda hlutaskrá að lögum.
5. gr. Réttindi og ábyrgð hluthafa
Hluthafar bera ekki ábyrgð umfram hluti sína í félaginu. Engin sérréttindi fylgja hlutum í félaginu. Hluthafar þurfa ekki að sæta innlausn nema landslög kveði á um slíkt. Félagið má kaupa eigin hluti að lögmæltu hámarki. Óheimilt er að neyta atkvæðisréttar fyrir hluti í eigu félagsins.
6. gr. Hluthafafundur
Æðsta vald er í höndum lögmætra hluthafafunda. Hluthafafundur er lögmætur ef hann er boðaður með bréfi, rafpósti eða á sannanlegan hátt með a.m.k. sjö daga fyrirvara, en lengst með fjögurra vikna fyrirvara. Hluthafafund skal halda að ákvörðun stjórnar eða að ósk hluthafa sem ráða yfir a.m.k. tíunda hluta hlutafjár. Slík ósk skal berast stjórninni skriflega og fundarefni tilgreint og ber stjórninni þá að halda fund innan fjórtán daga.
Hluthafafundi stýrir fundarstjóri sem fundurinn kýs. Fundarstjóri skal láta kjósa fundarritara sem heldur fundargerðabók. Í fundargerðabók skal skrá ákvarðanir hluthafafundar ásamt úrslitum atkvæðagreiðslna. Skrá yfir viðstadda hluthafa og umboðsmann skal færð í fundargerðabók eða fylgja henni. Fundarstjóri og og fundarritari skulu undirrita fundargerðabók. Í síðasta lagi fjórtán dögum eftir hluthafafund skulu hluthafar eiga aðgang að staðfestu endurriti fundargerðar.
7. gr. Ársreikningar og aðalfundur
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Aðalfund skal halda fyrir lok júlímánaðar ár hvert. Skal hann boðaður öllum hluthöfum með bréfi, rafpósti eða með auglýsingu í fjölmiðlum með minnst fjórtán daga fyrirvara og lengst fjögurra vikna fyrirvara og skal geta um sérstök fundarefni í fundarboði.
Tillögur stjórnar eða hluthafa, sem leggja skal fyrir aðalfund, þar á meðal tillaga um stjórn, skulu liggja fyrir eigi síðar en viku fyrir fundinn. Tillögur um breytingar á samþykktum skal þó kynna hluthöfum a.m.k. tveimur vikum fyrir fund. Að öðrum kosti verða þær ekki teknar til afgreiðslu nema allir hluthafar sæki fundinn og séu sammála um að taka tillögur um breytingar á samþykktum til afgreiðslu.
Á dagskrá aðalfundar skulu m.a. vera eftirtaldir liðir:
- Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra um hag félagsins, starfsemina undanfarið ár og framtíðaráform.
- Ársreikningar lagðir fram til samþykktar.
- Fjárhagsáætlun yfirstandandi árs lögð fram til kynningar.
- Tillaga um breytingar á samþykktum félagsins.
- Tillaga um þóknun til stjórnarmanna og endurskoðanda.
- Kjör háskólaráðs HR.
- Kjör stjórnar HR.
- Kjör endurskoðanda.
- Tillaga stjórnar að starfskjarastefnu félagsins.
- Önnur mál löglega upp borin eða mál sem stjórnin hefur undirbúið.
8. gr. Háskólaráð
Í háskólaráði sitja 10 fastafulltrúar sem skipaðir eru af eigendum háskólans á aðalfundi til tveggja ára í senn. Leitast skal við að í háskólaráði sitji formlegir fulltrúar eigenda skólans, fulltrúar atvinnulífs, akademíu og stjórnsýslu. Háskólaráðsmenn skulu ekki sitja lengur en átta ár samfellt. Nánar er kveðið á um skipan háskólaráðs í hluthafasamkomulagi.
Háskólaráð er kosið á aðalfundi og er vettvangur umræðna um stefnumótun háskólans varðandi nám, kennslu og rannsóknir, sem og um tengsl háskólans og atvinnulífsins. Háskólaráð HR heldur fundi 2-3 sinnum á ári, en fundir eru boðaðir af formanni háskólaráðs sem jafnframt er formaður stjórnar HR. Rektor situr fundi háskólaráðs og annast undirbúning þeirra í samráði við formann. Afl atkvæða fastafulltrúa í háskólaráði ræður úrslitum, ef atkvæði skiptast jafnt ræður atkvæði formanns úrslitum. Deildarforsetar HR og formaður stúdentafélags HR sitja einnig almennt fundi ráðsins.
Háskólaráð markar meginstefnu skólans í samráði við stjórn HR. Háskólaráð HR ákveður stofnun nýrra deilda að tillögu stjórnar HR og ákvarðar meginstarfstilhögun háskólans í skipulags- og starfsreglum. Háskólaráð skal hafa eftirlit með að innra gæðastarfi skólans sé vel sinnt, m.a. skal háskólaráð fjalla um niðurstöður innra mats a.m.k. árlega og ytri úttektir eftir því sem við á.
9. gr. Stjórn
Stjórn félagsins er skipuð fimm aðalmönnum sem kosnir eru á aðalfundi til tveggja ára í senn. Hluthafar hafa rétt til að tilnefna stjórnarmenn í samræmi við gildandi hluthafasamkomulag á hverjum tíma. Formaður stjórnar skal tilnefndur sameiginlega af hluthöfum félagsins á aðalfundi. Verði ekki sjálfkjörið í stjórn félagsins skulu ákvæði laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög gilda um kjör stjórnarformanns á aðalfundi. Tryggt skal við stjórnarkjör að hlutfall hvors kyns í aðalstjórn sé ekki lægra en 40%. Náist ekki viðhlítandi niðurstaða kynjahlutfalla í stjórn er stjórnarkjör ógilt. Endurtaka skal stjórnarkjör, að því marki sem nauðsynlegt er, á sama hluthafafundi. Áður en stjórnarkjör er endurtekið skal gert fundarhlé og er þá heimilt að tilnefna fleiri frambjóðendur til stjórnar af því kyni sem hallar á við fyrri kosninguna.
Stjórnin útfærir stefnu félagsins og háskólans innan ramma meginstefnu háskólans. Stjórnin ákveður námsframboð, inntökuskilyrði og gæðastefnu kennslu. Stjórn félagsins, annast umsýslu eigna og fjárhagslegra þátta í starfsemi háskólans. Jafnframt ákveður stjórn skólagjöld og greiðslutilhögun þeirra. Stjórnin skal setja sér starfsreglur í samræmi við leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja, sem VÍ, SA og Nasdaq OMX Ísland hafa gefið út. Þar skal m.a. fjalla um verkefni stjórnar og framkvæmdastjóra (hér eftir rektor), og kröfur til rektors, kennara og annarra stjórnenda skólans. Undirskriftir meirihluta stjórnar skuldbinda félagið.
Formaður stjórnar boðar stjórnarfund með dagskrá með minnst þriggja daga fyrirvara, nema brýn nauðsyn sé að halda fund með skemmri fyrirvara. Fundur er lögmætur ef meirihluti stjórnarmanna situr hann. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á stjórnarfundum, en þó þurfa minnst þrír stjórnarmenn að greiða tillögu atkvæði sitt til þess að hún teljist samþykkt. Það sem gerist á fundum stjórnar skal bókað í gerðarbók.
Félagið ábyrgist skuldbindingar félagsins með eignum sínum. Stjórnin skal hafa stöðugt eftirlit með rekstri háskólans, bókhaldi og meðferð á fjármunum hans. Stjórnin afgreiðir rekstrar- og fjárfestingaráætlun fyrir háskólann og ársreikning hans. Stjórninni er heimilt að skipa sérstakar nefndir til tímabundinna verkefna, s.s. fjáröflunar, endurnýjunar tækjabúnaðar, þróunarverkefna eða annars sem er talið rétt að sérstakur starfshópur sinni. Daglegur rekstur, þar með talið starfsmannahald, fjármálaumsýsla, áætlunargerð og bókhald félagsins, er í höndum rektors.
10. gr. Framkvæmdastjóri/Rektor
Stjórnin ræður framkvæmdastjóra félagsins, sem jafnframt er rektor háskólans, ákveður laun hans og önnur starfskjör og leysir hann frá störfum. Rektor háskólans kemur fram fyrir hönd félagsins og háskólans, annast daglegan rekstur hans, fer með prókúruumboð og getur skuldbundið félagið í málum sem eru á verksviði hans. Rektor ber ábyrgð á rekstrinum gagnvart stjórn. Rektor situr fundi stjórnar með málfrelsi og tillögurétti nema stjórnin ákveði annað um einstaka fundi. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða meiriháttar. Slíkar ráðstafanir getur rektor aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana stjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi háskólans. Í slíkum tilvikum skal stjórninni tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina.
Rektor ræður prófessora, dósenta, lektora, að undangengnu mati dómnefndar, og aðra starfsmenn skólans og víkur þeim frá. Þó skal rektor hafa samráð við stjórn um ráðningu og starfsskyldur prófessora, deildarforseta og framkvæmdastjóra skólans. Hann semur skýrslu um starfsemi skólans í lok hvers skólaárs.
11. gr. Ráðstöfun hagnaðar/taps
Hagnaði félagsins og hlutdeild félagsins í hagnaði dótturfélaga og/eða hlutdeildarfélaga skal aðeins ráðstafað til eflingar starfseminnar í samræmi við hlutverk félagsins.
Félaginu er óheimilt að verja hagnaði, réttindum eða eignum til annarra verkefna en þeirra sem samræmast hlutverki og starfsemi félagsins. Ekki verður greiddur út arður úr félaginu.
12. gr. Breytingar á samþykktum og félagsslit
Breytingar á þessum samþykktum verður að samþykkja með atkvæðum 2/3 hluthafa og hluthafa sem ráða yfir minnst 2/3 hlutum þess hlutafjár sem farið er með atkvæði fyrir á lögmætum aðalfundi eða hluthafafundi.
Þyki ráðlegt eða nauðsynlegt að slíta félaginu fer þá um tillögur þar að lútandi sem lagabreytingar og gilda þá ákvæði einkahlutafélagalaga um félagsslit. Við slit á félaginu skal hluthafafundur jafnframt ákvarða um ráðstöfun eigna, greiðslu skulda og skuldbindinga félagsins, þar á meðal um réttindi þeirra námsmanna sem ekki hafa lokið námi sínu. Við félagsslit skal eingöngu framreiknað hlutafé, skv. vísitölu neysluverðs, og eign í Þróunarsjóði HR, renna til hluthafa félagsins í hlutfalli við þeirra framlag hlutafjár og til Þróunarsjóðs, en eignir umfram skuldir að öðru leyti skulu renna til eflingar menntunar á háskólastigi í landinu.
Samþykki 2/3 hluthafa og hluthafa sem ráða yfir minnst 2/3 hlutum þess hlutafjár sem farið er með atkvæði fyrir á lögmætum aðal- eða hluthafafundi þarf fyrir hvers konar samruna eða sameiningu félagsins við önnur félög sem og um sölu á talsverðum hluta eigna félagsins.
Þannig samþykkt í Reykjavík 8. maí 2017