Námið
Rannsóknir
HR

Stefna Háskólans í Reykjavík um opinn aðgang

Háskólinn í Reykjavík (HR) leggur áherslu á að sem flestir hafi aðgang að afurðum þess vísinda- og kennslustarfs sem fer fram við skólann. Í því skyni hefur HR sett fram eftirfarandi stefnu um opinn aðgang:

  • Akademískir starfsmenn HR skulu leitast við að birta afurðir vísinda- og kennslustarfs síns í opnum aðgangi. HR hvetur til þess að fræðigreinar, menntaefni og annað sem akademískir starfsmenn skólans skrifa, einir eða með öðrum, og birta í nafni skólans (e. RU affilated), sé birt í opnum aðgangi á veraldarvefnum og þannig gert aðgengilegt öllum án kostnaðar eða leyfishindrana.
  • HR hvetur akademíska starfsmenn sína til að halda höfundarétti yfir verkum sínum, veita tímaritum birtingarleyfi (e. non-exclusive publishing licence) og merkja útgáfur sem birtar eru í opnum aðgangi með afnotaleyfinu „Creative Commons“.
  • HR stefnir að því að allar fræðigreinar akademískra starfsmanna, birtar í nafni skólans, verði aðgengilegar í opnum aðgangi eða í opnum rafrænum varðveislusöfnum án kostnaðar. HR tekur ekki þátt í kostnaði við birtingar í opnum aðgangi.
  • HR hefur sett upp varðveislusafn í samstarfi við alla háskóla landsins, svo kallað CRIS-kerfi (e. Current Research Information System), með það að markmiði að auka sýnileika, nýtingu og áhrif af verkum akademískra starfsmanna og doktorsnema skólans og tryggja aðgang að þeim til framtíðar. Sett hefur verið upp rannsóknagáttin IRIS (e. Icelandic Research Information System), sem byggir á CRIS-kerfinu. IRIS sýnir rannsóknavirkni íslenskra háskóla og stofnana sem eiga aðild að gáttinni. Akademískir starfsmenn skólans og doktorsnemar eru hvattir til að skrá fræðigreinar sínar, sem birtar eru í nafni skólans, í opnum aðgangi í IRIS. Almennt skal miða við að efni í opnum aðgangi birtist á útgáfudegi í IRIS eða með 12 mánaða birtingartöf að hámarki.
  • Grunn- og meistaranemar skila lokaritgerð sínum í varðveislusafninu Skemman.is. Doktorsnemar skila lokaritgerðum sínum í varðveislusafnið IRIS og skulu gera aðgengilegar sé þess kostur á. Um rafræn skil lokaritgerða/lokaverkefna gildir samþykkt námsráðs HR og framkvæmdastjórnar HR.

HR hvetur akademíska starfsmenn skólans til að vinna að því að birta eldra efni í opnum aðgangi, með því að skrá birtingar sínar í IRIS.

HR hvetur nemendur skólans til að gera stærri verkefni aðgengileg á veraldarvefnum í opnum aðgangi og til þess að setja afnotaleyfið „Creative Commons“ á verk sín.

HR mun bjóða upp á fræðsluefni og þjónustu til að auðvelda akademískum starfsmönnum og nemendum skólans að framfylgja stefnunni og birta efni sitt í opnum aðgangi.

Samþykkt í framkvæmdaráði HR 11. febrúar 2025

Fara efst