Íþróttavísindi- og kennsla
Hvað læri ég?
Nám til MEd-gráðu í íþróttafræði er tveggja ára meistaranám og er 120 ECTS einingar. Lögð er áhersla á uppeldis- og kennslufræði, sálfræði, íþróttafræði og lýðheilsufræði. Námið er bæði starfstengt og fræðilegt.
Fyrra árið byggist upp af námskeiðum í kennslu- og íþróttafræði. Áhersla er á hvernig skapa megi jákvætt viðhorf og efla skipulagða og fjölbreytta hreyfingu fyrir einstaklinga á öllum aldri.
Seinna árið fara nemendur í launað starfsnám (50%) í leik-, grunn- eða framhaldsskólum sem íþróttakennarar um leið og þeir sækja námskeið t.d. í námsefnisgerð. Lögð er áhersla á uppeldis- og kennslufræði, sálfræði, og íþróttafræði.
MEd-gráðan veitir kennsluréttindi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Tækifæri til sérhæfingar
Lögð er áhersla á að nemendur vinni verkefni á því sviði sem þeir óska. Verkefnin geta verið tengd börnum, unglingum eða fullorðunum og þannig geta nemendur sérhæft sig. Þeir eru einnig hvattir til að velja sér ólík viðfangsefni til að öðlast breiðari þekkingu og þjálfun. Þetta er gert til dæmis með því að vinna með mismunandi aldurshópa eða á ólíkum þekkingarsviðum svo sem varðandi næringu, þjálfun eða rannsóknir.

Mér fannst sérstaklega gagnlegt að fara í starfsnám og læra þannig það sem ekki lærist inni í kennslustofu. Aðstaðan í HR er líklega ein sú flottasta á landinu og þjónustan persónuleg.
Dagný brynjarsdóttir, mED Í HEILSUÞJÁLFUN OG KENNSLU, KNATTSPYRNUKONA HJÁ wEST HAM UNITED
Hvernig læri ég?
Lögð er áhersla á fjölbreyttar kennsluaðferðir og verkefnavinnu nemenda ásamt hagnýtri kennsluþjálfun.
Nemendur i meistaranámi i íþróttavísindum og kennslu fara í starfsnám á seinna árinu.
Námskeið
Á fyrra ári ljúka nemendur námskeiðum sem fjalla m.a. um kennslufræði, hlutverk kennarans, kennslu- og matsaðferðir, forvarnargildi hreyfingar, áhrifaþætti heilbrigðis og heilsuþjálfun.
Einnig fjalla þau um hvernig megi hámarka lífsgæði með skipulagðri hreyfingu á öllum aldri sem byggist á forsendum uppeldis- og kennslufræði, sálfræði og íþróttafræði.
Megináherslur eru á að efla færni kennara í að miðla þekkingu á sínu fagsviði til nemenda og að skapa hvetjandi námsumhverfi sem örvar starfsgleði, sjálfstæði og skapandi hugsun.
Námskeiðin eru kennd í sex vikna lotum eitt til tvö námskeið í einu.
Kennsluþjálfun
Lögð er áhersla á að nemendur öðlist færni við kennslu ýmissa aldurshópa. Áhersla er á kennslu í grunnskólum og framhaldsskólu og þjálfun í að flytja fyrirlestra. Á seinna námsári starfa nemendur sem íþróttakennarar í grunnskóla í 50% starfi samhliða verkefnamiðum námskeiðum.
Í hópi framsækinna íþróttafræðisviða
Við íþróttafræðideild er unnið eftir hugmyndafræði CDIO, sem stendur fyrir Conceive, Design, Implement, Operate. Samkvæmt hugmyndafræðinni er nemendum veittur traustur, fræðilegur grunnur en þeir vinna þar að auki raunhæf verkefni ásamt því að leysa verkefni í hópum.
Launað starfsnám
Á seinna námsári vinna nemendur sem íþróttakennarar í 50% starfi í grunnskóla. Kennaranemi hefur frumkvæði að því að leita að kennarastöðu og ræður sig frá 1. ágúst til 31. júlí að fengnu samþykki Íþróttafræðideildar HR. Neminn ber ábyrgð og sinnir skyldum til jafns við aðra kennara í þeim skóla sem hann starfar í. HR ber faglega ábyrgð á starfsnáminu en nemendur hafa leiðsagnarkennara á vettvangi. Sjá nánar hér.
Spennandi og þverfaglegar rannsóknir
Fræðimenn við íþróttafræðideild sinna fjölbreyttum rannsóknum og oftar en ekki í samvinnu við aðrar deildir innan HR eins og t.a.m. sálfræðideild.
Nýsköpun þvert á deildir
Nemendur í meistaranámi í HR geta valið námskeið í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum, þvert á deildir háskólans. Námskeiðin auka þekkingu og færni nemenda á öllum helstu sviðum nýsköpunar: fræðilegri þekkingu, skapandi nálgun viðfangsefna, vöruþróun, áætlanagerð, stjórnun og fjármálum. Ljúki nemendur 30 einingum á þessu sviði geta þeir útskrifast með nýsköpunar- og frumkvöðlafræði sem sérsvið.

Vísindamenn og sérfræðingar
Nemendur í meistaranámi í íþróttavísindum og kennslu njóta leiðsagnar öflugra vísindamanna á fagsviðinu innan háskólans og gestafyrirlesara með sérfræðiþekkingu á kennslu og íþróttum. Kennarar við HR eru að jafnaði í miklum samskiptum við nemendur. Nám í íþróttavísindum og kennslu heyrir undir íþróttafræðideild.
Ertu með spurningar um námið?
Að námi loknu
Kennsluréttindi
Námið er sérstaklega ætlað einstaklingum sem stefna að því að verða íþróttakennarar og vinna við heilsuþjálfun fyrir ýmsa aldurshópa en einnig fyrir þá sem vilja efla sig sem starfandi íþróttakennarar í grunn-og/eða framhaldsskólum.
MEd-gráða í íþróttavísindum og kennslu tryggir þeim sem hafa BSc-gráðu í íþróttafræði frá HR kennsluréttindi á grunn- og framhaldsskólastigi. BSc-gráða frá öðrum skólum er metin við inntöku og nemendum leiðbeint í samræmi við lög og reglugerðir.

Skilyrði fyrir veitingu kennsluréttinda
Skilyrði fyrir því að öðlast kennsluréttindi að námi loknu er að hafa öðlast þá færni sem tiltekin er í lögum nr. 95 1. júlí 2019. Sjá: Lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
Þekking að námi loknu
Að námi loknu eiga nemendur m.a. að hafa þekkingu á helstu hugtökum og kenningum í kennslufræði, þjálffræði, þjálfunarlífeðlisfræði og heilsueflingu. Geta nýtt sér fjölbreyttar og árangursríkar kennsluaðferðir með áherslu á íþróttafræði og aðferðir til að efla sjálfstraust og sjálfsvirðingu nemenda. Geta tekist á við vandamál sem upp koma í starfi kennara og skipulagt kennslu og þjálfun fyrir mismunandi hópa/einstaklinga út frá ólíkum þörfum.
Aðstaðan og þjónustan í HR eru til fyrirmyndar. Námið hefur nýst mér vel í starfi mínu sem íþróttakennari og ég lærði að takast á við hinar ýmislegu aðstæður sem geta komið upp í kennslunni. Ef þú hefur áhuga á þjálfun og kennslu og að nálgast starfið á vísindalegan og nytsamlegan máta, þá er þetta námið fyrir þig.
Íþróttakennari
Skipulag náms
MEd-námi í heilsuþjálfun og kennslu er 120 ECTS meistaranám sem yfirleitt er lokið á tveimur árum.
Kennslufræði og íþróttafræði
Námið skiptist í 75 ECTS nám í kennslufræði og 45 ECTS nám í íþróttavísindum, alls 120 ECTS. Flest námskeið á fyrsta ári eru kennd í sex vikna lotum.
Launað starfsnám
Á seinna námsári vinna nemendur sem íþróttakennarar í 50% starfi í grunnskóla. Kennaranemi hefur frumkvæði að því að leita að kennarastöðu og ræður sig frá 1. ágúst til 31. júlí að fengnu samþykkir Íþróttafræðideildar HR. Neminn ber ábyrgð og sinnir skyldum til jafns við aðra kennara í þeim skóla sem hann starfar í. HR ber faglega ábyrgð á starfsnáminu en nemendur hafa leiðsagnarkennara á vettvangi. Sjá nánar á vef Stjórnarráðsins.
Val og skylda
Náminu er skipt niður í 110 ECTS í skyldunámskeiðum og 10 ECTS í valnámskeiðum. Þó verða alltaf að vera samtals 60 ECTS í kennslufræði og 60 ECTS í faggrein. Nemendur geta valið námskeið af öðrum sviðum og deildum skólans og einnig úr öðrum háskólum í samvinnu við íþróttafræðideild.
Námskeið
Námið er samsett úr námskeiðum sem fjalla m.a. um kennslufræði, hlutverk kennarans, kennslu- og matsaðferðir, forvarnargildi hreyfingar, áhrifaþætti heilbrigðis og heilsuþjálfun. Einnig fjalla þau um hvernig megi hámarka lífsgæði með skipulagðri hreyfingu á öllum aldri sem byggist á forsendum uppeldis- og kennslufræði, sálfræði og íþróttafræði.

Aðstaða
Þjónusta og góður aðbúnaður
Kennsla fer fram á netinu, í háskólabyggingu HR og á líkamsræktarstöð. Þá hefur íþróttafræðideild til umráða glæsilega aðstöðu til kennslu og rannsókna. Þar er m.a. að finna:
- Hlaupabretti, róðrarvél og Wingate hjól og Atom X Wattbike til að meta úthald
- Tæki til að mæla hámarkssúrefnisupptöku og mjólkursýruframleiðslu
- Lyftingarekka, stangir, lóðaplötur, handlóð, ketilbjöllur, TRX bönd, teygjur og æfingabolta
- Tanita mælitæki til að mæla líkamssamsetningu, fitufrían massa, hlutfall fitumassa og grunn orkuþörf
- Ýmiskonar mælitæki til að nota á vettvangi, s.s tímahlið, stökkmottur, gripstyrktarmæli, FMS hreyfifærni próf
- Átaksmæli frá Kinvent
- Kennslustofur og lesherbergi
- Húsnæði Háskólans í Reykjavík býður upp á afar góða aðstöðu til kennslu, lesturs og samvinnu nemenda. Kennslustofur eru vel búnar og nemendur geta nýtt sér hópavinnuherbergi. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn. Sjá frekari upplýsingar um aðstöðuna í HR.
Góð þjónusta
Í háskólabyggingunni er greiður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, alþjóðaskrifstofu og tækniaðstoð. Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða. Safnið býður aðgang að bókum og fræðigreinum og upplýsingafræðingar eru með opna tíma þar sem nemendur geta litið við og fengið ráðleggingar og aðstoð vegna heimildavinnu.
Verslanir og kaffihús
Í HR er Háskólabúðin sem selur nauðsynjavörur, kaffihús, æfingasalur World Class og Málið veitingasala
Kennarar
Vísindamenn og sérfræðingar
Nemendur njóta leiðsagnar öflugra vísindamanna á fagsviðinu og gestafyrirlesara með sérfræðiþekkingu úr atvinnulífinu. Kennarar við HR eru að jafnaði í miklum samskiptum við nemendur.
Aðrir kennarar
Af hverju íþróttafræði í HR?
- Öflugt verknám
- Gott aðgengi að kennurum
- Samheldinn hópur nemenda