Námið
Rannsóknir
HR

Við íþróttafræðideild HR starfar samheldinn og öflugur hópur vísindamanna og kennara. Í kennslunni er unnið náið með nemendum og áhersla lögð á samstarf við stofnanir og fyrirtæki um vettvangsnám sem hentar áhugasviði þeirra.

Deildin býður upp á nám í íþróttafræði á BSc- og MSc-stigi. Grunnnám undirbýr nemendur fyrir fjölbreytt störf sem tengjast íþróttum og lýðheilsu. Meistaranám er á þremur brautum sem veita nemendum kennsluréttindi eða umtalsverða sérhæfingu í þjálfunarfræði eða stjórnun í atvinnugreininni.

Kostaðar meistaranámsstöður

Á hverju ári er í boði ákveðinn fjöldi kostaðra meistaranámsstaða sem gera nemendum kleift að vinna náið með sérsamböndum og öðrum stofnunum.

Aðlögun náms fyrir afreksfólk

Íþróttafræðideild HR er fyrsta deildin sinnar tegundar hér á landi sem býður upp á aðlögun náms og styrki fyrir afreksfólk í íþróttum. Allt að þrír styrkir eru veittir afreksíþróttafólki á hverri önn.

Rannsóknir

Niðurstöður vísindamanna deildarinnar hafa m.a. skapað nýjan skilning á sálfræðilegum þáttum íþrótta, heilahristingi í boltaíþróttum og jafnrétti kynjanna í ástundun íþrótta og starfsumhverfi.

Djúpvatnshlaup hafa jafnframt verið rannsóknarefni en þau geta minnkað meiðsli og gefið einstaklingum með skerta hreyfigetu, til dæmis vegna meiðsla, tækifæri til að æfa. 

Helstu rannsóknasvið
  • Hreysti afreksíþróttamanna
  • Svefn og heilsa
  • Sálfræðileg færni afreksíþróttamanna
  • Hreyfing og heilsa almennnings
  • Heilahristingur meðal íþróttamanna
  • Djúpvatnshlaup fyrir íþróttamenn
  • Jafnrétti í íþróttum

Rannsóknasetur

Lifandi umræður

Við íþróttafræðideild eru haldin ótal málþing og opnir fyrirlestrar á hverri önn. Oft eru viðburðirnir í samráði við íþróttasambönd, íþróttafélög eða aðrar deildir HR, eins og sálfræðideild. Nemendur njóta því fjölmargra tækifæra til að hlýða á færustu sérfræðingana og þjálfarana hverju sinni og oft komast færri að en vilja.

Samstarf

Samtök og íþróttafélög

Deildin hefur átt í góðu samstarfi við fjölmörg íþróttasambönd hérlendis m.a.:

  • Fimleikasamband Íslands
  • Handknattleikssamband Íslands
  • Íþróttabandalag Reykjavíkur IBR
  • Íþróttasamband fatlaðra
  • Knattspyrnusamband Íslands
  • Körfuknattleikssamband Íslands
  • Júdósamband Íslands
  • Golfsamband Íslands
  • Badmintonsamband Íslands

Íþróttafræðideild hefur gert samstarfssamninga við þessi sambönd sem meðal annars kveða á um mælingar á líkamlegri getu leikmanna sem og sálfræðilegri færni landsliða og afreksíþróttafólks. 

Þessir samningar gera meistaranemum kleift að vinna að rannsóknum í tengslum við afreksíþróttafólk og fá fullan styrk fyrir skólagjöldum. Grunnnemar eru líka virkir þátttakendur í þessu samstarfi og öðlast því mikilvæga reynslu og færni.

Kostaðar meistaranámsstöður

Lausar eru til umsóknar fjórar námsstöður í meistaranámi í íþróttavísindumvið íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík.

Stöðurnar eru kostaðar af Háskólanum í Reykjavík (HR) og HSÍ, UMFÍ og KSÍ og mun nemandi ekki greiða skólagjöld meðan á námstíma stendur. Umsóknarfrestur er til 15. maí og mun nemandi hefja nám strax á haustönn, samkæmt skóladagatali.

Erlendir háskólar

Íþróttafræðideild er í alþjóðlegu samstarfi við háskóla sem standa framarlega í rannsóknum og kennslu í íþróttafræði í heiminum í dag. Má þar nefna Íþróttaháskólann í Köln, Háskólann í Halmstad, Svíþjóð, Háskólann í Molde, Noregi, Thomas More háskólann í Belgíu og Loughborough University í Englandi. Samstarf er á sviði kennara- og nemendaskipta en jafnframt í rannsóknum við suma háskólanna.

Deildarforseti

Dr. Hafrún Kristjánsdóttir

Hafrún Kristjánsdóttir, deildarforseti íþróttafræðideildar

Átaksverkefni

Markmið íþróttafræðideildar er að skapa þekkingu sem hægt er að hagnýta um leið.

Mikið starf hefur verið unnið í að koma niðurstöðum rannsókna á andlegri líðan íþróttamanna á framfæri.

Jafnframt hefur verið rýnt í það umhverfi sem búið er drengjum og körlum í íþróttum annars vegar og stúlkum og konum hins vegar, með það að markmiði að minnka þann mun sem fyrirfinnst í dag í starfsumhverfi, áherslum og skipulagningu.

Upplýsingar fyrir nemendur

Til að útskrifast með meistaragráðu frá íþróttafræðideild þurfa nemendur að ljúka meistararitgerð og standast meistaravörn. Ritgerðinni má skila annað hvort á íslensku eða ensku og skal umfang hennar vera í samræmi við fjölda eininga sem fást fyrir viðkomandi verkefni. 

Óski nemandi í íþróttafræðideild eftir að skipta um námsbraut innan deildar skal fylla út eyðublað og skila til skrifstofu deildarinnar (asagudny@ru.is).

Óskir um brautaskipti eru teknar fyrir á námsmatsnefndarfundi og eru afgreiddar í upphafi hverrar annar.

Styrkir

Háskólinn í Reykjavík veitir styrk þeim nýnemum sem sýnt hafa framúrskarandi árangur í námi í framhaldsskóla. Styrkurinn nemur skólagjöldum á fyrstu önn námsins. Styrkurinn er veittur nemendum sem hefja grunnnám á haustönn. Handhafar eru valdir af nefnd innan HR. Ekki er sótt um styrkinn heldur er handhöfum tilkynnt það verði þeir fyrir valinu.

Samstarf við sérsambönd - styrkt meistaranám

Samstarf við íþróttasambönd og íþróttafélög. Íþróttafræðisvið HR hefur verið með samninga við fjölmörg íþróttasambönd, svo sem KSÍ, HSÍ, KKÍ, Fimleikasamband Íslands, ÍBR, Badminton sambandið og Skíðasambandið. 

Kennarar og nemendur sjá um mælingar á líkamlegri og sálrænni getu íþróttafólksins og veita ráðgjöf um þjálfun. Nemendur hafa möguleika á kostuðum meistaranámsstöðum í samstarfi við þessi sambönd og félög.

Nýsköpunarsjóður námsmanna

Nýsköpunarsjóður námsmanna útvegar áhugasömum nemendum sumarvinnu við metnaðarfull og krefjandi rannsóknarverkefni. Styrkjum er úthlutað til kennara á háskólastigi, fyrirtækja, rannsóknastofnana eða einstaklinga sem teljast hafa sérþekkingu á ákveðnu sviði til þess að ráða stúdenta til sumarstarfa. Lesa meira um nýsköpunarsjóð námsmanna

Aðstoðarkennsla

Dæmatímakennsla er auglýst sérstaklega og geta nemendur í MSc námi eða á 3. ári í BSc námi sótt um. Ýmist er um að ræða dæmatímakennslu ásamt yfirferð dæma, yfirferð heimaverkefna eingöngu eða aðstoð við verklegar æfingar. Nemendur sem hafa sýnt góðan árangur í námi og hafa áhuga á að spreyta sig við aðstoðarkennslu eru hvattir til þess að sækja um. Nánari upplýsingar hjá skrifstofu íþróttafræðideildar.

Skipulag

Deildarforseti

Deildarforseti er framkvæmdastjóri deildar og ber ábyrgð á starfsemi og fjárhag hennar gagnvart rektor. Deildarforseti ræður kennara og aðra starfsmenn til deildarinnar í umboði rektors. Hann á frumkvæði að mótun stefnu fyrir deildina og stýrir daglegu starfi hennar.

Ráð og nefndir

Hlutverk nefndarinnar er að afgreiða undanþágubeiðnir nemenda í tengslum við námsframvindu, sjá um mat á námi/námskeiðum úr öðrum skólum og hafa umsjón með yfirferð á umsóknum nemenda.

Í námsmatsnefnd sitja:

  • Ingi Þór Einarsson, formaður
  • Katrín Ýr Friðgeirsdóttir
  • Sveinn Þorgeirsson
  • Ása Guðný Ásgeirsdóttir, starfsmaður nefndarinnar
Var efni síðunnar hjálplegt?