Hugbúnaðar-verkfræði
Hvað læri ég?
Mikil eftirspurn er eftir tæknimenntuðu fólki og sérstaklega á þeim sviðum er tengjast upplýsinga- og hátækniiðnaði. Nemendur sem lokið hafa grunnnámi í hugbúnaðarverkfræði starfa á fjölmörgum sviðum atvinnulífsins, t.d. við stjórnun, nýsköpun og hönnun og þróun kerfa.
Markmið náms í hugbúnaðarverkfræði er að kenna verkfræðilegar aðferðir og beitingu þeirra við hönnun og smíði hugbúnaðarkerfa. BSc nám í hugbúnaðarverkfræði við HR hefur hlotið alþjóðlega gæðavottun.
Það eru mikil forréttindi að fá að nema við HR, í toppaðstöðu og undir leiðsögn heimsklassa kennara sem búa yfir gríðarlegri þekkingu og reynslu.
Hildur Davíðsdóttir, nemi í hugbúnaðarverkfræði
Hvernig læri ég?
Áhersla í náminu er á raunhæf verkefni. Kennt er eftir 12+3 fyrirkomulaginu þar sem námskeið eru kennd í 12 vikur með námsmati í lokin. Að því loknu taka við þriggja vikna hagnýtir áfangar.
Nemendur sækja bæði fyrirlestra og verklega dæmatíma. Upptökur af fyrirlestrum í mörgum skylduáföngum eru aðgengilegir í kennslukerfi á netinu.
Kennslan fer að nokkru leyti fram á ensku.
Lifandi nám
Með því að glíma við raunhæf verkefni og finna lausnir við vandamálum hljóta nemendur góðan undirbúning fyrir störf að námi loknu.
Hér eru nokkur dæmi um það hvernig kennslan og námsefnið miðar að því að veita nemendum dýrmæta reynslu:
12+3 kerfið
Í náminu eru annir brotnar upp í tvo hluta. Fjögur námskeið eru kennd í 12 vikur og síðan er prófað úr þeim. Að prófum loknum taka við þriggja vikna námskeið þar sem námsefnið er sett í hagnýtt samhengi með verkefnavinnu, hópavinnu og/eða samstarfi við fyrirtæki.
Lokaverkefni með atvinnulífinu
Lokaverkefni nemenda í BSc-námi eru hópverkefni sem unnin eru í samstarfi við kennara og oftast í samvinnu við fyrirtæki. Undanfarin ár hafa nemendur t.d. unnið verkefni fyrir Icelandair, Advania, Minjastofnun, Marel, Tempo, Netorku, Össur, Valitor, Neyðarlínuna og Landspítalann.
Skiptinám
Nemendur geta sótt um að fara í skiptinám við erlendan háskóla. Nemendur í BSc-námi þurfa að vera með 7 eða yfir í meðaleinkunn og búnir með 60 einingar þegar þeir fara í skiptinámið. Skrifstofa alþjóðaskipta veitir frekari upplýsingar um hvert hægt er að fara í skiptinám.
Starfsnám
Nemendur geta sótt um að fara í starfsnám til hinnar virtu Fraunhofer-rannsóknarstofnunar í Maryland í Bandaríkjunum. Starfsnámið er metið til eininga. Við Fraunhofer eru stundaðar öflugar rannsóknir í nánu samstarfi við ýmsar stofnanir og fá nemendur að taka þátt í þeirri vinnu. Nemendur fá greidd laun meðan á starfsnáminu stendur sem yfirleitt tekur sex mánuði.
- Fraunhofer rannsóknarstofnunar í Maryland í Bandaríkjunum: Fraunhofer USA Center for Experimental Software Engineering
- Härte- und Oberflächtechnik GmbH & Co í Þýskalandi
- Nemendur geta tekið 6 ECTS einingar í starfsnámi hjá hinum ýmsu fyrirtækjum.
Frekari upplýsingar um starfsnám má finna hjá skrifstofu tölvunarfræðideildar.
Alþjóðleg gæðavottun
Grunnámið í hugbúnaðarverkfræði við HR hefur þá sérstöðu á Íslandi að hafa hlotið alþjóðlega gæðavottun, ASIIN. Slík vottun eykur virði gráðunnar erlendis og opnar dyr í nám utan landsteinanna.

Að námi loknu
Námið veitir kunnátta á samþættingu vélbúnaðar og hugbúnaðar. Þegar nemandi útskrifast er hann vel útbúinn til að taka næsta skref í átt að framtíðarmarkmiðum sínum. Þau geta verið meira nám, stofnun fyrirtækis eða starf hér heima eða erlendis. Við útskrift eiga nemendur að búa yfir færni til samstarfs, góð og öguð vinnubrögð sem samræmast bestu og nýjustu aðferðum hverju sinni, ásamt fræðilegri þekkingu og hæfni á sínu sviði.
Starfsréttindi
Til að öðlast starfsréttindi og leyfi til að nota lögverndaða starfsheitið verkfræðingur þarf að ljúka 3 ára BSc námi og 2 ára MSc námi í verkfræði í samræmi við kröfur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Kröfurnar fela í sér ákveðið margar einingar í raungreinum og tvenns konar flokkum af verkfræðigreinum. Nemendur eru hvattir til að leita frekari upplýsinga á skrifstofum tölvunarfræðideildar og verkfræðideildar.
Athugið að ekki er tekið inn í MSc nám í hugbúnaðarverkfræði að svo stöddu en nemendum er bent á að í MSc í tölvunarfræði er boðið upp á áherslulínu í hugbúnaðarverkfræði.
Ertu með spurningar um námið?
Skipulag náms
Uppbygging náms
Til að ljúka BSc í hugbúnaðarverkfræði þarf að ljúka 180 ECTS, en þar af eru 156 ECTS skyldunámskeið. Hvert námskeið er 6 ECTS, nema lokaverkefni sem er 12 ECTS. Dæmi um hvernig nám í staðarnámi er skipulagt má sjá í meðfylgjandi töflu, en raða má námskeiðum á annan hátt ef undanfarareglum er fylgt.
Hægt er að leita aðstoðar hjá verkefnastjórum deildarinnar ef nemandi vil fá aðstoð við að setja upp öðruvísi námsskipulag. Athugið að þessi uppröðun er sett upp með fyrirvara um breytingar.
Þriggja vikna námskeið

Aðstaða
Kennslustofur og lesherbergi
Húsnæði Háskólans í Reykjavík býður upp á afar góða aðstöðu til kennslu, lesturs og samvinnu nemenda. Kennslustofur eru vel búnar og nemendur geta nýtt sér hópavinnuherbergi. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn.
Góð þjónusta
Í háskólabyggingunni er greiður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, alþjóðaskrifstofu og tækniaðstoð. Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða. Safnið býður aðgang að bókum og fræðigreinum og upplýsingafræðingar eru með opna tíma þar sem nemendur geta litið við og fengið ráðleggingar og aðstoð vegna heimildavinnu.
Verslanir og kaffihús
Í HR er Háskólabúðin sem selur nauðsynjavörur, kaffihús, æfingasalur World Class og Málið veitingasala.
Af hverju tölvunarfræði í HR?
- Í HR er frábær aðstaða fyrir verklegt og bóklegt nám.
- Nemendur njóta stuðnings í námi hjá kennurum og einnig náms- og starfsráðgjöfum, starfsfólki bókasafns og skrifstofum deilda.
- Grunnnám með alþjóðlega gæðavottun.
- Í náminu er markviss verkefnavinna með raunverulegum námskeiðum sem nýtist sem hagnýtur undirbúningur fyrir atvinnulífið.
- Val í BSc-námi, þar með talið 6 ECTS starfsnám.
- Nemendur hljóta þekkingu í raungreinum og þjálfun í aðferðafræði og vinnubrögðum sem gagnast til framtíðar.
- Í HR er allt undir einu þaki, aðstaða nútímaleg og aðgengi gott.
- Nemendur geta sótt um leigu á herbergi eða íbúð í Háskólagörðum HR sem eru við rætur Öskjuhlíðar.