Hátækni-verkfræði
Hvað læri ég?
Sjálfvirk tæki og róbotar er tækni sem er notuð í iðnaði og framleiðslu en jafnframt í alls kyns búnað sem við notum í daglegu lífi eins og bifreiðar, heimilistæki, gervilíffæri, stoðtæki og leikföng. Í hátækniverkfræði sameina nemendur viðfangsefni rafmagnsverkfræði og vélaverkfræði og læra hönnun flókins tæknibúnaðar.
Í BSc-námi í hátækniverkfræði er lagður fræðilegur grunnur sem síðan er byggt á til að skapa breiða þekkingu á stýrikerfum, forritun og hugbúnaðargerð. Nemendur fá ótal tækifæri til þess að leysa raunveruleg vandamál og læra á hönnunarferlið sem spannar allt frá hugmynd, hönnun og smíði að virkni. Viðfangsefnin eru margvísleg en eiga það sameiginlegt að þjálfa nemendur í þróun á hugbúnaði, rafeinda- og tölvubúnaði og vélbúnaði.
Fimm ára nám
Verkfræði er í heildina fimm ára nám og 300 ECTS. Nemendur öðlast löggilt starfsheiti sem verkfræðingar eftir bæði BSc- og MSc-nám.
Hvernig læri ég?
Undirstöðunámskeið
Á öllum námsleiðum í verkfræði eru fyrstu annirnar helgaðar undirstöðunámskeiðum sem veita trausta undirstöðu sem nýtist verkfræðingum alla starfsævina. Að námskeiðunum loknum hafa nemendur góða þekkingu á:
- Stærðfræði
- Eðlisfræði
- Forritun
- Verkefnastjórnun
- Sjálfbærni
Sérhæfð námskeið
Eftir fyrsta árið er námið sífellt meira sniðið að hverri og einni námsleið. Sérhæfð námskeið námsleiðarinnar byggja undir meiri sérhæfingu.
Sérhæfð námskeið í hátækniverkfræði eru t.d:
- Greining rása
- Aflfræði
- Hönnun rása
- Mechatronics
- Vélhlutafræði
- Rafmagnsvélar
- Reglunarfræði
Verkfræði X
Á sjöttu önn BSc-náms ljúka allir nemendur í verkfræði viðamiklu lokanámskeiði. Í námskeiðinu vinna nemendur verkefni í hópum þar sem að unnið er frá hugmynd að lokaafurð. Viðfangsefnin eru ýmist sérsniðin vekefni fyrir mismunandi námsleiðir eða unnið þvert á þær. Námskeiðið er góður undirbúningur fyrir atvinnulífið.
Áhersla á sjálfbærni
Málefni sjálfbærni og umhverfis eru sífellt mikilvægari í okkar umhverfi. Í verkfræðináminu er brugðist við þessu í þremur skyldunámskeiðum. Á fyrstu önn fara allir verkfræðinemar í námskeið um orkunýtingu og í námskeiðinu Inngangur að verkfræði er áhersla á sjálfbærni og umhverfi. Á fimmtu önn er svo sérstakt námskeið um sjálfbærni. Auk þessa eru umhverfismál tengd við umfjöllunarefni annarra námskeiða.
Val
Nemendur geta valið sér námskeið eftir áhugasviði t.d. starfsnám, námskeið úr öðrum námsleiðum verkfræðinnar eða úr öðrum deildum HR.
12+3 kerfið
Í náminu eru annirnar brotnar upp í tvo hluta. Fjögur námskeið eru kennd í 12 vikur og síðan er prófað úr þeim. Að prófum loknum taka við þriggja vikna námskeið við þar sem námsefnið er sett í hagnýtt samhengi með verkefnavinnu, hópavinnu og/eða samstarfi við fyrirtæki.
Starfsnám
Nemendur geta sótt um 6 ECTS starfsnám á síðasta ári BSc-námsins. Líkt er eftir atvinnuleit þar sem nemendur senda inn ferilskrá og kynningarbréf og fyrirtækin velja úr hópi umsækjenda og boða í viðtöl.
Markmið með starfsnámi er m.a. að efla tengsl nemenda tækni- og verkfræðideildar HR við atvinnulífið, auka innsýn og skilning nemenda á viðfangsefnum síns fagsviðs og undirbúa þá undir störf að loknu námi með úrlausn raunhæfra viðfangsefna á vettvangi.
Skiptinám
Nemendur geta sótt um að fara í skiptinám við erlendan háskóla. Nemendur í BSc-námi þurfa að vera með 7 eða hærra í meðaleinkunn og að hafa lokið 60 einingum þegar þeir fara í skiptinámið. Alþjóðaskrifstofa veitir frekari upplýsingar um hvert hægt er að fara í skiptinám.
Klúbbastarf
Nemendur geta tekið þátt í alls konar starfi sem tengist verkfræðinni t.d. verið í Formúlu-liði skólans (RU Racing), róbótaklúbbnum eða tekið þátt í nýsköpunar- eða stjórnunarkeppnum.
Í HR fá verkfræðinemar ótal tækifæri til þess að leysa raunveruleg vandamál og læra á hönnunarferlið allt frá hugmynd, hönnun og smíði að virkni.
Ertu með spurningar um námið?
Að námi loknu
Sérhæfing nemenda á sviði stýritækni, iðntölvustýringa og rafeindatækni gerir þá ákjósanlega starfskrafta. Námið nýtist þeim sem vilja vinna við raf- og rafeindastýrðan vélbúnað, hanna vélhluti og sinna þróun hugbúnaðarkerfa. Styrkleiki hátækniverkfræðinga liggur í samþættingu íhluta (vélbúnaður) og upplýsingatækni (hugbúnaður).
Eftir þriggja ára grunnnám til BSc-gráðu bæta nemendur við sig tveggja ára námi til MSc-gráðu til að öðlast full starfsréttindi sem verkfræðingar. Hátækniverkfræði veitir góða undirstöðu fyrir framhaldsnám í fjölmörgum verkfræðigreinum eins og hátækniverkfræði, vélaverkfræði og rafmagnsverkfræði. Val á BSc-námsleið í verkfræði þarf ekki að takmarka möguleika á verkfræðinámsleið á meistarastigi.
Starfsvettvangur
Hátækniverkfræðingar búa yfir þekkingu í stýritækni, iðntölvustýringum og rafeindatækni. Sérsvið þeirra er hönnun, greining, rekstur og viðhald þjarka og vitvéla.
Þeir þróa sjálfvirk tæki og róbota sem eru nauðsynleg tæki í nútíma iðnaði og framleiðslu. Þessi tækni er líka notuð í alls kyns búnað eins og bíla, heimilistæki, gervilíffæri, stoðtæki, leikföng og svo mætti lengi telja.
Verkfræðingar frá HR
Þegar nemandi útskrifast með BSc- og MSc-gráðu í verkfræði frá HR er hann vel útbúinn til að taka næsta skref í átt að framtíðarmarkmiðum sínum. Þau geta verið meira nám, stofnun fyrirtækis eða starf hér heima eða erlendis.
Við útskrift eiga nemendur að vera færir um samstarf, hafa tamið sér góð og öguð vinnubrögð sem samræmast bestu og nýjustu aðferðum hverju sinni, ásamt fræðilegri þekkingu og hæfni á sínu sviði.
Starfsréttindi
Verkfræðinám samanstendur af 3ja ára (180 einingar) grunnnámi og tveggja ára (120 einingar) MSc námi. Til að öðlast starfsréttindi og leyfi til að nota lögverndaða starfsheitið verkfræðingur þarf að ljúka MSc-gráðu í samræmi við kröfur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
Skipulag náms
Í þriggja ára grunnnámi til BSc-gráðu kynnast nemendur undirstöðugreinum í hátækniverkfræði. Til að öðlast sérhæfingu og starfsréttindi sem verkfræðingur þarf að BSc-námi loknu að ljúka tveggja ára MSc-námi.
Verkfræði, BSc og MSc, er 5 ára námsleið (alls 300 einingar) sem uppfyllir skilyrði fyrir lögverndaða starfsheitið verkfræðingur.
Þriggja vikna námskeið
Aðstaða
Nemendur í hátækniverkfræði hafa aðgang að vélsmiðju, orkutæknistofu og rafeindatæknistofu. Auk þess hafa þeir aðgang að efnafræðistofu og í sumum tilvikum aðstöðu í kjallara háskólabyggingarinnar fyrir stærri verkefni.
Vélsmiðja
Flestir nemendur sem útskrifast frá HR með verkfræðigráðu hafa kynnst vélsmíði að einhverju marki, til að mynda unnið í rennibekk og fræsivél við að útfæra hugmyndir og hönnun sína.
Í vélsmiðjunni eru þrír rennibekkir, tvær fræsivélar, CNC rennibekkur og fræsivél, suðutæki, laser-skurðarvél, ásamt öðrum hefðbundnum verkfærum. Nemendur hafa aðgang að vélsmiðjunni til að leysa skemmtileg og raunveruleg verkfræðileg viðfangsefni.
Í boði eru inngangsnámskeið í vélsmíði, þar sem farið er yfir öryggismál og nemendum kennd viðeigandi handtök.
Orkutæknistofa
Nemendur í námskeiðum á borð við varmafræði, varmaflutningsfræði, straumfræði og tengdum greinum sækja verklegan hluta námsins í þessa stofu og framkvæma tilraunir er tengjast þeim viðfangsefnum.
Orkutæknistofan býður upp á góða aðstöðu fyrir rannsóknarverkefni og lokaverkefni nemenda í grunnnámi og meistaranámi í verkfræði og tæknifræði. RU Racing-lið HR hefur aðsetur í stofunni.
Rafeindatæknistofa
Í stofunni er unnið að verkefnum og tilraunum á sviði rafeindatækni, rafmagnsfræði, raforku, stýringum og sjálfvirkni.
Stofan býður jafnframt upp á aðsetur fyrir nemendur sem vinna að stærri verkefnum eða lokaverkefnum í grunnnámi eða meistaranámi. Þar er fjöldinn allur af tækjum og mælitækjum, á borð við sveiflusjár, örtölvur, AD-breytur, iðnaðarróbóta o.s.frv.
Mikið safn er af íhlutum fyrir rásavinnu og góð aðstaða til að setja saman rásir.
Af hverju verkfræði í HR?
- Kennt er í 12 vikur og svo tekur við þriggja vikna hagnýtur áfangi.
- Markviss verkefnavinna með raunverulegum viðfangsefnum.
- Líkt eftir atvinnulífinu: nemendur ljúka hinu viðamikla verkfræði X námskeiði.
- Frábær aðstaða fyrir verklegt og bóklegt nám.
- Góður stuðningur í námi frá hjá náms- og starfsráðgjöfum, starfsfólki bókasafns, skrifstofum deilda og kennurum.
- Allar námsleiðir eru í boði sem samfellt fimm ára nám (BSc & MSc).
- Nemendur hljóta þekkingu í raungreinum og þjálfun í aðferðafræði og vinnubrögðum sem gagnast til framtíðar.
- Möguleiki á starfsnámi.
- Nemendur geta sótt um leigu á herbergi eða íbúð í Háskólagörðum HR sem eru við rætur Öskjuhlíðar.
- Allt nám undir einu þaki.