Námið
Rannsóknir
HR
Verkfræðideild

Véla-
verkfræði

Námstími
3 ár
Einingar
180 ECTS
Prófgráða
BSc
Lögverndað starfsheiti
Verkfræðingur, eftir BSc & MSc
Skiptinám mögulegt
Fjarnám mögulegt
Nei

Hvað læri ég?

Við lausn nútíma vandamála þarf að samtvinna djúpa tækniþekkingu og skapandi hugsun. Þekking vélaverkfræðinga nýtist á afar breiðu sviði, meðal annars við að vinna að þróun vélmenna eða við hönnun á virkjunum.

Nám í vélaverkfræði samþættir sterkan grunn í vísindum, stærðfræði og upplýsingatækni með verkfræðilegum viðfangsefnum. Þessi viðfangsefni eru til dæmis vélahönnun og líftímagreining, greining burðarvirkja, stýritækni og sjálfvirkni kerfa, straumfræði og orkuferli. Vélaverkfræðingar fást við margt í umhverfi okkar eins og í varma-, vatnsafls- eða vindorkuverum, öllum farartækjum og í framleiðsluferlum og iðnaði.

Nemendur í vélaverkfræði við HR fá ótal tækifæri til þess að leysa raunveruleg vandamál, allt frá hugmyndastigi að hönnun og smíði, ásamt því að öðlast sterkan og breiðan fræðilegan bakgrunn. Þeir eru hvattir til að taka þátt í hönnunarverkefnum og/eða hönnunarnámskeiðum, skoða kosti starfsnáms til að kynnast raunverulegum og aðkallandi hagnýtum verkefnum. Þeir eru einnig hvattir til að taka þátt í þeim fjölbreyttu rannsóknarverkefnum sem starfsmenn háskólans á sviði vélaverkfræði eða tengdra greina standa að.

Fimm ára nám

Verkfræði er í heildina fimm ára nám og 300 ECTS. Nemendur öðlast löggilt starfsheiti sem verkfræðingar eftir bæði BSc- og MSc-nám.

Hvernig læri ég?

12+3 kerfið

Kennt er í 12 vikur og að þeim loknum er námsmat. Svo taka við þriggja vikna hagnýt námskeið.

Grunnnámskeið 

Á öllum námsleiðum í verkfræði eru fyrstu annir námsins helgaðar undirstöðunámskeiðum sem nýtast verkfræðingum alla starfsævina.  Að námskeiðunum loknum eiga nemendur að hafa góða þekkingu á m.a.:

  • Stærðfræði
  • Eðlisfræði
  • Forritun
  • Verkefnastjórnun
  • Sjálfbærni
Áhersla á sjálfbærni

Málefni sjálfbærni og umhverfis eru sífellt mikilvægari í okkar umhverfi. Í verkfræðináminu er brugðist við þessu í þremur skyldunámskeiðum. Á fyrstu önn fara allir verkfræðinemar í námskeið um orkunýtingu og í námskeiðinu Inngangur að verkfræði er áhersla á sjálfbærni og umhverfi. Á fimmtu önn er svo sérstakt námskeið um sjálfbærni. Auk þessa eru umhverfismál tengd við umfjöllunarefni annarra námskeiða.

Sérhæfð námskeið

Eftir fyrsta árið er námið sífellt meira sniðið að hverri og einni námsleið. Sérhæfð námskeið námsleiðarinnar byggja undir meiri sérhæfingu.   

Sérhæfð námskeið í vélaverkfræði eru m.a.:

  • Stöðu- og burðarþolsfræði 
  • Greining rása 
  • Aflfræði 
  • Mælikerfi 
  • Varmafræði 
  • Vélhlutafræði 
  • Straumfræði 
  • Efnisfræði 
  • Efnafræði 
  • Varmaflutningsfræði 
Val

Nemendur geta valið sér námskeið eftir áhugasviði t.d. starfsnám, námskeið úr öðrum námsleiðum verkfræðinnar eða úr öðrum deildum HR.

Starfsnám 

Nemendur geta sótt um 6 ECTS starfsnám á síðasta ári BSc-námsins. Líkt er eftir atvinnuleit þar sem nemendur senda inn ferilskrá og kynningarbréf og fyrirtækin velja úr hópi umsækjenda og boða í viðtöl. Markmiðið með starfsnámi er að auka innsýn nemenda tækni- og verkfræðideildar HR í fagið með raunhæfri reynslu af vettvangi og efla tengsl þeirra við atvinnulífið.

Markmið með starfsnámi er m.a. að efla tengsl nemenda tækni- og verkfræðideildar HR við atvinnulífið, auka innsýn og skilning nemenda á viðfangsefnum síns fagsviðs og undirbúa þá undir störf að loknu námi með úrlausn raunhæfra viðfangsefna á vettvangi.

Í HR fá verkfræðinemar ótal tækifæri til þess að leysa raunveruleg vandamál og læra á hönnunarferlið allt frá hugmynd, hönnun og smíði að virkni.

Verkfræði X

Á sjöttu önn BSc-náms ljúka allir nemendur í verkfræði viðamiklu lokanámskeiði.  Í námskeiðinu vinna nemendur verkefni í hópum þar sem að unnið er frá hugmynd að lokaafurð. Viðfangsefnin eru ýmist sérsniðin fyrir mismunandi námsleiðir eða unnið þvert á þær. Námskeiðið er góður undirbúningur fyrir atvinnulífið.

Klúbbastarf 

Nemendur geta tekið þátt í alls konar starfi sem tengist verkfræðinni t.d. verið í Formúlu-liði skólans (RU Racing), róbótaklúbbnum eða tekið þátt í nýsköpunar- eða stjórnunarkeppnum.

Skiptinám 

Nemendur geta sótt um að fara í skiptinám við erlendan háskóla. Nemendur í BSc-námi þurfa að vera með 7 eða hærra í meðaleinkunn og að hafa lokið 60 einingum þegar þeir fara í skiptinámið. Skrifstofa alþjóðaskipta veitir frekari upplýsingar um hvert hægt er að fara í skiptinám. 

Ertu með spurningar um námið?

Að námi loknu

Starfsvettvangur

Vélaverkfræðingar fást við ótal margt í umhverfi okkar. Sem dæmi má nefna vélahönnun, hönnun orkuferla, hönnun framleiðsluferla og verkefnastjórnun. Vélaverkfræðingar vinna til að mynda að hönnun farartækja af öllum gerðum, þeir koma að hönnun velflestra rafeindatækja, taka þátt í þróun lækningatækja og koma að hönnun mannvirkja og virkjana.  

Breidd greinarinnar veitir fjölbreytt atvinnutækifæri í nútímasamfélagi, til dæmis eru vélaverkfræðingar einnig ákjósanlegir sérfræðingar í rekstur og stjórnun fyrirtækja. 

Starfsréttindi

Til að öðlast starfsréttindi og leyfi til að nota lögverndaða starfsheitið verkfræðingur þarf að ljúka MSc-gráðu í samræmi við kröfur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Skipulag náms

Í þriggja ára grunnnámi til BSc-gráðu kynnast nemendur undirstöðugreinum í vélaverkfræði. Til að öðlast sérhæfingu og starfsréttindi sem verkfræðingur þarf að BSc-námi loknu að ljúka tveggja ára MSc-námi. Verkfræði, BSc og MSc, er 5 ára námsleið (alls 300 einingar) sem uppfyllir skilyrði fyrir lögverndaða starfsheitið verkfræðingur.

Haust
Stærðfræði I
T-101-STA1 / 6 ECTS
Eðlisfræði I
T-102-EDL1 / 6 ECTS
Línuleg algebra
T-211-LINA / 6 ECTS
Orka
T-101-ORKA / 6 ECTS
Hugmyndavinna
T-100-HUGM / 1 ECTS
Inngangur að verkfræði
T-102-VERK / 5 ECTS
Vor
Stærðfræði II
T-201-STA2 / 6 ECTS
Eðlisfræði II
T-202-EDL2 / 6 ECTS
Forritun fyrir verkfræðinema
T-201-FOR1 / 6 ECTS
Stöðu og burðarþolsfræði
T-106-BURD / 6 ECTS
Þriggja vikna valnámskeið
V-Val-103 / 6 ECTS

Þriggja vikna námskeið

Inngangur að verkfræði
Mælikerfi
Sjálfbærni
Verkfræði X
Námstími
3 ár
Einingar
180 ECTS
Prófgráða
BSc
Lögverndað starfsheiti
Verkfræðingur, eftir BSc & MSc
Skiptinám mögulegt
Fjarnám mögulegt
Nei

Aðstaða

Nemendur hafa aðgang að vélsmiðju, orkutæknistofu og rafeindatæknistofu. Auk þess hafa þeir aðgang að efnafræðistofu og í sumum tilvikum aðstöðu í kjallara háskólabyggingarinnar fyrir stærri verkefni.

Vélsmiðja

Flestir nemendur sem útskrifast frá HR með verkfræðigráðu hafa kynnst vélsmíði að einhverju marki, til að mynda unnið í rennibekk og fræsivél við að útfæra hugmyndir og hönnun sína. Í stofunni eru í boði inngangsnámskeið í vélsmíði, þar sem farið er yfir öryggismál og nemendum kennd viðeigandi handtök. Nemendur búa að þessari reynslu á seinni stigum náms og hafa aðgang að vélsmiðjunni til að leysa skemmtileg og raunveruleg verkfræðileg viðfangsefni. Í vélsmiðjunni eru þrír rennibekkir, tvær fræsivélar, CNC rennibekkur og fræsivél, suðutæki, laser-skurðarvél, ásamt öðrum hefðbundnum verkfærum. 

Orkutæknistofa

Nemendur í námskeiðum á borð við varmafræði, varmaflutningsfræði, straumfræði og tengdum greinum sækja verklegan hluta námsins í þessa stofu og framkvæma tilraunir er tengjast þeim viðfangsefnum. Orkutæknistofan býður upp á góða aðstöðu fyrir rannsóknarverkefni og lokaverkefni nemenda í grunnnámi og meistaranámi í verkfræði og tæknifræði. RU Racing lið HR hefur aðsetur í stofunni.

Í rafeindatæknistofunni.
Rafeindatæknistofa

Í stofunni er unnið að verkefnum og tilraunum á sviði rafeindatækni, rafmagnsfræði, raforku, stýringum og sjálfvirkni. Stofan býður jafnframt upp á aðsetur fyrir nemendur sem vinna að stærri verkefnum eða lokaverkefnum í grunnnámi eða meistaranámi. Þar er fjöldinn allur af tækjum og mælitækjum, á borð við sveiflusjár, örtölvur, AD-breytur, iðnaðarróbóta o.s.frv. Til er mikið safn íhluta fyrir rásavinnu og góð aðstaða til að setja saman rásir.

Af hverju verkfræði í HR?

  • Kennt er í 12 vikur og svo tekur við þriggja vikna hagnýtt námskeið 
  • Markviss verkefnavinna með raunverulegum viðfangsefnum. 
  • Líkt eftir atvinnulífinu: nemendur ljúka viðamiklu verkefni í námskeiðinu Verkfræði X. 
  • Frábær aðstaða fyrir verklegt og bóklegt nám.  
  • Góður stuðningur í námi frá náms- og starfsráðgjöfum, starfsfólki bókasafns, skrifstofum deilda og kennurum.   
  • Allar námsleiðir eru í boði sem samfellt fimm ára nám (BSc & MSc). 
  • Möguleiki á starfsnámi. 
  • Nemendur hljóta þekkingu í raungreinum og þjálfun í aðferðafræði og vinnubrögðum sem gagnast til framtíðar. 
  • Nemendur geta sótt um leigu á herbergi eða íbúð í Háskólagörðum HR sem eru við rætur Öskjuhlíðar. 
  • Allt nám undir einu þaki. 
  • Háskólinn í Reykjavík er meðal bestu smærri háskóla heims samkvæmt lista Times Higher Education
Fara efst