Verkfræði- með eigin vali
Hvað læri ég
Nemendur hafa ólík áhugasvið og framtíðaráform og því líklegt að mismunandi námsleiðir höfði til þeirra. Í verkfræðideild er komið til móts við þá nemendur sem þess óska með sveigjanlegu og einstaklingsmiðuðu námi.
Nám eftir áhuga hvers og eins
Námsleiðin Verkfræði með eigin vali er ólík öðrum leiðum að því leyti að skyldufög eru mun færri, um helmingur námsins er val. Nemandi semur, með aðstoð leiðbeinanda, einstaklingsmiðaða námsáætlun sem þarf að uppfylla kröfur um verkfræðilegar undirstöðugreinar og sérhæfð námskeið. Þannig er hægt að sníða námið að nokkrum áhugasviðum, frekar en að sérhæfa sig í einni grein verkfræðinnar. Nemendur sem velja þessa námsleið útskrifast með prófgráðuna BSc í verkfræði og síðan MSc í verkfræði.
Ákveðin sýn og meiri sveigjanleiki
Verkfræði með eigin vali getur hentað þeim sem hafa ákveðna sýn á hvað þeir vilja frá upphafi, eða vilja skapa sér einhvers konar sérstöðu. Nemendur sem velja þessa leið þurfa að skrifa stutta, gagnorða greinargerð um hvað þau vilji fá út úr náminu og skila inn með umsókn sinni.
Fyrsta árið óbreytt
Fyrsta árið taka nemendur í öllum námsleiðum skyldunámskeið 1. námsárs í verkfræði, en eftir því sem líður á námið geta þeir valið sér keðjur námskeiða sem hníga að áhugasviði þeirra. Það er því hægt að hefja verkfræðinám í hvaða námsleið sem er, en skipta yfir í Verkfræði með eigin vali eftir fyrsta námsárið.
Nemendur geta sótt um verkfræði með eigin vali í lok fyrsta námsárs.
Fimm ára nám
Verkfræði er í heildina fimm ára nám. Nemendur öðlast löggilt starfsheiti sem verkfræðingar eftir bæði BSc- og MSc-nám.
Hvernig læri ég?
Undirstöðunámskeið
Á fyrstu önnum námsins eru undirstöðunámskeið eins á öllum námsleiðum í verkfræði til að veita trausta undirstöðu sem nýtist verkfræðingum alla starfsævina. Að námskeiðunum loknum hafa nemendur góða þekkingu á:
- Stærðfræði
- Eðlisfræði
- Forritun
- Verkefnastjórnun
- Sjálfbærni
Sérhæfð námskeið
Eftir fyrsta árið er námið sífellt meira sniðið að hverri og einni námsleið. Sérhæfð námskeið námsleiðarinnar byggja undir meiri sérhæfingu
Sérhæfð námskeið í verkfræði með eigin vali fer eftir áhugasviði nemenda. Nemendur gera einstaklingsmiðaða námsáætlun í samráði við leiðbeinanda, allt eftir áhugasviði. Námsáætlunin þarf að uppfylla kröfur um verkfræðilegar undirstöðugreinar og sérhæfð námskeið. Eftirfarandi tafla er grunnur að námáætlun sem sýnir skyldunámskeið. Dæmi um námsáætlanir sem styðja við ólík áhugasvið.
Verkfræði X
Á sjöttu önn BSc-náms ljúka allir nemendur í verkfræði viðamiklu lokanámskeiði. Í námskeiðinu vinna nemendur verkefni í hópum þar sem að unnið er frá hugmynd að lokaafurð. Viðfangsefnin eru ýmist sérsniðin vekefni fyrir mismunandi námsleiðir eða unnið þvert á þær. Námskeiðið er góður undirbúningur fyrir atvinnulífið.
Áhersla á sjálfbærni
Málefni sjálfbærni og umhverfis eru sífellt mikilvægari í okkar umhverfi. Í verkfræðináminu er brugðist við þessu í þremur skyldunámskeiðum. Á fyrstu önn fara allir verkfræðinemar í námskeið um orkunýtingu og í námskeiðinu "Inngangur að verkfræði" er áhersla á sjálfbærni og umhverfi. Á fimmtu önn er svo sérstakt námskeið um sjálfbærni. Auk þessa eru umhverfismál tengd við umfjöllunarefni annarra námskeiða.
Val
Nemendur geta valið sér námskeið eftir áhugasviði t.d. starfsnám, námskeið úr öðrum námsleiðum verkfræðinnar eða úr öðrum deildum HR.
12+3 kerfið
Í náminu eru annirnar brotnar upp í tvo hluta. Fjögur námskeið eru kennd í 12 vikur og síðan er prófað úr þeim. Að prófum loknum taka við þriggja vikna námskeið við þar sem námsefnið er sett í hagnýtt samhengi með verkefnavinnu, hópavinnu og/eða samstarfi við fyrirtæki.
Starfsnám
Nemendur geta sótt um 6 ECTS starfsnám á síðasta ári BSc-námsins. Líkt er eftir atvinnuleit þar sem nemendur senda inn ferilskrá og kynningarbréf og fyrirtækin velja úr hópi umsækjenda og boða í viðtöl.
Markmið með starfsnámi er að:
- að efla tengsl nemenda tækni-og verkfræðideildar HR við atvinnulífið.
- að auka innsýn og skilning nemenda á viðfangsefnum þess fagsviðs sem þau stunda nám á.
- að auka skilning nemenda á verkferlum og skipulagningu verkefna hjá viðkomandi fyrirtæki/stofnun.
- að nemendur geti skipulagt og útfært faglega vinnu út frá fyrirfram gefnum forsendum og kröfum.
- að styrkja samskiptahæfni nemenda (innri og ytri samskipti í fyrirtæki)
- að nemendur hljóti reynslu af því að vinna að úrlausn raunhæfra viðfangsefna á vettvangi, undir leiðsögn leiðbeinenda úr atvinnulífinu.
- að undirbúa nemendur undir starf eftir námslok.
- að opna nemendum leið inn á vinnumarkað.
Skiptinám
Skiptinám: Nemendur geta sótt um að fara í skiptinám við erlendan háskóla. Nemendur í BSc-námi þurfa að vera með 7 eða hærra í meðaleinkunn og að hafa lokið 60 einingum þegar þeir fara í skiptinámið. Alþjóðaskrifstofa veitir frekari upplýsingar um hvert hægt er að fara í skiptinám.
Klúbbastarf
Nemendur geta tekið þátt í alls konar starfi sem tengist verkfræðinni t.d. verið í Formúlu
Í HR fá verkfræðinemar ótal tækifæri til þess að leysa raunveruleg vandamál og læra á hönnunarferlið allt frá hugmynd, hönnun og smíði að virkni.
Að námi loknu
Nútímalegt nám veitir tækifæri
Breidd verkfræðináms veitir fjölbreytt atvinnutækifæri í nútímasamfélagi. Útskrifaðir nemendur hafa sterkan fræðilegan grunn ásamt framúrskarandi þjálfun í að greina vandamál, hanna lausnir og koma þeim í rekstur. Þeir eru því í stakk búnir að gera gagn samfélaginu til heilla og að tileinka sér þá tækni sem framtíðin mun færa okkur.
Verkfræðingar hafa gríðarleg áhrif á þjóðfélagið, oftast til góðs, en afleiðingar tæknivæðingar og iðnaðar geta verið ófyrirséðar og neikvæðar. Nemendur í verkfræði læra hvernig nota má magnbundnar aðferðir til að meta vandamál og hvaða lausnir eru vænlegastar til árangurs. Nemendur læra um sjálfbæra þróun og hvernig huga þurfi að afleiðingum ákvarðanna. Kennsla í verkefnastjórnun og nýsköpun hjálpar svo verkfæðingum að koma hugmyndum sínum í notkun í atvinnulífinu.
Starfsréttindi
Verkfræðinám samanstendur af 3ja ára (180 einingar) grunnnámi og tveggja ára (120 einingar) MSc námi. Til að öðlast starfsréttindi og leyfi til að nota lögverndaða starfsheitið verkfræðingur þarf að ljúka MSc-gráðu í samræmi við kröfur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
Skipulag náms
Í þriggja ára grunnnámi til BSc-gráðu kynnast nemendur undirstöðugreinum í verkfræði. Til að öðlast sérhæfingu og starfsréttindi sem verkfræðingur þarf að BSc-námi loknu að ljúka tveggja ára MSc-námi.
Verkfræði, BSc og MSc, er 5 ára námsleið (alls 300 einingar) sem uppfyllir skilyrði fyrir lögverndaða starfsheitið verkfræðingur.
BSc nám - 180 einingar - 3 ár
Nemendur gera einstaklingsmiðaða námsáætlun í samráði við leiðbeinanda, allt eftir áhugasviði. Námsáætlunin þarf að uppfylla kröfur um verkfræðilegar undirstöðugreinar og sérhæfð námskeið. Eftirfarandi tafla er grunnur að námsáætlun sem sýnir skyldunámskeið.
Valnámskeið í BSc námi eru verkfræðileg námskeið úr öðrum námsleiðum í verkfræði, eða námskeið úr öðrum deildum HR s.s. tölvunarfræðideild eða viðskiptadeild, sjá nánar í kennsluskrá.
Þriggja vikna námskeið
Aðstaða fyrir verkfræðinema
Þjónusta og góður aðbúnaður
Öll kennsla fer fram í háskólabyggingu HR í Nauthólsvík. Þar er einnig aðstaða til verklegrar kennslu, hópavinnuherbergi, mötuneyti, náms- og starfsráðgjöf og önnur þjónusta við nemendur.
Verkleg kennsla
Í HR er áhersla lögð á verkkunnáttu og þjálfun ásamt fræðilegri undirstöðu. Því er aðstaða til verklegrar kennslu til fyrirmyndar. Nemendur í rafmagnsverkfræði hafa aðgang að rafeindatæknistofu. Auk þess hafa þeir aðgang að efnafræðistofu og í sumum tilvikum aðstöðu í kjallara háskólabyggingarinnar fyrir stærri verkefni. Vísindamenn við véla- og rafmagnssvið eru jafnframt með rannsóknarstofur þar sem framkvæmdar eru tilraunir.
Orkutæknistofa
Í orkutæknistofunni er safn af tilraunum er lúta að orku og orkunýtingu. Nemendur í námskeiðum á borð við varmafræði, varmaflutningsfræði, straumfræði og tengdum greinum sækja verklegan hluta námsins í þessa stofu og framkvæma tilraunir er tengjast þeim viðfangsefnum.

Orkutæknistofan býður upp á góða aðstöðu fyrir rannsóknaverkefni og lokaverkefni nemenda í grunnnámi og meistaranámi í verkfræði og tæknifræði.

Formula Student lið Háskólans í Reykjavík hefur aðsetur í stofunni um þessar mundir. Ábyrgðarmenn verkstæðis eru Gísli Freyr Þorsteinsson og Indriði Ríkharðsson.
Rafeindatæknistofa

Í rafeindatæknistofu er unnið að verkefnum og tilraunum á sviði rafeindatækni, rafmagnsfræði, raforku, stýringum og sjálfvirkni. Í stofunni er fjölbreytt safn af verklegum tilraunum er tengjast námsefni á þessum sviðum. Stofan býður jafnframt upp á aðsetur fyrir nemendur sem vinna að stærri verkefnum eða lokaverkefnum í grunnnámi eða meistaranámi. Í stofunni er fjöldinn allur af tækjum og mælitækjum, á borð við sveiflusjár, örtölvur, AD-breytur, iðnaðarróbóta o.s.frv. Mikið safn er af íhlutum fyrir rásavinnu og góð aðstaða til að setja saman rásir.
Kennslustofur og lesherbergi
Húsnæði Háskólans í Reykjavík býður upp á afar góða aðstöðu til kennslu, lesturs og samvinnu nemenda. Kennslustofur eru vel búnar og nemendur geta nýtt sér hópavinnuherbergi. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn.
Góð þjónusta
Í háskólabyggingunni er greiður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, alþjóðaskrifstofu og tækniaðstoð. Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða. Safnið býður aðgang að bókum og fræðigreinum og upplýsingafræðingar eru með opna tíma þar sem nemendur geta litið við og fengið ráðleggingar og aðstoð vegna heimildavinnu.

Verslanir og kaffihús
Í HR er jafnframt Háskólabúðin sem selur helstu nauðsynjavörur, kaffihús, æfingasalur World Class og Málið veitingasala.
Af hverju verkfræði í HR?
- Kennt er í 12 vikur og svo tekur við þriggja vikna hagnýtur áfangi.
- Markviss verkefnavinna með raunverulegum viðfangsefnum.
- Líkt eftir atvinnulífinu: nemendur ljúka hinu viðamikla verkfræði X námskeiði.
- Frábær aðstaða fyrir verklegt og bóklegt nám.
- Góður stuðningur í námi frá hjá náms- og starfsráðgjöfum, starfsfólki bókasafns, skrifstofum deilda og kennurum.
- Allar námsleiðir eru í boði sem samfellt fimm ára nám (BSc & MSc).
- Nemendur hljóta þekkingu í raungreinum og þjálfun í aðferðafræði og vinnubrögðum sem gagnast til framtíðar.
- Möguleiki á starfsnámi
- Nemendur geta sótt um leigu á herbergi eða íbúð í Háskólagörðum HR sem eru við rætur Öskjuhlíðar.
- Allt nám undir einu þaki.