Viðskipta-fræði
Hvað læri ég?
Í viðskiptafræði eru nemendur þjálfaðir fyrir framtíðarstörf sem sérfræðingar, stjórnendur og leiðtogar. Lögð er áhersla á öflugt starfsnám, að efla frumkvæði nemenda og að byggja upp sterka, fræðilega undirstöðu í lykilþáttum viðskipta.
Að námi loknu eiga nemendur að vera færir um að:
- Samþætta og beita lykil kenningum, módelum og aðferðafræði (eigindlegri og megindlegri) innan kjarnagreina viðskiptafræði: reikningshaldi, fjármálum, markaðsfræði, stjórnun og hagfræði.
- Nýta gagnrýna og skapandi hugsun til að greina og leggja til lausnir á raunverulegum viðskiptalegum áskorunum á staðbundnum, innlendum og alþjóðlegum vettvangi.
- Nýta tækifæri og hugmyndir til að skapa samfélagslegt, menningarlegt og/eða fjárhagslegt virði fyrir sig og aðra, bæði innanlands og erlendis.
- Hugsa, skipuleggja og starfa í samræmi við meginreglur og gildi er varða siðferði, ábyrgð og sjálfbærni sem og hugtakið heimsþegnarétt (global citizenship).
- Leiða, stýra og/eða vinna með ólíkum hagaðilum til að byggja upp og efla árangursrík og gagnkvæm tengsl.
- Tala og skrifa skýrt, uppbyggilega sem og af virðingu með tilliti til ólíkra menningarheima í mismunandi aðstæðum í námi, starfi og daglegu lífi.
- Nýta uppplýsingatækni til samskipta, náms og vinnu á praktískan, ábyrgan og gagnrýnin máta.
- Sýna sjálfstæði og þrautseigju í námi og faglegri þróun með skilvirkri stjórnun á tíma og upplýsingum, bæði í einstaklings- og hópastarfi.
Það sem mér hefur þótt skemmtilegast er þegar kennararnir tengja námið við eitthvað sem er raunverulega að gerast úti í atvinnulífinu.
Hvernig læri ég?
Nemendur taka þátt í fjölbreyttum námsaðferðum, til dæmis fyrirlestrum, vinnustofum og hópavinnu, og hafa einnig tækifæri til að vinna saman í þverfaglegum teymum. Þetta undirbýr þá fyrir viðskiptalífið og veitir nauðsynlega færni til að stofna eigin fyrirtæki. Viðskipta- og hagfræðideild stefnir að því að efla frumkvöðlafærni nemenda ásamt því að veita traustan fræðilegan grunn á lykilsviðum viðskipta.
Hluti náms á ensku
Þriðja námsárið er kennt á ensku en það undirbýr nemendur fyrir framhaldsnám og störf í alþjóðlegu umhverfi.
Gestafyrirlesarar
Á hverju ári koma 60–80 gestafyrirlesarar úr atvinnulífinu að kennslu.
Starfsnám
Nemendur í grunnnámi í viðskiptafræði geta sótt um að ljúka einingum í starfsnámi. Starfsnámið veitir nemendum einstakt tækifæri til að undirbúa sig fyrir þær áskoranir sem viðskiptafræðingar mæta í atvinnulífinu.
Að námi loknu
Út í atvinnulífið
Viðskiptafræði opnar dyr að margvíslegum starfstækifærum og framhaldsnámi. Viðskiptafræðingar starfa við stofnun og rekstur fyrirtækja, mannauðsmál, fjármál, stefnumótun, sölu- og markaðsmál, framleiðslu og reikningshald.
Að námi loknu eiga nemendur að geta:
- Skipulagt og stofnað eigin skipulagsheild, þróað viðskiptahugmyndir og byggt upp viðskiptaáætlun.
- Mótað stefnu (sett sér markmið), gert starfsáætlun/verkáætlun og fylgt henni.
- Leyst viðfangsefni í rekstri og stjórnun: gerð fjárhags,- rekstrar- og /eða viðskiptaáætlana fyrir skipulagsheildir á bæði innanlands- og alþjóðamarkaði.
- Framkvæmt algengar greiningar á starfsumhverfi skipulagsheilda.
Áframhaldandi nám
Að loknu grunnnámi geta nemendur lokið meistaranámi og þannig sérhæft sig enn frekar og náð forskoti á vinnumarkaði.
Ertu með spurningar um námið?
Verkefnin í þriggja vikna áföngunum, eins og Nýsköpun og stofnun fyrirtækja, eru mjög lærdómsrík og skemmtileg. Þar kynnist maður líka nemendum bæði úr sínu námi og úr öðrum deildum líka.
Á fyrstu önninni var stærsta þrekraunin sú að glíma við hópverkefni í Þjóðhagfræði. Það verkefni var mjög áhugavert þar sem við þurftum að rýna í skýrslur frá því fyrir hrun, gögn frá Hagstofunni og aðrar hagtölur. Ég hafði mjög gaman af því verkefni þar sem við þurftum að tengja námsefnið við raunheiminn og var það hagnýt og góð reynsla.
Skipulag náms
- 144 ECTS í kjarna (24 námskeið)
- 18 ECTS í vali (3 námskeið)
- 12 ECTS í lokaverkefni
Að jafnaði eru tekin fimm námskeið (30 ECTS) á hverri önn og telst það fullt nám. Fjögur námskeið eru kennd í 12 vikur og síðan er prófað úr þeim. Að prófum loknum taka við þriggja vikna námskeið þar sem námsefnið er sett í hagnýtt samhengi með verkefnavinnu, hópavinnu og/eða samstarfi við fyrirtæki.
Velgengni í náms og starfi
Hluti af grunnnámi í viðskipta- og hagfræði eru sex 1 ECTS eininga námskeið sem bera yfirskriftina Velgengni í námi og starfi (Personal development). Námskeiðin bera heitin; Lífið í háskóla, Velsæld, Leiðtogahæfni og skilvirk teymi, Gagnrýn hugsun, Framkoma og mælskulist og Starfsframi. Markmið námskeiðannna er að byggja nemendur upp enn frekar fyrir atvinnulíf og frekara nám. Á útskriftarönn taka nemendur því einu námskeiði færra (24 ECTS) og hafa meira svigrúm til að einbeita sér að lokaverkefni.
Að hefja nám á vorönn
Ekki er opið fyrir umsóknir um áramót. Undantekningar eru mögulegar ef nemandi í HR óskar eftir að skipta um námsbraut og uppfyllir inntökuskilyrði í viðskiptafræði. Einnig ef nám í viðskiptafræði hefur verið stundað í öðrum háskóla. Nánari upplýsingar veitir verkefnastjóri.
Þriggja vikna námskeið

Aðstaða
Þjónusta og góður aðbúnaður
Í háskólabyggingu HR er aðstaða til verklegrar kennslu, hópavinnuherbergi, mötuneyti, náms- og starfsráðgjöf og önnur þjónusta við nemendur.
Kennslustofur og lesherbergi
Húsnæði Háskólans í Reykjavík býður upp á góða aðstöðu til kennslu, lesturs og samvinnu nemenda. Kennslustofur eru vel búnar og nemendur geta nýtt sér hópavinnuherbergi. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn.
Þjónusta
Í háskólabyggingunni er greiður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, alþjóðaskrifstofu og tækniaðstoð. Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða. Safnið býður aðgang að bókum og fræðigreinum og upplýsingafræðingar eru með opna tíma þar sem nemendur geta litið við og fengið ráðleggingar og aðstoð vegna heimildavinnu.
Verslanir og kaffihús
Í HR er Háskólabúðin sem selur nauðsynjavörur, kaffihús, æfingasalur World Class og Málið veitingasala.
Af hverju viðskiptafræði í HR?
- Öflug tenging við atvinnulífið og sprotastarfsemi. Nám í HR býður upp á öflug og ört vaxandi tengsl við atvinnulífið og nýsköpunargeirann. Þetta endurspeglast meðal annars í síkviku samstarfi við fyrirtæki, þverfaglegum áherslum í námsefni, og í raunhæfum verkefnum.
- Framúrskarandi innlendir og alþjóðlegir kennarar. Viðskipta- og hagfræðideild HR hefur framúrskarandi innlenda og alþjóðlega kennara með fjölbreyttan bakgrunn.
- Alþjóðleg vottun. Grunnnám við viðskipta- og hagfræðideild HR nýtur þeirrar sérstöðu hér á landi að hafa alþjóðlega EFMD vottun, sem staðfestir gæði námsins.
- Hagnýtur undirbúningur fyrir atvinnulífið. Kennslan byggir meðal annars á samspili fræðilegra og hagnýtra verkefna og byggt á þeirri sterku hefð HR að þjálfa nemendur í hópavinnu, efla samskiptahæfni og þátttöku í þverfaglegu samstarfi.
- Fjölbreyttir möguleikar að námi loknu. Gráða í viðskiptafræði opnar dyr að fjölbreyttum starfsferlum og frekara námi. Útskrifaðir nemendur starfa meðal annars við stofnun og rekstur fyrirtækja, mannauðsstjórnun, fjármál, stefnumótun, sölu og markaðssetningu, framleiðslu og bókhald.
- Þjálfun fyrir störf á alþjóðlegum vettvangi. Á þriðja ári fer öll kennsla fram á ensku, auk nokkurra námskeiða utan þess. Þetta er gert til þess að undirbúa nemendur sem best fyrir framhaldsnám og störf í alþjóðlegu umhverfi.
- Skiptinám. Nemendur í viðskiptafræði eru hvattir til að nýta sér þau alþjóðlegu tækifæri sem bjóðast á meðan þeir eru í námi. Reynsla af skiptinámi erlendis eykur virði háskólagráðunnar og hefur jákvæð áhrif á atvinnuhorfur að námi loknu.
- Starfsnám. Nemendur í viðskiptafræði eru einnig hvattir til að velja starfsnám sem valfag á þriðja ári. Viðskipta- og hagfræðideild aðstoðar nemendur við að komast að í starfsnám.