Námið
Rannsóknir
HR

15. apríl 2025

Framtak sem lyftir íþróttakennslu í skólum upp til vegs og virðingar

Með nýju framtaki við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík er miðað að því að varpa ljósi á áhrifaríkar og hvetjandi aðferðir við kennslu í skólaíþróttum. Í ár er óskað eftir umsóknum sem lýsa framúrskarandi notkun námsmats og verða íþróttakennarar heiðraðir sem hafa nýtt námsmat á árangursríkan og hvetjandi hátt fyrir nemendur í skólaíþróttum og þannig skapað jákvætt námsumhverfi í faginu. Áhersla er lögð á aðferðir þar sem skapandi lausnir eru í forgrunni og tekið er mið af fjölbreytileika nemenda, aldri og þörfum. 

Sveinn Þorgeirsson, umsjónarmaður MED-námsins við íþróttafræðideild HR.

Sveinn Þorgeirsson, umsjónarmaður MED-námsins, segir hugmyndina með framtakinu vera að skapa jákvæðni í kringum fagið og virkja fyrirmyndir innan þess.

Hugmyndina má rekja til þess að við Aron Laxdal, dósent í íþróttafræði við háskólann í Agder í Noregi, höfum átt í samstarfi og skrifuðum m.a. grein fyrir um tveimur árum þar sem við gagnrýndum núverandi stöðu í skólaíþróttum. Upp úr því hef ég víða heyrt þá rödd, m.a. frá íþróttakennurum, að verið sé að gera margt gott sem er svo sannarlega rétt, en það hefur vantað vettvang til að draga það fram. Hugmyndin er því með framtakinu að búa til slíkan vettvang, skapa jákvæðni í kringum fagið okkar og virkja til liðs við okkur þær fyrirmyndir sem eru að gera virkilega vel.

Margir útskrifaðir nemendur frá íþróttafræðideild HR starfa við íþróttakennslu og þar sé því snertiflötur við almenning sem eigi rétt á góðri íþróttakennslu.

Þetta er einstakt tækifæri til að lyfta faginu upp til vegs og virðingar og sýna skólaíþróttakennurum að það sé áhugi fyrir starfi þeirra Ég held að við getum raunverulega haft áhrif með framtakinu sem gerir mann spenntan alveg niður í tær.

Sveinn segir fagið vera að þróast hratt og hugmyndir um fagið og hlutverk þess hafi breyst mikið á aðeins um áratug. Hann sjái fyrir sér að það verði árviss viðburður að heiðra kennara í faginu og helst á öllum skólastigum þegar fram líða stundir.

Þemað í ár er námsmat sem fellur vel að því að verið var að uppfæra hæfniviðmið í skólaíþróttum í aðalnámsskránni. Námsmat er einn af hornsteinum vandaðrar kennslu og útfærsla þess tengir saman markmið fagsins við þær aðferðir sem notaðar eru til kennslunnar. Mikilvægt er að umsækjendur sýni fram á tengingu hæfniviðmiða, lykilhæfni og matsviðmiða Aðalnámskrár grunnskóla við námsmatið sjálft. 

Íþróttakennarar geta sótt sjálfir um viðurkenninguna með þessu formi hér og sent það á kennsluvidurkenning@ru.is. Einnig er hægt að tilnefna aðra kennara eða samstarfsfólk með því að senda póst á sama netfang með stuttri útskýringu á tilnefningu ásamt tengiliðaupplýsingum. 

Nám til MEd-gráðu í íþróttafræði er tveggja ára meistaranám og er 120 ECTS einingar. Lögð eráhersla á uppeldis- og kennslufræði, sálfræði, íþróttafræði og lýðheilsufræði. Námið er bæði starfstengt og fræðilegt.

 

Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir