Hátækniverkfræði BSc/MSc
Sjálfvirk tæki og róbotar er tækni sem er notuð í iðnað og framleiðslu en jafnframt í alls kyns búnað sem við notum í daglegu lífi eins og bifreiðar, heimilistæki, gervilíffæri, stoðtæki og leikföng. Í hátækniverkfræði sameina nemendur viðfangsefni rafmagnsverkfræði og vélaverkfræði og læra hönnun flókins tæknibúnaðar.
Um námið
Nemendur og kennarar segja frá námi í hátækniverkfræði við HR
Nemendur þróa nýja tækni
Í BSc-námi í hátækniverkfræði er lagður fræðilegur grunnur sem síðan er byggt á til að skapa breiða þekkingu á stýrikerfum, forritun og hugbúnaðargerð. Nemendur fá ótal tækifæri til þess að leysa raunveruleg vandamál og læra á hönnunarferlið sem spannar allt frá hugmynd, hönnun og smíði að virkni. Viðfangsefnin eru margvísleg en eiga það sameiginlegt að þjálfa nemendur í þróun á hugbúnaði, rafeinda- og tölvubúnaði og vélbúnaði.
Lifandi nám
Með því að glíma við raunhæf verkefni og finna lausnir við vandamálum hljóta nemendur góðan undirbúning fyrir störf að námi loknu. Hér eru nokkur dæmi um það hvernig kennslan og námsefnið miðar að því að veita nemendum dýrmæta reynslu.
12+3 kerfið
Í náminu eru annir brotnar upp í tvo hluta. Fjögur námskeið eru kennd í 12 vikur og síðan er prófað úr þeim. Að prófum loknum taka við þriggja vikna námskeið þar sem námsefnið er sett í hagnýtt samhengi með verkefnavinnu, hópavinnu og/eða samstarfi við fyrirtæki.
Starfsnám
Nemendur geta lokið starfsnámi hjá fyrirtækjum þar sem þeir fá tækifæri til að nýta þekkingu sína og kynnast því hvernig tekist er á við hagnýt og raunveruleg verkefni. Tækni- og verkfræðideild er með samninga við um 40 fyrirtæki og stofnanir. Nemendur í grunnnámi geta sótt um 6 eininga starfsnám á vorönn.
Dæmi um fyrirtæki og stofnanir sem hafa tekið við nemendum í starfsnám:
• Actavis • Arion banki • Blóðbankinn • deCode • EFLA • Elkem • Fjármálaráðuneytið • Hjartavernd • Íslandsbanki • ÍSOR • Ikea • Landsbankinn • Landsnet • Landspítalinn • Landsvirkjun • Mannvit • Marel • Marorka • Olís • Orkuveitan • Raförninn • Samey • Samskip • Securitas • Síminn • Sjóvá • Verkís • Virðing • Vodafone • VSÓ ráðgjöf • Össur
Hugmyndavinna strax á fyrsta ári
Á fyrsta námsári í verkfræði, tæknifræði og íþróttafræði standa nemendur frammi fyrir raunhæfu verkefni sem þarf að takast á við og skoða frá mörgum hliðum. Námskeiðið heitir Inngangur að verkfræði. Nemendur vinna í hópum við að útfæra lausnir og leysa þau fjölmörgu vandamál sem upp gætu komið. Þeir kynna svo niðurstöður sínar fyrir leiðbeinendum og öðrum nemendum. Viðfangsefni nemenda hafa meðal annars verið að:
- hanna nýjan þjóðarleikvang
- koma með nýstárlegar hugmyndir að brú yfir Fossvoginn
- bregðast við eldgosi í nágrenni Reykjavíkur
- undirbúa Eurovision-keppnina á Íslandi
- gera aðgerðaráætlun vegna bólusóttarfaraldurs
CDIO-samstarfsnetið
Færni í hugmyndavinnu, verkefnastjórnun, samskiptum og kynningum er þjálfuð í ýmsum námskeiðum gegnum allt námið. Þetta samræmist hugmyndafræði CDIO, sem er samstarfsnet framsækinna háskóla sem kenna tæknigreinar og HR er þátttakandi í.
Í CDIO-aðferðafræðinni er lögð áhersla á samráð háskóla og atvinnulífs og fagfélaga. Mótun námsbrauta í anda CDIO á að tryggja að nemendur fái lausnamiðaða verkfræðilega færni sem vinnuveitendur sækjast eftir, án þess að slegið sé af fræðilegum kröfum.
Lesa meira um CDIO - Conceive, Design, Implement, Operate
Undirbúningur fyrir atvinnulífið
Nemendum býðst að vinna hagnýt, raunhæf verkefni þar sem markmiðið er að undirbúa þá fyrir atvinnulífið. Námskeiðin eru umfangsmikil og vinnan dreifist á 15 vikur. Unnið er í hópum.
- Nemendur í BSc verkfræði ljúka námskeiðinu Hönnun X. Dæmi um verkefni í Hönnun X eru kafbátur, eldflaug sem skotið var upp af Mýrdalssandi og smíði kappakstursbíls sem nemendur kepptu á í Formula Student í fyrsta sinn sumarið 2016. Keppnin fór fram á Silverstone-brautinni í Englandi.
- Í MSc verkfræði ljúka nemendur námskeiðinu Samþætt verkefni I og II þar sem lögð er áhersla á hönnun, greiningu, nýsköpun og frumkvöðlafræði.
Skiptinám
Nemendur geta sótt um að fara í skiptinám við erlendan háskóla. Nemendur í BSc-námi þurfa að vera með 7 eða yfir í meðaleinkunn og búnir með 60 einingar þegar þeir fara í skiptinámið. Skrifstofa alþjóðaskipta veitir frekari upplýsingar um hvert hægt er að fara í skiptinám.
Að námi loknu
Vélbúnaður og hugbúnaður
Sérhæfing nemenda á sviði stýritækni, iðntölvustýringa og rafeindatækni gerir þá ákjósanlega starfskrafta. Námið nýtist þeim sem vilja vinna við raf- og rafeindastýrðan vélbúnað, hanna vélhluti og sinna þróun hugbúnaðarkerfa. Styrkleiki hátækniverkfræðinga liggur í samþættingu íhluta (vélbúnaður) og upplýsingatækni (hugbúnaður).
Góður grunnur að byggja á
Eftir þriggja ára grunnnám til BSc-gráðu bæta nemendur við sig tveggja ára námi til MSc-gráðu til að öðlast full starfsréttindi sem verkfræðingar. Hátækniverkfræði veitir góða undirstöðu fyrir framhaldsnám í fjölmörgum verkfræðigreinum eins og hátækniverkfræði, vélaverkfræði og rafmagnsverkfræði. Val á BSc-námsbraut í verkfræði þarf ekki að takmarka möguleika á verkfræðinámsbraut á meistarastigi.
Starfsnámið veitir forskot
Nemendur í verkfræði við HR geta sótt um starfsnám í bæði grunnnámi og meistaranámi. Markmið með starfsnámi er að auka þekkingu nemenda á því sviði sem þeir stunda nám á og búa þá undir störf að námi loknu.
Aðstaða
Þjónusta og góður aðbúnaður
Öll kennsla fer fram í háskólabyggingu HR. Þar er einnig aðstaða til verklegrar kennslu, hópavinnuherbergi, mötuneyti, náms- og starfsráðgjöf og önnur þjónusta við nemendur.
Verkleg kennsla
Í HR er áhersla lögð á verkkunnáttu og þjálfun ásamt fræðilegri undirstöðu. Því er aðstaða til verklegrar kennslu til fyrirmyndar. Nemendur í hátækniverkfræði hafa aðgang að rafeindatæknistofu, orkutæknistofu og vélsmiðju. Auk þess hafa þeir aðgang að efnafræðistofu og í sumum tilvikum kjallara háskólabyggingarinnar fyrir stærri verkefni og tilraunir.
Rafeindatæknistofa
Í rafeindatæknistofu er unnið að verkefnum og tilraunum á sviði rafeindatækni, rafmagnsfræði, raforku, stýringum og sjálfvirkni. Í stofunni er fjölbreytt safn af verklegum tilraunum er tengjast námsefni á þessum sviðum. Stofan býður jafnframt upp á aðsetur fyrir nemendur sem vinna að stærri verkefnum eða lokaverkefnum í grunnnámi eða meistaranámi. Í stofunni er fjöldinn allur af tækjum og mælitækjum, á borð við sveiflusjár, örtölvur, AD-breytur, iðnaðarróbóta o.s.frv. Mikið safn er af íhlutum fyrir rásavinnu og góð aðstaða til að setja saman rásir. Ábyrgðarmaður verkstæðis er Hannes Páll Þórðarson.
VélsmiðjaVel búin vélsmiðja er mikilvægur þáttur í verkfræðinámi því þar er bilið brúað milli þess fræðilega og þess hagnýta. Flestir nemendur sem útskrifast frá HR með verkfræðigráðu hafa kynnst vélsmíði að einhverju marki, til að mynda unnið í rennibekk og fræsivél við að útfæra hugmyndir og hönnun sína. Í stofunni eru í boði inngangsnámskeið í vélsmíði, þar sem farið er yfir öryggismál og nemendum kennd viðeigandi handtök. Nemendur búa að þessari reynslu á seinni stigum náms og hafa aðgang að vélsmiðjunni til að leysa skemmtileg og raunveruleg verkfræðileg viðfangsefni.
Í vélsmiðjunni eru þrír rennibekkir, tvær fræsivélar, CNC rennibekkur og fræsivél, suðutæki, laser-skurðarvél, ásamt öðrum hefðbundnum verkfærum. Ábyrgðarmenn verkstæðis eru Gísli Freyr Þorsteinsson og Indriði Ríkharðsson.
Orkutæknistofa
Í orkutæknistofunni er safn af tilraunum er lúta að orku og orkunýtingu. Nemendur í námskeiðum á borð við varmafræði, varmaflutningsfræði, straumfræði og tengdum greinum sækja verklegan hluta námsins í þessa stofu og framkvæma tilraunir er tengjast þeim viðfangsefnum. Orkutæknistofan býður upp á góða aðstöðu fyrir rannsóknaverkefni og lokaverkefni nemenda í grunnnámi og meistaranámi í verkfræði og tæknifræði. Formula Student lið Háskólans í Reykjavík hefur aðsetur í stofunni um þessar mundir. Ábyrgðarmenn verkstæðis eru Gísli Freyr Þorsteinsson og Indriði Ríkharðsson.
Kennslustofur og lesherbergi
Húsnæði Háskólans í Reykjavík býður upp á afar góða aðstöðu til kennslu, lesturs og samvinnu nemenda. Kennslustofur eru vel búnar og nemendur geta nýtt sér hópavinnuherbergi. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn. Sjá fleiri myndir af aðstöðunni í HR.
Góð þjónusta
Í háskólabyggingunni er greiður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, alþjóðaskrifstofu og tækniaðstoð. Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða. Safnið býður aðgang að bókum og fræðigreinum og upplýsingafræðingar eru með opna tíma þar sem nemendur geta litið við og fengið ráðleggingar og aðstoð vegna heimildavinnu.
Verslanir og kaffihús
Í HR er jafnframt Háskólabúðin sem selur helstu nauðsynjavörur, Te og kaffi, æfingasalur World Class og Málið veitingasala.
Kennarar
Vísindamenn og sérfræðingar
Nemendur í vélaverkfræði njóta leiðsagnar öflugra vísindamanna á fagsviðinu, tæknimanna og hönnuða innan háskólans, og gestafyrirlesara með sérfræðiþekkingu úr atvinnulífinu. Kennarar við HR eru að jafnaði í miklum samskiptum við nemendur.

Ágúst Valfells
PhD
Kennir einkum áfanga á sviði varmafræði, rafmagnsfræði og orkuvísinda. Ágúst leggur áherslu á að nemendur tileinki sér sterkan fræðilegan grunn sem er svo prófaður og treystur í sessi með verklegum æfingum, s.s. heimatilraunum og hönnunarverkefnum. Rannsóknir Ágústar eru tvíþættar. Annars vegar snúa þær að lofttómsrafeindakerfum, einkum hegðun rafeindageisla í örsmæðarkerfum. Hins vegar lúta þær að sjálfbærri orku, og þá sérstaklega að notkun aðferða aðgerðarrannsókna í rekstri jarðhitakerfa. Ágúst lauk prófi í vélaverkfræði við HÍ. Í framhaldsnámi lagði hann aðallega stund á rannsóknir á aflmiklum örbylgjum. Hann hlaut PhD í kjarnorkuverkfræði frá University of Michigan árið 2000.

Ármann Gylfason
PhD
Kennir áfanga á sviði varma- og straumfræði, aflfræði og burðarþolsfræði. Í kennslu leggur Ármann áherslu á samspil fræða og hagnýtingar með verklegum æfingum og hönnunarverkefnum, þar sem nemendur fá tækifæri til að útfæra hugmyndir sínar og smíða. Rannsóknir hans fjalla um iðustreymi, hreyfingar agna, dreifni aðskotaefna, og varmaburð í slíkum flæðum og Ármann framkvæmir tölulegar hermanir og tilraunir á Tilraunastofu í iðustreymi í HR. Að loknu grunnnámi í vélaverkfræði (Háskóli Íslands, 2000) hóf hann doktorsnám í flugvélaverkfræði, og stundaði rannsóknir í straumfræði með áherslu á iðustreymi (Cornell University, 2006).

Baldur Þorgilsson
MSEE

Indriði Sævar Ríkharðsson
MSc

Ingunn Gunnarsdóttir
Cand. Scient.

Joseph Timothy Foley
PhD

Jón Guðnason
PhD

Mohamed F. Abdel-Fattah
PhD

Slawomir Koziel
PhD
Aðrir kennarar
Fyrir utan ofangreinda fræðimenn koma að kennslu í vélaverkfræði kennarar í stærðfræði og eðlisfræði, umsjónarmenn verkstæða og fjöldi stundakennara.
Skipulag náms BSc
Undirstöðugreinar í hátækniverkfræði
Í þriggja ára grunnnámi til BSc-gráðu kynnast nemendur undirstöðugreinum í hátækniverkfræði.
Starfsréttindi
Til að öðlast starfsréttindi sem verkfræðingur þarf að BSc-námi loknu að ljúka tveggja ára MSc-námi. Við Háskólann í Reykjavík er hægt að stunda MSc-nám í verkfræði á átta mismunandi brautum.
Kjarni - verkfræði (84 einingar)
|
|
|
Sviðskjarni - hátækniverkfræði (66 einingar)
|
|
|
Valfög - hátækniverkfræði (30 einingar - 5 fög frjálst val)
Nemendum er gefinn kostur á að afla sér sérhæfingar á áhugasviði sínu með frjálsu vali. Dæmi um áherslusvið sem falla vel að námi í hátækniverkfræði eru:
Dæmi um fagtengd valfög:
|
|
|
Annað
Birt með fyrirvara um breytingar á námsskipulagi.
Skipulag náms MSc
Aukin sérfræðiþekking
Í framhaldsnámi býðst nemendum kostur á að afla sér sérfræðiþekkingar og hagnýtrar tækniþekkingar.
Hátækniverkfræði sameinar rafmagnsverkfræði, tölvunarfræði og vélaverkfræði og snýst um sjálfvirkni, nema, gagnanám og -úrvinnslu, og stýringar. Meginmarkmið námbrautarinnar er að tengja þessar þrjú fræðisvið til að leysa raunhæf verkefni svo sem róbota og stýringu þeirra. Áhersla er lögð á vélrænt nám, tölvuverkfræði, tölvusjón, kvik kerfi og reglun. Boðið er upp á námskeið eins og Línuleg kvik kerfi, Gagnanám og vitvélar og Tölvusjón en einnig er mælt með ýmsum námskeiðum í tölvunarfræði og vélaverkfræði.
Einingar
Námið er 120 ECTS og tekur almennt fjórar annir. Fullt nám telst 30 ECTS á önn. Flest námskeið eru 6-8 ECTS.
Lengd náms
Námið tekur yfirleitt fjórar annir.
Einstaklingsmiðuð námsáætlun
Hver nemandi velur sér námsgreinar og gerir einstaklingsmiðaða námsáætlun í samráði við umsjónarkennara sinn, ásamt því að sækja skyldukúrsa á viðkomandi áherslusviði. Námið er rannsóknartengt og getur nemandinn valið að nýta sér það til umtalsverðrar sérhæfingar.
Samþætt verkefni
Nemendur í meistaranámi í rafmagnsverkfræði sækja þverfaglegt hönnunarnámskeið (Samþætt verkefni, 14 ECTS) þar sem unnið er að hönnun og smíði flókinna kerfa. Einnig er lögð áhersla á nýsköpun, frumkvöðlafræði og þróun viðskiptaáætlana fyrir hugmynd og útfærslu afurðar verkefnisins.
Skiptinám og starfsnám
Nemendur geta sótt um skiptinám á 1., 2. eða 3. önn. Nemendum stendur jafnframt til boða að taka 14 ECTS starfsnám.
Haust | Vor | |
---|---|---|
Fyrra ár | T-865-MADE Hönnun vélbúnaðar T-809-DATA Gagnanám og vitvélar T-868-LISY Línuleg kvik kerfi T-801-RESM Aðferðafræði T-869-COMP Verkefni í tölvusjón (3v) | T-535-MECH Mechatronics II T-800-INT1 Samþætt verkefni I (12v) Val T-800-INT2 Samþætt verkefni II (3v) |
Seinna ár | Val Lokaverkefni (60 ECTS) | Val Lokaverkefni (30/60 ECTS) |
Möguleg valnámskeið
Haust | Vor |
---|---|
T-409-TSAM Tölvusamskipti | T-844-FEMM Tölvustudd hönnun með smábútaaðferð |
T-811-PROB Hagnýt líkindafræði | T-423-ENOP Verkfræðilegar bestunaraðferðir (3v) |
RT EXH1013 Rafsegulfræði og hálfleiðarar | T-507-VARM Varmafræði |
T-519-STOR Stöðuvélar og reiknanleiki | T-606-HEAT Varmaflutningsfræði |
T-816-SIMU Hermun II (3v) | T-864-NUFF Töluleg straum- og varmaflutningsfræði |
T-561-LIFF Lífaflfræði | T-609-LAEK Læknisfræðileg myndgerð |
Inntökuskilyrði
BSc í hátækniverkfræði
Til að hefja nám í verkfræði þurfa umsækjendur að hafa lokið stúdentsprófi, frumgreinaprófi eða sambærilegu prófi.
Nauðsynlegur undirbúningur
Námsefni og kennsla á fyrsta ári í verkfræði er miðuð við að nemendur hafi eftirfarandi undirbúning. Hægt er að lesa meira um hæfniþrep á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis.
Stærðfræði
21 eining (a.m.k. 503) eða 30 fein, þar af 15 fein á 3. hæfniþrepi. Nemandi þarf að þekkja diffrun, heildun og helstu heildunaraðferðir (t.d. innsetningaraðferð og hlutheildun).
Eðlisfræði
6 einingar (a.m.k. 203 eða samsvarandi) eða 10 fein á 2. eða 3. hæfniþrepi. Nemandi þarf að þekkja hreyfi- og aflfræði og rafmagnsfræði (rásir, rafsvið og segulfræði). Æskilegt er að hann þekki einnig varmafræði, vökva og þrýsting, bylgjur og ljós.
Efnafræði
3 einingar (a.m.k. efn 103) eða 5 fein á 2. hæfniþrepi.
Vantar þig grunninn?
Eða meiri undirbúning í stærðfræði? Byrjaðu strax í HR
Frumgreinanám er undirbúningur fyrir háskólanám. Þegar nemendur sækja um velja þeir háskólagrunn miðað við það háskólanám sem stefnt er að í framhaldinu. Einnig geta þeir sem hafa lokið stúdentsprófi bætt við sig einingum í til dæmis stærðfræði og raungreinum í viðbótarnámi við stúdentspróf.
Lesa meira um frumgreinanám HR - undirbúningsnám fyrir háskóla
MSc í hátækniverkfræði
Gert er ráð fyrir að nemandi hafi grunngráðu (BSc) í verkfræði eða tæknifræði. Athugið að nemendur gætu þurft að bæta við sig námskeiðum úr grunnnámi. Í slíkum tilvikum er ætlast til að nemandi klári þessi námskeið á fyrsta námsári sínu.
Umsóknarfrestur
Frá 5. febrúar til 5. júní
Getum við aðstoðað?
Súsanna María B. Helgadóttir
Verkefnastjóri