Húsnæði
Í háskólabyggingunni fer öll kennsla og starfsemi fram
Húsnæði
Heimilisfang Háskólans í Reykjavík er Menntavegur 1, 102 Reykjavík. Í háskólabyggingunni fer öll kennsla og starfsemi fram.
Þar er lesaðstaða nemenda og hópavinnuherbergi, ásamt bókasafni, mötuneyti, náms- og starfsráðgjöf, kaffihúsi, verslun og líkamsræktaraðstöðu. Auk þess að hýsa alla kennslu eru í byggingunni stundaðar fjölbreyttar rannsóknir.
Um bygginguna
Húsnæði Háskólans í Reykjavík er rúmgott, birtumikið og með góðan anda og á sinn þátt í að skapa það samfélag sem HR er. Húsið býður upp á afar góða aðstöðu til kennslu, lesturs og samvinnu nemenda. Kennslustofur eru vel búnar og nemendur geta nýtt sér hópavinnuherbergi. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn.
Hönnun hússins byggist á ólíkum álmum sem tengjast saman í miðrými sem kallað er Sól. Nöfn álmanna eru sótt í sólkerfið og reikistjörnur þess. Næst Sól er Merkúríus, þá Venus og svo koll af kolli. Í byrjun árs 2010 voru álmurnar Venus og Mars teknar í notkun ásamt göngugötunni Jörð. Sólin og Úranus voru svo teknar í notkun um miðjan ágúst sama ár.
Hægt er að koma athugasemdum og fyrirspurnum varðandi húsnæðið á framfæri með því að senda tölvupóst á hr@hr.is
Kort af HR
Samgöngur
Að Háskólanum í Reykjavík liggja margar skemmtilegar göngu- og hjólaleiðir. Hvort sem komið er vestan að, úr austurborginni eða sunnan frá Kópavogi eða Hafnarfirði er hægt að velja um þægilega stíga um Öskjuhlíð, meðfram sjónum eða gegnum Hlíðarenda.
Hjólaskýli
Við HR er fullkomið aðgangsstýrt hjólaskýli þar sem hjól og rafskútur í einkaeigu bíða örugg meðan tímar eru sóttir eða öðrum erindum í HR sinnt.

Bílastæði
Fjöldi bílastæða er við HR, þau sem næst eru skólanum eru gjaldskyld en þau sem eru fjær eru gjaldfrjáls. Einnig eru 12 hleðslustöðvar frá ON að finna á bílastæðinu.

Strætisvagn
Strætisvagn númer 8 gengur á u.þ.b. 10 mínútna fresti frá 06:59-18:13 milli HR og BSÍ en á BSÍ er víðtæk tenging við aðrar leiðir. Eftir klukkan 18:30 og um helgar og á helgidögum ekur leið númer 5 þessa leið.
Samgöngutæki til leigu
Leigurafskútur eru mikið notaðar af þeim sem eiga erindi í HR og nágrenni og því er aðgengi að þeim vanalega mjög gott, fyrir þau sem kjósa þann samgöngumáta.
Leiga á rými
Fyrirtæki og stofnanir geta leigt aðstöðu í HR til að halda fundi, málstofur eða fyrirlestra. Rými háskólans eru vel búin tæknilegum lausnum.

Veitingar fyrir fundargesti
Hægt er að nýta Málið, veitingaþjónustu HR, ef bjóða á upp á veitingar á viðburðinum.
Til að fá nánari upplýsingar og verð á stofu- eða salarleigu má senda fyrirspurn á vidburðir@ru.is.
Seres nýsköpunarsetur

Seres er nýsköpunar- og frumkvöðlasetur HR og er starfrækt í nýuppgerðu húsi við Braggann í Nauthólsvík, steinsnar frá háskólabyggingunni. Útsýnið yfir Nauthólsvík og út á sjó er líka einstaklega vel til þess fallið að fylla hvern sem er innblæstri.
Setrið er hugsað fyrir nemendur til að fínpússa viðskiptahugmyndir og hrinda þeim í framkvæmd.
Hvert nýsköpunarverkefni sem fær aðstöðu í Seres fær aðgang að:
- Mentorum
- Fundaaðstöðu
- Skrifstofuaðstöðu
Auk þess hafa þau sem fá aðstöðu í Seres færi á að leita ráða og tala við fólk í sömu stöðu. Til þess að sækja um aðstöðu í Seres þarf einungis hugmynd og vilja til þess að fylgja henni eftir frá upphafi til enda.
Öllum er velkomið að sækja um en núverandi og fyrrum nemendur HR ganga fyrir. Umsækjendur geta búist við því að verða boðaðir í viðtöl. Frekari upplýsingar má fá með því að senda póst á seres@ru.is.
Hér má sækja um aðgang að setrinu og hér má finna frekari upplýsingar um Seres nýsköpunar- og frumkvöðlasetur HR