Jafnrétti
Jafnrétti í HR
Háskólinn í Reykjavík starfar eftir metnaðarfullri jafnréttisáætlun. Helstu efnisatriði hennar snúa að launum og kjörum, ráðningum, framgangi, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og skilgreiningum og reglum vegna kynbundins ofbeldis og kynferðislegrar áreitni.
Stefnan er aðgerðabundin og ábyrgð á aðgerðum skýr. Þar er meðal annars kveðið á um að við inntöku nemenda skuli þess gætt eftir megni að taka inn fleiri einstaklinga af því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi námsbraut. Í stefnunni er ekki talað um karla og konur heldur tekið fram að réttindi og ferlar séu óháðir kyni, það er, kynsegin (e. non-binary).
Meðal þess sem kveðið er á um í stefnunni er að gera skuli úttekt á launum á að minnsta kosti þriggja ára fresti. Árlega skal birta samantekt um ráðningar í stjórnunarstöður í jafnréttisskýrslu og sömuleiðis skal á hverju ári taka saman og birta tölfræði yfir m.a. kynjasamsetningu, þjóðerni og aldursdreifingu starfsmanna. Niðurstöðurnar skulu birtar fyrir skólann í heild, hverja deild, akademískar stöður, stjórnunarstöður og helstu nefndir og ráð.
- Jafnréttisstefna
- Jafnréttisskýrslur
Jafnlaunavottun
Í jafnréttisáætlun Háskólans í Reykjavík kemur fram að þess skuli gætt að kynjum sé ekki mismunað og að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir starfsfólk óháð kyni. Allir skulu njóta jafnra kjara fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf.
Vorið 2019 varð HR fyrsti háskóli landsins til að hljóta jafnlaunavottun. Jafnlaunavottunin er staðfesting á því að unnið sé markvisst gegn kynbundnum launamun innan háskólans, að ákvarðanir í launamálum feli ekki í sér kynbundna mismunun og að jafnlaunakerfi háskólans standist kröfur jafnlaunastaðals.
BSI á Íslandi sem er umboðsaðili BSI-group í Bretlandi (British Standards Institution) og faggild skoðunarstofa á Íslandi, staðfesti vottunina.
Jafnlaunavottunin er afrakstur viðamikillar úttektar á jafnlaunakerfi háskólans. Liður í ferlinu voru m.a. tvær úttektir sem gerðar voru í janúar og febrúar 2019 af fulltrúum BSI á Íslandi. Jafnlaunaúttektir hafa verið gerðar árlega við háskólann frá árinu 2016.
Háskólinn hlaut einnig árið 2020 gullmerki jafnlaunaúttektar PwC sem greinir hvort fyrirtæki greiði starfsmönnum, óháð kyni, sömu laun fyrir sambærileg störf. Til að hljóta gullmerkið þarf launamunur kynjanna að vera undir 3,5%.