Áætlun um viðbrögð við tilkynningum og kvörtunum um einelti og kynferðislega áreitni
Inngangur og markmið
Viðbragðsáætlun þessi er sett á grundvelli laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Viðbragðsáætlun þessi á við um alla nemendur Háskólans í Reykjavík sem telja sig hafa orðið fyrir einelti, kynbundinni eða kynferðislegri áreitni og/eða ofbeldi („EKKO“) sem tengist starfsemi Háskólans í Reykjavík, hvort sem er af hálfu starfsmanns, nemanda eða verktaka sem starfar á vegum háskólans.
Í siðareglum Háskólans í Reykjavík er lögð áhersla á vellíðan starfsfólks og nemenda, gagnkvæma virðingu, umburðarlyndi og stuðning þeirra á meðal. Viðbragðsáætlun við einelti og annarri áreitni er frekari útfærsla á því markmiði og gildir fyrir alla nemendur og allt starfsfólk Háskólans í Reykjavík. Einelti og önnur áreitni, svo sem kynbundin og kynferðisleg áreitni, verða undir engum kringumstæðum umborin.
Ágreiningur vegna verkefna, mismunandi skoðana eða ólíkra hagsmuna telst ekki óviðeigandi hegðun í skilningi viðbragðsáætlunarinnar, en ef slíkur ágreiningur magnast án þess að gripið sé inn í getur hann leitt til eineltis, áreitni og/eða ofbeldis. Óviðeigandi hegðun sem gæti fallið undir viðbragðsáætlun þessa er til dæmis hvers kyns mismunun á grundvelli fordóma.
Skilgreiningar
- Einelti: Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
- Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
- Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
- Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.
- Þolandi: Sá aðili sem verður fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi.
- Gerandi: Sá aðili sem beitir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi. Þar til að athugun á máli er lokið er notast við hugtakið „meintur gerandi“.
Fagráð
Framkvæmdaráð HR skipar fagráð sem hefur það hlutverk að taka til meðferðar tilkynningar og kvartanir um háttsemi innan HR sem gæti fallið undir viðbragðsáætlun þessa, rannsaka tilkynningar, veita umsögn í málum og koma með tillögur til úrbóta.
Í fagráðinu sitja tveir utanaðkomandi aðilar, lögfræðingur og sálfræðingur, ásamt lögfræðingi HR, fulltrúa frá nemendaráðgjöf HR ef málið tengist nemendum og fulltrúa frá mannauðsviði HR ef málið tengist starfsfólki HR. Leitast skal við að hafa jöfn kynjahlutföll í fagráðinu. Strangt skal gætt að hæfi fagráðsfólks í hverju máli.
- Utanaðkomandi lögmaður fagráðs: Sigurður Freyr Sigurðsson (sfs@landlogmenn.is )
- Utanaðkomandi sálfræðingur fagráðs: Bryndís Einarsdóttir (bryndise@klasinn.is)
- Lögfræðingur HR: Margrét H. Þóroddsdóttir (margretth@ru.is)
- Fulltrúi nemendaþjónustu HR: Gréta Matthíasdóttir (gretam@ru.is)
- Fulltrúi mannauðssviðs HR: Ester Gústavsdóttir (esterg@ru.is)
Tilkynningar
- Einstaklingar sem telja sig hafa orðið fyrir einelti, kynbundinni eða kynferðislegri áreitni og/eða ofbeldi sem tengist starfsemi Háskólans í Reykjavík geta tilkynnt beint til fagráðsins gegnum netfangið ekko@ru.is eða til lögfræðings HR. Jafnframt geta nemendur leitað til deildarskrifstofu, forstöðumanns námslínu eða deildarforseta.
- Einstaklingar sem telja sig hafa orðið vitni að slíkri háttsemi geta tilkynnt til sömu aðila.
- Önnur sem taka við tilkynningum sem hugsanlega varða áætlun þessa skulu upplýsa viðkomandi aðila um viðbragðsáætlun þessa og úrræði hennar.
Málsmeðferð
Þegar tilkynning hefur borist til fagráðs skal virkja viðbragðsáætlun þessa innan 5 virkra daga.
Atriði sem þarf að tryggja í meðferð allra mála:
- Fagráð og aðilar máls skrái og geymi öll gögn sem málið varðar. Sé kvörtunin munnleg þarf að skrá hana niður. Til þess að auðvelda vinnslu mála eru aðilar máls hvattir til þess að skrá hjá sér atvik og hegðun sem um ræðir. Skrá ætti tíma og dagsetningar, nöfn þeirra sem voru viðstaddir og aðstæður þegar atvik átti eða áttu sér stað. Öll mál eru meðhöndluð samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.
- Tryggja skal að aðstæður þolanda á meðan á málsmeðferð stendur séu þannig gerðar að hann sé ekki útsettur frekar, njóti stuðnings og upplifi sig öruggan innan HR. Óheimilt er að flytja þolanda máls til í námi/starfi nema viðkomandi óski þess.
- Meta skal þörf aðila máls fyrir aðstoð í formi sálfræðiaðstoðar eða ráðgjafar.
- Starfsfólk HR og aðrir sem vinna við tiltekið mál verða að virða trúnað og persónuvernd í hvívetna og mega eingöngu ræða mál við þá sem hafa með það að gera.
- Þær aðgerðir sem gripið er til í ferli máls skulu vera í samráði við þolanda.
Ferli máls:
- Fagráð boðar þolanda á fund og fer yfir ástæðu tilkynningar og metur farveg máls. Ef um saknæmt athæfi kann að vera að ræða er þolandi hvattur til að hafa samband við lögregluna. Þá skal þolanda boðin aðstoð ef við á.
- Fagráð hefur samband við meintan geranda í málinu og boðar á fund þar sem viðkomandi er gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Þá skal meintum geranda boðin aðstoð ef við á.
- Ef tilkynning berst frá öðrum en þolanda boðar fagráð þann aðila til fundar.
- Að loknum viðtölum ákveður fagráð hvort taka skuli málið til formlegrar eða óformlegrar málsmeðferðar.
- Óformleg málsmeðferð felur í sér að rætt er við aðila máls og þeim veittur stuðningur í formi trúnaðarsamtala eða ráðgjafar og tillögur gerðar til lausnar á vandanum. Aðrir eru ekki upplýstir um málið. Málið er skráð svo hægt sé að fylgja því eftir. Mál fer eingöngu í óformlegan farveg ef þolandi óskar þess.
- Ef að mál er tekið til formlegrar málsmeðferðar er málið rannsakað frekar með hliðsjón af eðli máls. Fagráð fær aðgang að þeim gögnum sem tilheyra málinu. Til að mögulegt sé að grípa til viðeigandi aðgerða innan deildar til að vernda þolanda, kann að vera nauðsynlegt að upplýsa deildarforseta um málið. Slíkt er alltaf gert í samráði við þolanda.
- Fagráð sendir niðurstöðu sína með skriflegum hætti til stjórnanda viðkomandi deildar og rektors þegar um formlega málsmeðferð er að ræða. Komist fagráð að þeirri niðurstöðu að um brot hafi verið að ræða, leggur fagráðið fram tillögu að viðbrögðum til viðkomandi stjórnanda og rektors, sem taka ákvarðanir í framhaldinu.
Bráðabirgðaúrræði:
Fagráð getur gripið til úrræða á grundvelli viðbragðsáætlunar á meðan mál eru til meðferðar hjá fagráðinu, í samráði við þolanda. Slík úrræði eru bráðabirgðaúrræði sem falla niður þegar endanleg niðurstaða fagráðs liggur fyrir. Þá geta tekið við önnur úrræði samkvæmt ákvörðun deildarforseta eða rektors, telji fagráðið að um brot hafi verið að ræða.
Bráðabirgðaúrræði af þessari gerð geta reynst nauðsynleg í þeim tilvikum sem mál eru til meðferðar hjá lögreglu, en ekki er talið tækt að rannsókn fagráðs fari fram samhliða lögreglurannsókn. Að sama skapi þarf HR að geta brugðist við og tryggt aðstæður þolanda. Í slíkum tilvikum getur fagráð tekið bráðabirgðaákvörðun sem er í gildi þar til meðferð máls lýkur hjá lögreglu eða dómstólum. Eftir að málsmeðferð lýkur getur málsmeðferð fagráðs samkvæmt viðbragðsáætlun haldið áfram.
Úrræði
Teljist brot hafa verið framið koma eftirtalin úrræði til greina, meðal annars:
- Lausnamiðuð leið fyrir aðila málsins.
- Sáttafundir.
- Geranda gert að sinna námi sínu í fjarnámi.
- Formleg áminning geranda.
- Tímabundin eða varanleg brottvikning geranda ef ekki er brugðist við áminningu, eða önnur úrræði hafa ekki skilað árangri. Í mjög alvarlegum tilvikum getur komið til fyrirvaralausrar brottvikningar.
Viðbrögð við brotum eru ákveðin af rektor og/eða stjórnanda viðkomandi deildar/sviðs sem heimild hafa til að vinna með starfsfólki og nemendum með ýmiskonar úrræði, veita áminningu eða víkja úr starfi/námi.
Öllum málum verður fylgt eftir gagnvart málsaðilum og metið hvort hegðun hafi haldið áfram í einhverri mynd. Eftirfylgni er á ábyrgð þeirrar deildar eða einingar sem tekur ákvörðun um úrræði. Miðað er við að eftirfylgni eigi sér stað um 6 vikum eftir að fagráð hefur skilað niðurstöðum.
Ábyrgð og endurskoðun
Rektor ber ábyrgð á að framfylgja viðbragðsáætlun þessari. Einnig bera stjórnendur deilda/sviða ábyrgð á því að öllum ákvæðum viðbragðsáætlunarinnar sé framfylgt. Stefna þessi og áætlun skal kynnt öllum nemendum og starfsfólki.
Viðbragðsáætlun þessi er metin og endurskoðuð á þriggja ára fresti, eða oftar ef tilefni er til. Ábendingum og tillögum varðandi áætlunina skal komið á framfæri við lögfræðing HR.
Viðbragðsáaætlun þessi var samþykkt af framkvæmdastjórn í október 2012
Viðbragðsáætlunin var endurskoðuð í framkvæmdaráði í mars 2019
Viðbragðsáætlunin var endurskoðuð í framkvæmdaráði í maí 2023
Viðbragðsáætlunin var endurskoðuð í framkvæmdaráði í desember 2024