Félagslíf
Auðvelt að kynnast
Það er öflugt félagslíf í Háskólanum í Reykjavík. Nemendur mynda náið samfélag og kynnast sín á milli um leið og námið hefst, bæði í gegnum viðburði hjá nemendafélögum og í gegnum námið sjálft.
Viðburðir
Fljótlega eftir nýnemadaginn skipuleggja öll nemendafélögin útilegu sem veitir nemendum gott tækifæri til að kynnast samnemendum sínum á fyrstu dögum skólans.
Nemendafélög deilda sjá um að halda flesta viðburði og það er á þeirra könnu að skipuleggja fjöldamargar vísindaferðir í fyrirtæki, oft á hverjum föstudegi. Vísindaferðirnar gefa nemendum sýn á vinnumarkaðinn og möguleg framtíðarstörf, auk þess að vera góður vettvangur til að hrista hópinn saman.

Nemendafélögin skipuleggja líka skíðaferðir, aðrar ferðir innanlands, málfundi, próflokafögnuði, nýnemadjamm, keppnir við nemendafélög í öðrum háskólum og fleira. Það er haldin stór árshátíð fyrir alla nemendur á hverju ári, en auk þess heldur hvert nemendafélag sína árshátíð.
Nemendafélögin
Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík (SFHR) er hagsmunafélag nemenda við Háskólann í Reykjavík. Allir nemendur skólans eru sjálfkrafa meðlimir félagsins og þurfa ekki að borga félagsgjöld. SFHR var stofnað til að mynda einingu milli nemenda og að starfa í þágu nemenda bæði innan og utan skólans.
Ef þú hefur einhverjar spurningar til okkar getur þú sent okkur tölvupóst á studentafelag@studentafelag.is, hitt á okkur á skrifstofu okkar í mars, stofa M205 eða haft samband á Facebook síðu félagsins (undir nafninu Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík).
Nemendur geta tekið þátt í nefndarstarfi innan Stúdentafélagsins SFHR. Með því móti kynnast þeir nemendum úr öðrum deildum og öðlast góða reynslu meðal annars af skipulagningu viðburða.

Landssamtök stúdenta
Háskólinn í Reykjavík er aðili að Landssamtökum stúdenta (LÍS) og eru nokkrir nemendur HR í framkvæmdastjórn samtakanna. Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) voru stofnuð 13. nóvember 2013 og eru samtök háskólanema á Íslandi sem og íslenskra háskólanema á erlendri grundu. LÍS eru regnhlífarsamtök en að þeim standa átta aðildarfélög sem eru í forsvari fyrir stúdenta við Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst, Háskóla Íslands, Háskólann á Hólum, Háskólann í Reykjavík, Landbúnaðarháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands og íslenska stúdenta sem stunda nám erlendis. LÍS er því í forsvari fyrir um rúmlega 20 þúsund íslenska stúdenta.
Nefndir
Nemendur geta tekið þátt í nefndarstarfi innan Stúdentafélagsins. Með því móti kynnast þeir nemendum úr öðrum deildum og öðlast góða reynslu af meðal annars skipulagningu viðburða. Nefndirnar eru árshátíðarnefnd, Birta - félag um samfélagslega ábyrgð og sjálfbærni, jafnréttisfélag , góðgerðarnefnd , málfundafélag , háskólablaðið og viðburðanefnd .

Námið
Í flestum brautum er takmarkaður fjöldi nemenda og það er þó nokkuð um hópverkefni í náminu. Þetta eykur samskipti milli nemenda, bæði innan námskeiða og þvert á allar deildir. Strax á fyrsta árinu er nemendum úr öllum deildum skipað handahófskennt í hópa sem þurfa að leggja fram viðskiptahugmynd á þremur vikum í námskeiðinu Nýsköpun og stofnun fyrirtækja. Nemendur í tækni- og verkfræðideild verða að snúa bökum saman strax á fyrstu önninni og leysa viðamikið verkefni á þremur dögum.
Vissir þú að: Þeir nemendur sem bestum árangri ná á hverri önn eiga möguleika á að komast á forsetalista og fá skólagjöld næstu annar niðurfelld.