Námið
Rannsóknir
HR
Tæknifræðideild

Byggingafræði

Námstími
3,5 ár
Einingar
210 ECTS
Prófgráða
BSc
Lögverndað starfsheiti
Byggingafræðingur
Skiptinám mögulegt
Fjarnám mögulegt
Nei

Hvað læri ég?

Byggingafræðingar fást við hönnun nýbygginga og endurgerð gamalla húsa, samningagerð við verktaka, kostnaðarmat, gerð raunteikninga, hönnun eldvarna og hljóðeinangrunar og margt fleira. Sérþekking þeirra er eftirsótt á vinnumarkaðnum og hún nýtist í auknum mæli við hönnun og byggingu stærri og minni mannvirkja.

Fjölbreytt og hagnýtt nám

HR er eini háskólinn á Íslandi sem kennir byggingafræði. Byggingafræði er 210 ECTS nám sem veitir BSc-gráðu og löggilt starfsheiti sem byggingafræðingur. Að námi loknu eiga nemendur að vera færir um að sinna fjölbreyttum störfum í byggingaiðnaði og atvinnulífi og þá sérstaklega sem fagaðilar milli byggingahönnuða, byggingayfirvalda og framkvæmdaraðila.

Námsgreinar

Efnisþættir í náminu eru meðal annars arkitektúr, byggingartækni, efnisfræði helstu byggingaefna, grunnatriði í burðarvirkjahönnun, lagnahönnun, framkvæmdafræði, tölvustudd hönnun, lögfræði, stjórnun og rekstur, mælingar, viðgerðir og endurbætur, samskipti, skipulag og áætlanagerð, hljóðfræði, vistvæni og sjálfbærni.

Hvernig læri ég?

Fyrri hluti - fjarnám: Grunnur í byggingagreinum

Nemendur byrja námið á því að fá góða undirstöðu með því að ljúka fjölbreyttum námskeiðum í byggingagreinum. Grunnurinn er kenndur í fjarnámi með tveimur staðarlotum á önn, eina helgi í senn. Í sumum námskeiðum eru staðarloturnar nýttar fyrir verklegar æfingar og einnig er farið í fyrirtæki og verkefni unnin í raunumhverfi.

Nemendur þurfa að ljúka öllum námskeiðum fyrri hluta námsins (3 annir, 90 ECTS) áður en byrjað er á seinni hluta þess. Möguleiki er að dreifa fyrri hluta námsins yfir fleiri námsannir.

Nemendur í byggingafræði eru skráðir með nemendum í diplómanámi í byggingariðnfræði í flestum námskeiðum og í tíma í staðarlotum.

Seinni hluti - staðarnám: Læra af sérfræðingum

Síðari hluti námsins miðar að því að leysa flókin og spennandi verkefni. Í náminu er unnið með PBL (e. Project Based Learning) eða að læra með því að gera. Þar knýja raunhæf verkefni námið áfram þar sem nemendur þurfa að tileinka sér þá þekkingu og hæfni sem þau hafa fengið í náminu fram að því og þurfa jafnframt að geta borið sig eftir leikni og hæfni sem upp á vantar.

Verkefnin vinna nemendur í sjálfstæðri vinnu og undir leiðsögn breiðs hóps kennara sem hafa mikla hagnýta reynslu af hönnun og framkvæmdum. Leitast er við að nota framsæknar, tölvustuddar aðferðir við hönnun. BIM (e. Building Information Modeling) er rauður þráður í náminu.

Seinni hluti námsins er byggður upp þannig að náminu er skipt upp í fjórar staðarlotur á önn. Í staðarlotum er lögð áhersla á innlögn, fyrirlestra og endurgjöf fyrir verkefni og verklag næstu fjögurra vikna fram fram að næstu staðarlotu. Milli staðarlota er verkefnavinna hópa og einstaklinga, allt eftir námskeiðum. Viðvera kennara námskeiða er í stofu í miðri viku þar sem nemendur hafa aðgang að þeirri aðstoð sem nauðsynleg er í þeim verkefnum sem lögð eru fyrir í staðarlotum.

Undanfari fyrir seinni hluta námsins er að hafa lokið 90 ECTS (fyrri hluta) og ekki er hægt að taka önnur námskeið samhliða en þau sem eru á námsáætlun. Þar sem námskeið hverrar annar tengjast verður að taka öll námskeið á námsáætlun hverrar annar saman, ekki hægt að taka færri en 30 einingar á önn.

Fræðin notuð um leið

Frá fjórðu önn eru fræðileg stoðnámskeið keyrð samhliða verkefnunum og stillt af þannig að sú þekking sem er verið að miðla nýtist nemendum einmitt á réttum tíma í stóru annarverkefnunum. Þannig verða stoðnámskeiðin eðlilegur hluti af vinnu nemenda.

Dæmi um verkefni sem unnin eru yfir heila önn:

  • Hönnun á nýju fjölbýlishúsi samkvæmt forskrift á lóð sem nemendur fá úthlutað
  • Endurbætur- og endurnýjunaráætlanir fyrir eldra húsnæði ætlaðar til að færa það til nútímans og útboð
  • Að útbúa forsögn fyrir fyrirtæki sem vantar nýtt iðnaðar-, framleiðslu- og skrifstofuhúsnæði og hanna í framhaldi af því stórspennta 2-3000 m2 byggingu sem mætir þeim þörfum

Dæmi um stoðámskeið sem vinnast sem hluti af stóru hönnunarverkefnunum:

  • Hönnun á loftræsikerfi og greiningar
  • Hönnun á lagnakerfi og greiningar
  • Hljóðhönnun, brunahönnun og greiningar
  • Byggingareðlisfræði, orkurammar, kólnunartölur og varmatap
  • Verkefnastjórnun, áætlanir og skipulag
  • Vistvæn hönnun bygginga og byggingatækni
  • Framkvæmdafræði, verkáætlanagerð, útfærsla og byggingastjórnun
Lokaverkefni

Á síðustu önn náms vinna nemendur 20 ECTS eininga lokaverkefni. Nemendur skrifa annað hvort hreint hönnunarverkefni eða blöndu af hönnunarverkefni og framkvæmda- eða rekstrarverkefni. Þar beita nemendur því sem þeir hafa lært í undangengnu námi á heildstæðan hátt í úrlausn umfangsmikils byggingafræðilegs viðfangsefnis. Þar skiptir máli að nemendur tileinki sér vönduð vinnubrögð við gagnaöflun, úrvinnslu gagna, notkun staðla, og reglugerða og við tilvísanir í heimildir. Einnig er vinna lokaverkefnis þjálfun í að halda til haga gögnum gegnum hönnunarferlið, svo sem skissuteikningum, tímaáætlunum, fjölda vinnustunda við verkefnið o.s.frv.

Nemendur skila einnig inn 10 ECTS eininga ritgerð um sérhæft efni að eigin vali. Ritgerðin fjallar um einhvern þátt sem tengist störfum byggingafræðings í atvinnulífinu. Nemendur hafa t.d. skrifað um hampsteypu sem byggingarefni, loftræsingu og myglu, umhverfisvottanir, áhrif regluverks á arkitektúr, byggingahraða í mannvirkjagerð á Íslandi, CLT einingar og gróðurþök í borgarumhverfi.

Mikilvæg þjálfun

Nemendur hljóta þjálfun í að leysa verkefni þar sem hópavinna og samskipti skipta miklu máli. Mikilvægt er að fá slíka þjálfun þar sem byggingafræðingar starfa með mörgum aðilum úr mismunandi faggreinum, til að mynda iðnaðarmönnum, byggingaryfirvöldum, verkfræðingum og arkitektum. Nemendur fá jafnframt góða þjálfun í að miðla þekkingu sinni áfram á skýran og skilvirkan hátt.

Starfsnám

Starfsnám er mikilvægur þáttur í BSc-námi í byggingafræði. Starfsnámið undirbýr nemendur vel fyrir kröfur vinnumarkaðarins að námi loknu. Nemendur ljúka 6-8 vikna starfsnámi hjá fyrirtækjum þar sem þeir fá tækifæri til að nýta þekkingu sína og kynnast því hvernig tekist er á við hagnýt og raunveruleg verkefni. Starfsnám er síðasta námskeiðið sem byggingafræðinemar taka áður en þeir fara í lokaverkefni.

Nemendur eru sjálfir ábyrgir fyrir því að finna sér hentugan starfsnámsstað eftir áhugasviði en umsjónarkennari námskeiðsins er nemendum innan handar við leit að starfsnámi. Mikil eftirspurn er eftir byggingafræðinemum í atvinnulífinu og eru starfsnámsstaðir einmitt oft fyrsti vinnustaður nýútskrifaðra byggingafræðinga.

Dæmi um fyrirtæki og stofnanir sem hafa tekið við byggingafræðinemum í starfsnám:

  • Arkís arkitektar
  • ÍAV
  • ÍSTAK
  • VÍS
  • EFLA
  • Batteríið arkitektar
  • Verkís
  • Límtré Vírnet
  • arkitektur.is
  • Basalt Architects
  • Mannvit
  • VSÓ ráðgjöf
  • Verksýn
  • BM Vallá/Smellinn
  • ASK arkitektar
  • Byggingafulltrúaembættin og byggingaverktakar
  • Nordic Office of Architecture ehf

Að námi loknu

Verkefni byggingafræðinga

Byggingafræðingar hafa breitt þekkingarsvið og vinna því við fjölbreytt störf tengd byggingariðnaði. Byggingafræðingar starfa meðal annars við hönnun mannvirkja og eftirlit og stjórnun framkvæmda. Þekking þeirra á byggingaferli, efnisvali og verkefnastjórnun er afar dýrmæt.

Starfsvettvangur

Við útskrift bíður byggingafræðinga fjölbreyttur og spennandi starfsvettvangur. Margir byggingafræðingar starfa hjá teiknistofum, arkitekta- og verkfræðistofum og hjá verktakafyrirtækjum sem verkefnastjórar eða byggingarstjórar. Byggingafræðingar starfa jafnframt hjá tryggingafélögum, fasteignafélögum, bönkum, fasteignasölum, fyrirtækjum í byggingariðnaði og hjá hinu opinbera.

Byggingafræðingar eiga möguleika á að verða löggiltir hönnuðir að uppfylltum skilyrðum og að undangengnum þriggja ára starfstíma, námskeiði og prófi á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þau geta þá starfað sem sjálfstæðir hönnuðir með réttindi til að skila inn aðaluppdráttum, uppdráttum að skipulagi lóða og tilheyrandi deiliuppdráttum.

Þau sem ljúka BSc-námi í byggingafræði, eru með sveinsbréf og hafa lokið tilskildum starfstíma geta jafnframt sótt um meistarabréf í tilsvarandi iðngrein, en HR ber ekki ábyrgð á að gefa út slík leyfi.

Framhaldsmenntun & endurmenntun

Byggingafræðingar geta sótt mastersnám, diplómanám og hin ýmsu námskeið til endurmenntunar. Möguleikarnir á framhaldsnámi eru fjölmargir, bæði hérlendis og erlendis

Dæmi um námskeið:

  • Framkvæmda- og verkefnastjórnun
  • Skipulagsfræði
  • Umhverfisfræði
  • Byggingarhagfræði
  • Orkufræði
  • Brunahönnun
  • Fasteignastjórnun
  • BIM - Tölvustudd hönnun
  • Hönnun og byggingarlist
  • Kennslufræði
  • Upplýsingatækni í mannvirkjagerð
Lögverndað starfsheiti

Á ensku kallast BSc-gráða í byggingafræði Bachelor of Architectural Technology and Construction Management. Að lokinni BSc-gráðu í byggingafræði geta nemendur sótt um löggilt starfsheiti sem byggingafræðingar. Það er Byggingafræðingafélag Íslands sem setur skilyrði til löggildingar og gefur út leyfi fyrir notkun starfsheitisins. Þetta er samkvæmt lögum nr. 8/1996 um löggildingu starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum. Sótt er um löggildingu á vef félagsins.

Flest sem ég geri í vinnunni hefur snertifleti við það sem fór fram í náminu. Verklagið, ferlarnir og aðferðirnar voru kenndar og kynntar fyrir okkur á mjög skilvirkan hátt, þar sem við unnum stór verkefni líkt og um raunverulegt verk væri að ræða. Eftir nám í byggingafræði eru viðfangsefni vinnumarkaðarins því líkt og beint framhald. Einnig eru möguleikar á sérhæfingu margvíslegir og þannig er vel hægt að móta þekkinguna og reynsluna að ólíkum viðföngum og áhugasviðum innan fagsins

Auður Ástráðsdóttir
Byggingafræðingur hjá arkitektastofunni ARK STUDIO

Inntökuskilyrði

Nauðsynlegur undirbúningur

Umsækjendur skulu hafa lokið einhverju af neðantöldu:
  • Burtfararprófi í iðngrein á byggingarsviði
  • Stúdentsprófi
  • Tækniteiknaranámi
  • Byggingariðnfræði í HR
  • Háskólagrunni HR
Undirstöðugreinar

Til viðmiðunar er lágmarksundirbúningur í undirstöðugreinum:
  • Stærðfræði 20 einingar
    • Miðað er við áfanga af náttúrufræðibraut, þ.e. gert er ráð fyrir að umsækjandi hafi lokið áföngum í hornaföllum og vigrum og hafi leikni í algebru, jöfnum og útreikningum flatarmáls.
  • Eðlisfræði 5 einingar 
    • Einn áfangi úr framhaldsskóla
  • Íslenska 20 einingar
  • Enska 15 einingar

Varðandi inntöku á haustönn 2026

Á haustönn 2026 verða að hámarki 40 nemendur teknir inn í BSc í byggingafræði við HR.

Það er mjög ánægjulegt að sjá þann mikla áhuga á náminu sem lýsir sér í auknum fjölda umsókna. Þar sem við viljum tryggja gæði námsins, og þá sérstaklega á síðustu 4 önnunum þegar mikil og persónuleg endurgjöf frá kennurum á sér stað, teljum við að með því að takmarka fjölda nemenda verði hópurinn þéttur og öflugur og eigi eftir að láta til sín taka á vinnumarkaðnum á næstu árum.

Við val á nemendum verður m.a. tekið mið af menntun, námsárangri, starfsreynslu, annarra fylgigagna, auk kynningarbréfs sem við biðjum umsækjendur um að senda inn.

Leiðbeiningar:

  • Í kynningarbréfinu á að vera útskýrt er af hverju sótt er um nám í byggingafræði. Bréfið á að vera faglegt og málefnalegt.
  • Reynið að einblína á framtíðina, hvernig þið sjáið ykkur fyrir að nýta menntunina og framtíðarhugsjón.
  • Takið fram allt sem getur stutt við umsóknina, t.d. námskeið eða aðra menntun þó hún sé ekki til gráðu eða er ólokin.
  • Námið tekur í heild 7 annir í fullu námi. Fyrstu 3 annirnar eru í fullu fjarnámi en síðan tekur við staðarnám með mikilli hópavinnu. Er fyrirkomulag námsins þannig að þú getir sinnt því af heilindum og metnaði?
  • Bréfið verður að vera minna en 1 bls. vistað sem PDF skjal og hlaðið inn sem fylgiskjal á umsóknarvefinn og skal nafn ykkar koma fram í heiti þess.

Ferlið 2026

  • 5. júní   
    Umsóknarfresti lýkur
  • 12. júní 
    Umsækjendum tilkynnt um hvort þeir fái boð um skólavist eða séu á biðlista. Þau sem ekki staðfesta boð um skólavist innan 3 daga missa sinn stað í röðinni og er ekki tryggt pláss við skólann.
  • 19. júní   
    Nemendur sem fá boð um skólavist fá sendan greiðsluseðil í heimabanka með staðfestingargjaldi sem er á eindaga 19. júní. Hafi greiðsluseðill ekki verið greiddur fyrir hann tíma er litið svo á hætt hafi verið við umsókn og einstaklingi af biðlista boðið pláss.

*Birt með fyrirvara um að dagsetingar geta breyst

Byggingafræði - seinni hluti

Opið verður fyrir umsóknir í seinni hluta byggingafræðinnar sem hefst í janúar 2026 frá 1. - 15. október 2025. Eingöngu þau sem hafa lokið Byggingafræði - fyrra hluta eða Byggingariðnfræði geta sótt um.

Námið nýttist einstaklega vel til undirbúnings fyrir þetta starf. Það hvernig maður lærir að leita sér þekkingar hefur reynst afar vel. Námið er byggt upp að miklu leyti eins og maður sé á vinnumarkaðnum og það skilar sér svo sannarlega.

Ari Þorleifsson
Byggingafræðingur hjá Basalt arkitektum

Námið í byggingafræði var einstaklega áhugavert nám með góðum kennurum sem höfðu praktíska reynslu úr atvinnulífinu. Námið var góð blanda af bóklegum og verklegum fögum þar sem kennslan var mjög persónuleg. Eftir námið hef ég stundað vinnu við bygginga-, verkefna- og nú mannauðsstjórn og hefur námið hjálpað mér að vera skipulagður, setja mér markmið og vinna að þeim.

Magni Helgason
Verkefnastjóri hjá Eykt

Skipulag náms

Innritun að hausti

Námið hefst alltaf á haustönn.

Skiptist í tvo hluta

Fyrri hluti námsins er 90 ECTS einingar, kennt í fjarnámi. Síðari hluti námsins er 120 ECTS eininga verkefnamiðað nám, kennt í staðarnámi með staðarlotum. Alls eru fyrri og seinni hluti námsins 210 ECTS.

Lengd náms

BSc í byggingafræði gerir ráð fyrir að nemendur séu í fullu námi og ljúki fyrri hluta námsins á þremur önnum í fjarnámi.
Seinni hluti námsins fer fram í fullu staðarnámi og tekur tvö ár. Heildar námstími er því 7 annir eða 3,5 ár í fullu námi.

Nemendur sem innrituðust fyrir 2021 fylgja enn sínu eldra skipulagi og sjá má á þessum hlekk.

Fyrri hluti: 90 ECTS

Kennt í fjarnámi með tveimur staðarlotum á önn, eina helgi í senn. Í sumum námskeiðum eru staðarloturnar nýttar fyrir verklegar æfingar og einnig er farið í fyrirtæki og verkefni unnin í raunumhverfi. 

Nemendur þurfa að ljúka öllum námskeiðum fyrri hluta námsins (3 annir, 90 ECTS) áður en byrjað er á seinni hluta þess. Möguleiki er að dreifa fyrri hluta námsins yfir fleiri annir.

Nemendur í byggingafræði eru skráðir með nemendum í diplómanámi í byggingariðnfræði í flestum námskeiðum og í tíma í staðarlotum.

Seinni hluti: 120 ECTS

Byggingafræðinámið er byggt upp þannig að því er skipt upp í fjórar staðarlotur á önn þar sem áhersla er lögð á innlögn, fyrirlestra og endurgjöf fyrir verkefni og verklag næstu fjögurra vikna fram að næstu staðarlotu. Milli staðarlota er verkefnavinna hópa og einstaklinga, allt eftir námskeiðum. Viðvera kennara námskeiða er í stofu í miðri viku þar sem nemendur hafa aðgang að þeirri aðstoð sem nauðsynleg er í þeim verkefnum sem lögð eru fyrir í staðarlotum.

Undanfari fyrir seinni hluta námsins er að hafa lokið 90 ECTS (fyrri hluta) og ekki er hægt að taka önnur námskeið samhliða en þau sem eru á námsáætlun. Þar sem námskeið hverrar annar tengjast verður að taka öll námskeið á námsáætlun hverrar annar saman, ekki hægt að taka færri en 30 einingar á önn.

Haust
Inngangur að byggingafræði
BF INN1003 / 6 ECTS
Tölvustudd hönnun í Revit og Autocad
BI HON1003 / 6 ECTS
Burðarþolsfræði
AI BUÞ1003 / 6 ECTS
Reikningshald
AI REH1103 / 6 ECTS
Efnisfræði byggingarefna
BI EBE1003 / 6 ECTS
Vor
Burðarþol byggingarvirkja
BI BUÞ2013 / 6 ECTS
Byggingarfræði – byggingartækni
BI BFR1013 / 6 ECTS
Stjórnun, rekstur og öryggi
AI STJ1002 / 4 ECTS
Framkvæmdafræði og verkstjórn
BF FRV1003 / 6 ECTS
Steinsteypa – efnisfræði og viðhald
BI EFN1013 / 6 ECTS
Upplýsingalíkön í mannvirkjagerð
BI BIM1001 / 2 ECTS

Aðstaða

Þjónusta og góður aðbúnaður
Kennsla í staðarlotum fer fram í háskólabyggingu HR. Þar er lesaðstaða og bókasafn, aðstaða til verklegrar kennslu, hópavinnuherbergi, mötuneyti, náms- og starfsráðgjöf og önnur þjónusta við nemendur.

Verkleg kennsla
Í HR er áhersla lögð á verkkunnáttu og þjálfun ásamt fræðilegri undirstöðu. Því er aðstaða til verklegrar kennslu til fyrirmyndar.

Byggingastofa
Í náminu hafa nemendur aðgang að byggingastofu sem er þar er bilið brúað milli þess fræðilega og þess hagnýta.

Kennslustofur og lesaðstaða
Húsnæði Háskólans í Reykjavík býður upp á afar góða aðstöðu til kennslu, lesturs og samvinnu nemenda. Kennslustofur eru vel búnar og nemendur geta nýtt sér hópavinnuherbergi. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn.
Nemendur í fyrri hluta byggingafræði geta víða á landsbyggðinni fengið aðstöðu til náms og hópavinnu í símenntunarstöðvum, fræðslusetrum og háskólasetrum, en á höfuðborgarsvæðinu býðst nemendum vinnuaðstaða í HR. Upplýsingar um slíka aðstöðu utan Reykjavíkur er að finna hjá sveitarfélögum.

Góð þjónusta
Í háskólabyggingunni er greiður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, alþjóðaskrifstofu og tækniaðstoð. Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða. Safnið býður aðgang að bókum og fræðigreinum og upplýsingafræðingar eru með opna tíma þar sem nemendur geta litið við og fengið ráðleggingar og aðstoð vegna heimildavinnu.

Námstími
3,5 ár
Einingar
210 ECTS
Prófgráða
BSc
Lögverndað starfsheiti
Byggingafræðingur
Skiptinám mögulegt
Fjarnám mögulegt
Nei
Guðrún Lilja Guðmundsdóttir
Verkefnastjóri byggingafræði, iðnfræði og rekstrarfræði

Kennarar

Vísindamenn og sérfræðingar

Nemendur í byggingafræði njóta leiðsagnar öflugra vísindamanna á fagsviðinu, bæði tæknifólks og hönnuða. Kennarar við HR eru að jafnaði í miklum samskiptum við nemendur. Byggingafræði heyrir undir byggingasvið tæknifræðideildar.

Stundakennarar

Meðal þeirra sem koma að kennslu í byggingafræði er fjöldi stundakennara sem færa atvinnulífið beint inn í skólastofurnar og miðla fræðslu um verklag og verkefni sem þeir eru að fást við hverju sinni.

Námsbrautarstjóri BSc-náms í byggingafræði er Viggó Magnússon, byggingafræðingur.

Aldís Ingimarsdóttir
Aðjúnkt og fagstjóri byggingasviðs, kennari í jarðtækni
Eyþór Rafn Þórhallsson
Dósent og kennari í burðarþoli
Guðbrandur Steinþórsson
Dósent, emerítus og kennari í burðarþoli
Jóhann Albert Harðarson
aðjúnkt og kennari í burðarþoli
Viggó Magnússon
Aðjúnkt og námsbrautarstjóri

Af hverju byggingafræði við HR?

  • Löggilt starfsheiti sem byggingafræðingur
  • Fjölbreytt og hagnýtt nám
  • Raunhæf og spennandi verkefni
  • Góð aðstaða til bóklegs og verklegs náms
  • Traust undirstaða
  • Hagnýt og raunhæf verkefni
  • Gríðarlega góð aðstaða
  • Öll kennsla fer fram í Háskólanum í Reykjavík
Fara efst