Iðnaðar- og orkutækni-fræði á Norðurlandi
Hvað læri ég
Í tæknifræði er lögð áhersla á að byggja upp verkvit, fræðilega fagþekkingu og tengsl við atvinnulífið. Námið er tilvalið fyrir þau sem vilja geta hafið starfsferil sinn strax að loknu BSc–námi. Þeir sem útskrifast með lokapróf í tæknifræði hljóta lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur.
Iðnaðar- og orkutæknifræðingar fást við hluti sem eru allt í kringum okkur svo sem í orkuiðnaði, í iðn- og framleiðslufyrirtækjum. Framfarir á sviði endurnýjanlegra orkugjafa opna fyrir ótal tækifæri í virkjun vatnsorku, vindorku og sjávarfallaorku. Ör þróun er fyrirsjáanleg í faginu með tilkomu nýjunga í orkutæknifræði.
Þekking og færni
Í lærdómsviðmiðum má sjá hvaða þekkingu, leikni og hæfni nemendur eiga að búa yfir að námi loknu.
„Maður fær þá tilfinningu í náminu að áfangarnir muni nýtast vel í framtíðinni og ég er spenntur fyrir framhaldinu og því sem við lærum næst. “
Emil Grettir Ólafsson - Nemandi í tæknifræði
Hvernig læri ég?
Námið er verkefnatengt
Nám í iðnaðar- og orkutæknifræði er kennt í staðarnámi við Háskólann á Akureyri. Námið er tæknifræðinám við Háskólann í Reykjavík og eru nemendur skráðir nemendur við HR og greiða þangað skólagjöld. Í HA hlýða nemendur á fyrirlestra í beinu streymi á sama tíma og kennsla fer fram í HR. Aðstoðarkennari mun sjá um dæmatíma og aðstoða nemendur í HA. Gert er ráð fyrir að nemendur séu í fullu námi í dagskóla, 30 ECTS á hverri önn.
Nemendur halda hópinn
Verkefnafulltrúi í HA heldur utan um nemendur og námið. Nemendur á Akureyri eru meðlimir í nemendafélaginu við tæknifræðideild HR, Technis, sem og SFHR, stúdentafélagi Háskólans í Reykjavík. Einnig er nemendum boðið að gerast meðlimir í stúdentafélaginu við Háskólann á Akureyri, SHA.
Viðamikið lokaverkefni
Nemendur ljúka lokaverkefni á sjöundu og síðustu önn námsins. Lokaverkefnið byggist á sérhæfingu hvers og eins og það má vinna í samvinnu við fyrirtæki t.d. á Norðurlandi.
CDIO-samstarfsnetið
Tæknifræðideild er aðili að samstarfsneti um að þróa og bæta kennslu í tæknifræði, CDIO (Conceive, Design, Implement, Operate). Í dag eru um 100 háskólar frá öllum heimshornum þátttakendur og vinna þeir kerfisbundið að því að þróa námsbrautir í tæknifræði og verkfræði með áherslu á þarfir atvinnulífsins.
Í tæknifræði við HR er færni í hugmyndavinnu, verkefnastjórnun, samskiptum og kynningum þjálfuð í ýmsum námskeiðum gegnum allt námið.
Í CDIO-aðferðafræðinni er lögð áhersla á samráð háskóla og atvinnulífs og fagfélaga. Mótun námsbrauta í anda CDIO á að tryggja að nemendur öðlist lausnamiðaða og tæknilega færni sem vinnuveitendur sækjast eftir án þess að slegið sé af fræðilegum kröfum.
Tölvur í náminu
Nauðsynlegt er að hafa góða tölvu í tæknifræðináminu. Mörg forrit sem eru notuð eru eingöngu til fyrir Windows stýrikerfi en kjósi nemendur frekar að nota Apple tölvur er mikilvægt að þær séu nógu öflugar til að keyra forritin í virtual umhverfi. Þar sem er unnið mikið með teikningar er einnig mikilvægt að tölvan sé með gott skjákort. Sem dæmi má nefna að AutoCAD hefur gefið út viðmið fyrir forritin frá þeim sem má finna hér.
Að námi loknu
Lögverndað starfsheiti
Þau sem ljúka lokaprófi í tæknifræði (BSc) hljóta staðfestingu viðkomandi ráðuneytis og lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur sbr. Certified Engineer.
Þau sem ljúka BSc-námi í tæknifræði, eru með sveinsbréf og hafa lokið tilskildum starfstíma geta jafnframt sótt um meistarabréf í tilsvarandi iðngrein, en HR ber ekki ábyrgð á að gefa út slík leyfi.
Fjölbreyttur starfsvettvangur
Starfssvið iðnaðar- og orkutæknifræðinga er fjölþætt. Þeir starfa meðal annars við hönnun, stjórnun, eftirlit, ráðgjöf, þróun og nýsköpun. Þeir vinna á verkfræðistofum, í framleiðslufyrirtækjum, í iðnaði og hjá orkufyrirtækjum.
Frekara nám
Tæknifræðinám veitir góða undirstöðu fyrir framhaldsnám í verkfræði á tengdum sviðum innanlands sem erlendis.
Ég er mjög hrifin af náminu í HR. Alla vega í tæknifræðinni erum við mjög samheldin hópur. Það eru allir að hjálpa öllum. Það er mikil samvinna þrátt fyrir að allir eru að gera sitt
Maður fær þá tilfinningu í náminu að áfangarnir muni nýtast vel í framtíðinni og ég er spenntur fyrir framhaldinu og því sem við lærum næst.
Skipulag náms
Nám í BSc Iðnaðar- og orkutæknifræði er 210 ECTS einingar, sem skiptast í skyldunámskeið, valnámskeið, starfsnám og lokaverkefni.
Í náminu eru annir brotnar upp í tvo hluta. Fjögur námskeið eru kennd í 12 vikur og síðan er prófað úr þeim. Að prófum loknum taka við þriggja vikna námskeið þar sem námsefnið er sett í hagnýtt samhengi með verkefnavinnu, hópavinnu og/eða samstarfi við fyrirtæki.
Öll námskeið fyrstu annar í tæknifræði verða kennd samtímis skv. 15 vikna skipulagi. Nemendur á öðrum önnum fylgja hefðbundnu 12+3 skipulagi.
Hér má finna námsáætlun í iðnaðar- og orkutæknifræði (PDF)
Þriggja vikna námskeið í tæknifræði
Í náminu eru annir brotnar upp í tvo hluta. Fjögur námskeið eru kennd í 12 vikur og síðan er prófað úr þeim. Að prófum loknum taka við þriggja vikna námskeið þar sem námsefnið er sett í hagnýtt samhengi með verkefnavinnu, hópavinnu og/eða samstarfi við fyrirtæki.
Raunveruleg verkefni
Nemendur taka þátt í spennandi hönnunarverkefnum strax á fyrsta ári. Stærri verkefni eins og lokaverkefni, eru oftast unnin í samvinnu við fyrirtæki og stofnanir.
Á fyrsta námsári standa nemendur frammi fyrir raunhæfu verkefni sem þarf að takast á við og skoða frá mörgum hliðum. Námskeiðið heitir Inngangur að tæknifræði. Nemendur vinna í hópum við að útfæra lausnir og leysa þau fjölmörgu vandamál sem upp gætu komið. Þeir kynna svo niðurstöður sínar fyrir leiðbeinendum og öðrum nemendum.
Viðfangsefni nemenda hafa meðal annars verið:
- Endurbætur á húsnæði Veraldarvina á Brú í Hrútafirði
- Færanlegar hraðhleðslustöðvar fyrir Bræðsluna
- Hönnun nýs þjóðarleikvangs
- Að koma fram með nýstárlegar hugmyndir að brú yfir Fossvoginn
- Gerð aðgerðaráætlunar vegna eldgoss í nágrenni Reykjavíkur
- Gerð aðgerðaráætlunar vegna bólusóttarfaraldurs
- Umsóknarfrestur: Frá 5. febrúar til 5. júní.
- Nám í iðnaðar- og orkutæknifræði er kennt í staðarnámi við Háskólann á Akureyri.
Aðstaða fyrir tæknifræðinema
Þjónusta í tveimur háskólum
Nemendur fá að nýta sér alla aðstöðu í Háskólanum á Akureyri og eins geta þeir nýtt sér aðstöðuna í Háskólanum í Reykjavík ef þeir kjósa.
Aðstaða í HA
Nemendur sem stunda nám í iðnaðar- og orkutæknifræði við HA eru með sína heimastofu í HA og hafa aðgang að bókasafni, námsráðgjöfum og allri þjónustu sem HA býður nemendum sínum.
Aðstaða í HR
Nemendur geta jafnframt nýtt sér aðstöðu og þjónustu í Háskólanum í Reykjavík.
Kennarar
Nemendur í iðnaðar- og orkutæknifræði njóta leiðsagnar öflugra vísindamanna á fagsviðinu, tæknimanna og hönnuða innan háskólans, og fjölda stundakennara með sérfræðiþekkingu úr atvinnulífinu. Kennarar við HR eru að jafnaði í miklum samskiptum við nemendur og í góðum tengslum við atvinnulífið.
Af hverju tæknifræði í HR?
- Löggilt starfsheiti sem tæknifræðingur
- Nemendur sem eru með sveinspróf geta sótt um meistarabréf í tilsvarandi iðngrein
- Góð aðstaða til bóklegs og verklegs náms
- Öflugt starfsnám
- Traust undirstaða
- Hagnýt og raunhæf verkefni