Mannauðsstjórnun -og vinnusálfræði
Hvað læri ég?
Megináherslan í náminu eru stjórnun, mannauðsmál og vinnusálfræði. Lögð er áhersla á að efla greiningarhæfni, samskiptafærni og getu til þróunar mannauðs og skipulagsheilda.
Að námi loknu eiga nemendur að búa yfir þekkingu á:
- Mannauðsstjórnun, forystu og vinnusálfræði.
- Stefnumörkun og breytingastjórnun.
- Atferli innan skipulagsheilda.
- Verslunarrétti og vinnurétti.
- Mannauðsstjórnun út frá sjónarmiði ferla.
- Alþjóðlegri vinnumarkaðshagfræði.
Munur á gráðum
Menntamálaráðuneytið gefur út viðmið um æðri menntun og prófgráður.
- Samkvæmt viðmiðunum er meistaragráða (MSc) skilgreind sem 90-120 ECTS gráða á meistarastigi sem lýkur með lokaritgerð sem er að lágmarki 30 ECTS.
- Viðmiðin skilgreina einnig aðrar prófgráður á meistarastigi, svokallaðar viðbótargráður á meistarastigi. Slíkar gráður eru á bilinu 30-120 ECTS og eiga það sammerkt að ekki er gerð lokaritgerð, eða að lokaritgerð/lokaverkefni er umfangsminna en 30 ECTS.
- Dæmi um prófgráður á meistarastigi eru MBA-gráða, MPM-gráða og MAcc-gráða, en sú síðastnefnda er til að mynda sú framhaldsgráða sem þeir ljúka sem ætla að leggja fyrir sig endurskoðun.
Val um tvær námsleiðir
Nemendur geta valið á milli þess að taka 90 ECTS eininga MSc-gráðu eða 90 ECTS eininga viðbótargráðu á meistarastigi. Hægt er að ljúka náminu á þremur önnum miðað við fullt nám á haust-, vor- og sumarönn.
Hvernig læri ég?
Staðarnám
Meistaranám í viðskiptadeild er staðarnám.
Kennt á ensku
Námskeið eru kennd á ensku af íslenskum og erlendum sérfræðingum sem veitir alþjóðlega sýn á námsefnið.
Fyrirkomulag kennslu
Námskeið eru kennd í lotum sem ná yfir tvo til fjóra daga samfleytt eða vikulega. Kennsla getur einnig verið skipulögð seinnipart dags og á laugardögum.
Námsmat
Námsmat í námskeiðum er fjölbreytt, til dæmis í formi einstaklingsverkefna, hópaverkefna og prófa. Nemendur geta átt von á því að verkefnavinna og próf fari fram utan lota. Ávallt er leitast við að hafa lokanámsmat fljótlega eftir hvert námskeið.
Starfsnám
Mögulegt er að taka starfsnám í stað eins eða tveggja valnámskeiða (7.5 - 15 ECTS). Starfsnámið er skipulagt á vegum HR og nemendur starfa undir handleiðslu tengiliðs hjá fyrirtæki. Starfsnám er mikilvægur þáttur fyrir þá sem hafa almennt litla starfsreynslu eða þá sem vilja nýta námið til að skapa sér tækifæri á nýjum vettvangi.
*Sjá nánari upplýsingar í Leiðbeiningum um starfsnám í meistaranámi.
Að námi loknu
Út í atvinnulífið
Útskrifaðir nemendur hafa ítarlega þekkingu á mannauðsstjórnun og forystuhlutverkinu. Þeir hafa jafnframt mikla innsýn í viðfangsefni viðskipta eins og stefnumörkun, viðskiptalög og hagfræði, siðfræði og ábyrga stjórnun.
Að náminu loknu eiga nemendur að vera færir um að:
- Beita verkfærum og aðferðum mannauðsstjórnunar.
- Vera leiðtogar í ólíkum tegundum starfsumhverfis.
- Nota bestu aðferðir og verklag í málum sem tengjast viðskiptaháttum, stefnumörkun, starfsemi, fjármálum og lagalegum atriðum.
- Leggja gagnrýnið mat á atferli innan skipulagsheilda, forystu og aðferðir við mannauðsstjórnun með það markmið að leggja til og framkvæma endurbætur.
- Beita gagnrýnni hugsun og leysa mál og aðstæður út frá sjónarmiði siðferðislegrar hegðunar, ábyrgrar stjórnunar og sjálfbærni.
- Eiga frumkvæði að verkefnum, stýra þeim og axla ábyrgð á vinnu einstaklinga og hópa.
- Greina frá flóknum fræðilegum viðfangsefnum og/eða fræðilega rökstuddum niðurstöðum, einir eða í samstarfi við aðra.
- Taka sjálfstæðar, faglegar ákvarðanir og rökstyðja þær.
- Miðla tölulegum upplýsingum.
- Vinna sjálfstætt og skipulega, setja sér markmið og skipuleggja og framkvæma lausnir við margvíslegum vandamálum.
- Tjá mikilvægi siðferðislegra og ábyrgra viðskiptahátta og hafa frumkvæði að viðleitni til að efla ábyrga stjórnun í fagi og/eða innan vinnustaða.
Starfsvettvangur
Námið undirbýr einstaklinga fyrir störf við stjórnun og þróun mannauðs í krefjandi starfsumhverfi. Útskrifaðir nemendur starfa meðal annars við stjórnun, ráðgjöf, mannauðsmál, fræðslumál og breytingastjórnun.
Ertu með spurningar um námið?
Við höfum verið einstaklega ánægð með starfsnemana sem hafa komið til okkar í mannauðsþjónustu Marel á Íslandi. Við bjóðum þeim að koma strax inn í teymið og taka þátt í raunverulegum verkefnum. Starfsnemarnir hafa verið sjálfstæðir og hafa mikinn metnað í að koma með faglegar lausnir. Þannig fáum við nýjar hugmyndir og getum fylgst með því hvort mannauðsþjónusta Marel sé í takt við nýjustu fræðin sem kennd eru í HR.
Starfsnemar HR hafa auðgað starfsemina hjá okkur í mannauðshorninu umtalsvert og gefið okkur nýja vídd. Við erum dugleg að gefa þeim verkefni við hæfi og leyfa þeim að vera með okkur í stærri og minni verkefnum. Það er hreinlega hjálp í því að hafa þau. Svo fáum við ferskan andblæ og innsýn í kennslu mannauðsstjórnunar í gegnum þau sem er gaman að flétta inn í praktíska vinnu í dagsins önn.
Skipulag náms
Námstími
Námstími er þrjár annir, 14 mánuðir miðað við fullt nám. Hægt er að ljúka náminu á lengri tíma en hámarks námstími eru sex annir (tvö ár).
Annir
- Haustönn: ágúst - desember.
- Vorönn: janúar - maí.
- Sumarönn: maí - september.
Val um tvær námsleiðir
Nemendur geta valið á milli þess að taka 90 ECTS eininga MSc-gráðu eða 90 ECTS eininga viðbótargráðu á meistarastigi, MHRM.
MSc-gráða
Til þess að ljúka MSc-gráðu þarf að ljúka 60 ECTS einingum í námskeiðum samkvæmt skipulagi náms og 30 ECTS eininga lokaritgerð.
Viðbótargráða á meistarastigi (MHRM)
Til þess að ljúka viðbótargráðu á meistarastigi þarf að ljúka 90 ECTS einingum í námskeiðum samkvæmt skipulagi náms. Möguleiki á starfsnámi að hámarki 15 ECTS í stað valnámskeiða.
Athugið
- Á haustönn taka nemendur 7.5 ECTS eininga valnámskeið eða V-737-FAFI Fundamentals in Accounting and Finance 7.5 ECTS.
- V-737-FAFI Fundamentals in Accounting and Finance er skylda fyrir nemendur sem hafa grunngráðu með minna en 30 ECTS einingar í viðskiptafræði.
- Nánari upplýsingar um námskeið eru í kennsluskrá
Aðstaða
Í háskólabyggingu HR er aðstaða til verklegrar kennslu, hópavinnuherbergi, mötuneyti, náms- og starfsráðgjöf og önnur þjónusta við nemendur.
Kennslustofur og lesherbergi
Húsnæði Háskólans í Reykjavík býður upp á góða aðstöðu til kennslu, lesturs og samvinnu nemenda. Meistaranemar í viðskiptadeild hafa til umráða sérstaka aðstöðu til lesturs. Kennslustofur eru vel búnar og nemendur geta nýtt sér hópavinnuherbergi. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn.
Þjónusta
Í háskólabyggingunni er greiður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, alþjóðaskrifstofu og tækniaðstoð. Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða. Safnið býður aðgang að bókum og fræðigreinum og upplýsingafræðingar eru með opna tíma þar sem nemendur geta litið við og fengið ráðleggingar og aðstoð vegna heimildavinnu.
Verslanir og kaffihús
Í HR er Háskólabúðin sem selur nauðsynjavörur, kaffihús, æfingasalur World Class og Málið veitingasala.
Kennarar
Innlendir og erlendir sérfræðingar
Meistaranemar njóta leiðsagnar öflugra vísindamanna og sérfræðinga. Jafnframt sjá stundakennarar og gestafyrirlesarar með sérfræðiþekkingu úr atvinnulífinu um kennslu, ásamt erlendum kennurum sem veitir nemendum alþjóðlega sýn á námsefnið. Kennarar við HR eru að jafnaði í miklum samskiptum við nemendur og leggja áherslu á verkefnavinnu og virka þátttöku.
Af hverju meistaranám við viðskiptadeild í HR?
- Öflugt starfsnám.
- Byggt á alþjóðlegum kröfum og þróað í samráði við framsækin íslensk fyrirtæki.
- Hægt er að ljúka náminu á 14 mánuðum miðað við fullt nám.
- Val um meistaragráðu án meistararitgerðar eða MSc-gráðu.
- Námskeið eru kennd af íslenskum og erlendum kennurum og þar með fá nemendur alþjóðlega sýn á efnið.
- Kennsla er nánast öll á ensku.