PDF bæklingur: Upplýsingatækni í mannvirkjagerð
Upplýsingalíkön mannvirkja (BIM – Building Information Model) gera aðilum í byggingariðnaði mögulegt að nýta möguleika upplýsingatækni á sviði hönnunar, framkvæmda og reksturs, með úrbætur og gæði að leiðarljósi.
Í þessu hagnýta diplómanámi öðlast nemendur reynslu, þekkingu og færni í að leysa flókin og þverfagleg vandamál í mannvirkjagerð og stjórna verkefnum með stafrænum lausnum og BIM.
Notkun stafrænna þrívíðra upplýsingalíkana er aðferðafræði við hönnun mannvirkja sem hefur verið að að ryðja sér til rúms hér á landi. Hún eykur gæði hönnunar og framkvæmda og stuðlar að hagkvæmari byggingum með tilliti til rekstrar og líftíma.
„Upplýsingatækni í mannvirkjagerð býður upp á ótal möguleika í hagræðingu og virðissköpun fyrir byggingariðnaðinn í heild sinni.“
Ingibjörg Birna Kjartansdóttir, kennari í námsbrautinni og formaður BIM Ísland.
Í þessu hagnýta diplómanámi öðlast nemendur reynslu, þekkingu og færni í að leysa flókin og þverfagleg vandamál í mannvirkjagerð og stjórna verkefnum í umhverfi BIM (Building Information Model) - upplýsingalíkönum í mannvirkjagerð.
Hagnýting og innleiðing á upplýsingatækni og notkun á líkönum í mannvirkjagerð gefur fyrirtækjum í mannvirkjagerð ótal möguleika á að betrumbæta eigin þjónustu, eiga samstarf við aðra hagaðila innan byggingariðnaðarins og styrkja stöðu sína á erlendum markaði.
Diplómanámið hentar sérstaklega vel þeim sem starfa í byggingariðnaði og við mannvirkjagerð. Má þá nefna sérstaklega byggingarstjóra, byggingariðnfræðinga, tæknifræðinga, verkfræðinga, arkitekta og byggingafræðinga. Námið hentar einnig þeim sem vilja sérhæfa sig í þeim stafrænu umbreytingum sem nú eiga sér stað.
HR útskrifar flesta nemendur í tæknigreinum á háskólastigi á Íslandi. Í tækninámi við HR er lögð sérstök áhersla á verklega hluta námsins við kennslu undirstöðugreina og hagnýtra fag- og tæknigreina. Tæknifræðideild er aðili að alþjóðlegu samstarfsneti um þróun tæknináms sem kallast CDIO (e. Conceive, Design, Implement, Operate). Í netinu eru um 100 framsæknir háskólar og megináhersla er lögð á gæði náms í tæknifræði með því að setja undirstöðugreinar í samhengi við raunveruleg viðfangsefni.
Nemendur eiga að námi loknu að þekkja sögu, meginreglur og aðferðir sem liggja að baki BIM og hvernig þeim er beitt á mismunandi stigum í mannvirkjagerð. Þar sem námið er hagnýtt læra nemendur að opna, rýna, bæta við og nýta sér líkönin. Þeir læra helstu aðgerðir, getu líkana, helstu staðla og takmarkanir.
Fjallað er um verklag í samningagerð og stjórnun hönnunar og framkvæmda, helstu byggingaflokkunarkerfi og hvernig þeim er beitt og starfssvið/hlutverk BIM-stjóra í verkefnum.
Að hafa umsjón með stafrænum gögnum verður nauðsynlegt á komandi árum enda nýtast gagnabankar í öllum atvinnugreinum, ekki síst til ákvörðunartöku. Í þessu diplómanámi læra nemendur að stjórna og halda utan um gögn og samskipti í mannvirkjagerð. Jafnframt er kennt hvernig megi nota BIM-studdan hugbúnað til samskipta.
Allar námskeiðslýsingar fá finna í kennsluskrá námsins
1. ÖNN - 16 ECTS |
2. ÖNN - 14 ECTS |
---|---|
Upplýsingatækni í mannvirkjagerð - grunnaðferðir og hugtök - 2 ECTS |
Upplýsingatækni í fasteignastjórnun - 2 ECTS |
Upplýsingatækni í mannvirkjagerð - aðgerðir, þróun og tæknivæðing - 6 ECTS | Upplýsingatækni - notkun á verkstað - 3 ECTS |
Upplýsingatækni - samræming og gæði - 3 ECTS | Upplýsingatækni - stjórnun, stefnumótun og innleiðing - 3 ECTS |
Upplýsingatækni - áætlanagerð - 5 ECTS | Lokaverkefni - 6 ECTS |
Krafist er lágmarkskunnáttu í BIM-studdu hönnunarverkfæri eins og Revit eða Tekla Structures og/eða reynslu í BIM studdu umhverfi/3D umhverfi.