Umhverfismál
Umhverfið
Háskólinn í Reykjavík hefur skrifað undir yfirlýsingu um loftslagsmál. Samkvæmt henni ætlar HR að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum. Á grunni yfirlýsingarinnar vinnur umhverfishópur starfsfólks að hugmyndum um aðferðir til að efla vistvæna starfsemi. Meðal aðgerða hingað til er endurskipulagning flokkunar sorps ásamt því sem dregið hefur verið úr notkun plasts, meðal annars með því að fjarlægja öll einnota plastílát hjá kaffivélum og vatnsvélum starfsmanna og nemenda sem nú sækja sér vatn og kaffi í margnota umbúðir. Flokkun sorps frá háskólanum hefur verið endurskipulögð og ruslatunnur á skrifstofum starfsmanna fjarlægðar. Þá hefur verið komið upp aðgangsstýrðu og vöktuðu hjólaskýli fyrir nemendur og hleðslustæðum þar sem nemendum og starfsfólki býðst tveggja klukkustunda hleðsla, endurgjaldslaust.
Í janúar 2021 stofnuðu HR og endurvinnslufyrirtækið Pure North Recycling í Hveragerði til samstarfs um endurvinnslu plasts og annarra endurvinnanlegra efna á Íslandi. Markmiðið er að efla íslenska hringrásarhagkerfið með plast og önnur endurvinnanleg efni í forgrunni, þróa nýjar leiðir til endurvinnslu og endurnýtingar plasts, auka sjálfvirkni í vinnslu og söfnun hráefna til endurvinnslu og efla fræðslu. Samstarfið er hluti af landsátakinu Þjóðþrifum og samstarfsverkefni verða unnin innan Rannsóknaseturs HR um sjálfbæra þróun.

HR hefur verið með samgöngustefnu og veitt starfsmönnum samgöngustyrki síðan árið 2016. Háskólinn í Reykjavík hefur einnig hlotið Gullvottun frá Hjólafærni og ÍSÍ fyrir að vera hjólavænn vinnustaður. Árlega tekur HR þátt í átakinu í Hjólað í vinnuna og býður starfsmönnum upp á ástandsskoðun reiðhjóla.Háskólinn í Reykjavík var fyrstur til bjóða upp á deilibílaþjónustuna Zipcar á Íslandi árið 2018.

Vinnustaðagreiningar hafa sýnt að starfsmenn HR hafa breytt fararvenjum sínum eftir að háskólinn hóf að bjóða starfsmönnum að gera samgöngusamning um vistvænar samgöngur. Árið 2013 ferðuðust 83% starfsmanna HR einir til vinnu í einkabíl en árið 2019 var þetta hlutfall komið niður í 62%. Þeim starfsmönnum sem nota einkabílinn sjaldnar en einu sinni viku fjölgar í 12% miðað við 8% árið 2013.