Lögfræði ML
Nemendur sem hafa lokið grunngráðu í lögfræði geta að loknu ML-námi sótt um réttindi til að gegna störfum dómara og málflytjenda. ML-nám í lögfræði stendur jafnframt til boða þeim sem hafa háskólapróf úr öðrum greinum en lögfræði.
Horfa á kynningu á meistaranámi í lögfræði sem fór fram 23. mars 2021:
Námið
Sérhæfing og fjölbreytt námsmat
ML-nám í lögfræði við lagadeild HR er tveggja ára nám, en heimilt er að ljúka því á fjórum árum. Námið byggist að mestu leyti á einstaklingsbundinni námsáætlun, sjálfstæðri vinnu undir handleiðslu kennara og verkefnavinnu. Eitt af megineinkennum námsins er fjölþætt val um áherslur og námsleiðir. Þetta veitir nemendum mikla möguleika á sérhæfingu innan lögfræðinnar og samþættingu við aðrar háskólagreinar. Sérstök áhersla er lögð á að bjóða kjörgreinar á sviði alþjóðalaga og alþjóðaviðskipta, dómstóla og málflutnings og fjármunaréttar.
Kennsluskrá
Í kennsluskrá meistaranáms við lagadeild eru ítarlegar lýsingar á námskeiðum og allar helstu upplýsingar um ML-nám með eða án grunnprófs í lögum.
Réttindi
Nemendur sem hafa lokið grunnnámi í lögfræði og að minnsta kosti 240 ECTS í lögfræðigreinum, ásamt ML-prófi, teljast hafa lokið fullnaðarprófi í lögfræði og uppfylla því almenn menntunarskilyrði til að gegna störfum dómara og málflytjenda.
Námsmat
Námsmat er fjölbreytt og geta nemendur lokið einingum með þátttöku í hefðbundnum námskeiðum, starfsnámi, rannsóknarverkefni og námi í öðrum greinum. Öllum nemendum í meistaranámi er skylt að skrifa 30 eða 60 eininga meistaraprófsritgerð.
Skiptinám
Nemendur geta lokið allt að 60 einingum í meistaranámi við erlenda háskóla.
Meistaranám án grunnprófs í lögum
Nemendur sem eru með háskólapróf í öðrum greinum geta lokið meistaraprófi og útskrifast með ML-gráðu í lögfræði. Meðal þeirra sem hafa lokið meistaranámi í lögfræði með aðra grunngráðu eru viðskiptafræðingar, læknar, stjórnmálafræðingar, arkitektar, hagfræðingar, endurskoðendur, ljósmæður, hjúkrunarfræðingar, kennarar og fleiri. ML-gráðan veitir þessum nemendum ekki fullnaðarpróf í lögfræði heldur sérhæfingu á vinnumarkaði.
Endurmenntun - alumni
Útskrifuðum meistaranemum frá deildinni stendur til boða að sækja námskeið í meistaranámi á 50% afslætti í lagadeild eftir að námi lýkur. Hér má sjá framboð námskeiða:
Vinsamlega hafið samband við lagadeild sé frekari upplýsinga óskað.
Styrkir
Forsetastyrkur
Þeir sem lokið hafa BA-gráðu í lögfræði, eða sambærilegri prófgráðu með góðum árangri, eiga kost á styrkjum sem felast í afslætti af skólagjöldum í meistaranámi. Forsetastyrkur felur í sér niðurfellingu hluta skólagjalda þannig að nemandi greiðir einungis skólagjöld grunnnáms í fjórar annir á meðan á meistaranámi stendur. Styrkir er háðir því að námsárangur styrkþega haldist góður á meðan á námi stendur. Umsókn um meistaranám jafngildir styrkumsókn.
LOGOS - styrkur
LOGOS lögmannsþjónusta styrkir þann nemanda sem hlýtur hæstu samanlagða einkunn úr BA- og ML-námi við útskrift í júní og eftir atvikum í janúar.
Lifandi umræðuvettvangur
Lagadeild Háskólans í Reykjavík heldur ótal málþing og opna fyrirlestra á hverri önn. Nemendur njóta því fjölmargra tækifæra til að hlýða á fræðimenn deildarinnar fjalla um rannsóknir sínar, og utanaðkomandi sérfræðinga ræða um málefni sem eru ofarlega á baugi í þjóðfélaginu.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, heldur erindi á málþingi á vegum lagadeildar um fullveldi landsins í 99 ár.
Frummælendur sitja í panel á ráðstefnu lagadeildar um nauðgun og réttarkerfið. Húsfyllir var á ráðstefnunni.
Nýsköpun þvert á deildir
Nemendur í meistaranámi í HR geta valið námskeið í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum, þvert á deildir háskólans. Námskeiðin auka þekkingu og færni nemenda á öllum helstu sviðum nýsköpunar: fræðilegri þekkingu, skapandi nálgun viðfangsefna, vöruþróun, áætlanagerð, stjórnun og fjármálum. Ljúki nemendur 30 einingum á þessu sviði geta þeir útskrifast með nýsköpunar- og frumkvöðlafræði sem sérsvið.
Frekari upplýsingar
Starfsnám
Eykur þekkingu og hæfni
Hluti af meistaranáminu getur farið fram í starfsnámi og skipuleggur lagadeild námið í samvinnu við stofnanir og fyrirtæki. Nemandi getur með viðurkenndu starfsnámi fengið metnar allt að 7,5 ECTS í meistaranámi á grundvelli starfsnámssamninga lagadeildarinnar og einstakra stofnana og fyrirtækja.
Það skilyrði er sett í verklagsreglum um starfsnám að nemandi vinni undir eftirliti umsjónaraðila að lögfræðilegu verkefni eða verkefnum sem séu sannanlega til þess fallin að auka þekkingu hans í lögfræði og hæfni til að vinna að úrlausn lögfræðilegra verkefna.
Starfsnámssamningar við stofnanir og fyrirtæki
- Advania
- Arion banki
- Deloitte ehf
- Ernst & Young
- Fangelsismálastofnun ríkisins
- Félag atvinnurekenda (FA)
- Félag Íslenskra Atvinnuflugmanna (FÍA)
- Fjármála- og efnahagsráðuneytið
- Fjármálaeftirlitið
- Héraðsdómur Norðurlands-eystra
- Héraðsdómur Reykjavíkur
- Héraðssaksóknari
- Hugverkastofan
- Innanríkisráðuneytið
- Inkasso
- Isavia
- Íslandsbanki
- Knattspyrnusamband Íslands
- Land lögmenn
- Landsbankinn hf.
- Landsvirkjun
- Lex lögmannsstofa
- LOCAL lögmenn
- LOGOS lögmannsþjónusta
- Lögreglustjórinn á Höfuðborgarsvæðinu
- Lögreglustjórinn á Suðurlandi
- Lögreglustjórinn á Suðurnesjum
- Magna Lögmenn
- Marel
- Nordik lögfræðiþjónusta
- Orkustofnun
- Orkuveita Reykjavíkur
- Persónuvernd
- Póst og fjarskiptastofnun
- Rauði krossinn
- Reykjavíkurborg - Þjónustu- og nýsköpunarsvið
- Réttur - ráðgjöf og málflutning
- Ríkislögreglustjóri
- Samgöngustofa
- Samkeppniseftirlitið
- Sjóvá
- Staðlaráð Íslands
- Sýslumaðurinn á Höfuðborgarsvæðinu
- Umboðsmaður barna
- Umhverfisráðuneytið
- Utanríkisráðuneytið
- Útlendingastofnun
- Velferðarráðuneytið
- Viðskiptaráð Íslands
Að námi loknu
Með ML-gráðu öðlast nemendur fullnaðarpróf í lögfræði og geta starfað sem lögmenn, málflytjendur og dómarar. Þeir sem ljúka ML-námi án grunngráðu í lögfræði öðlast sérhæfingu á vinnumarkaði.
Fullnaðarpróf í lögfræði
Þeir sem hafa grunngráðu í lögfræði, hafa lokið a.m.k. 240 ECTS í lögfræðigreinum, og ljúka meistaranámi við deildina teljast hafa lokið fullnaðarprófi í lögfræði og uppfylla því almenn skilyrði til að gegna störfum dómara og málflytjenda.
Fjölbreytt störf
Lögfræðingar starfa meðal annars við lögmanna- og dómarastörf, á lögfræðisviðum ráðuneyta, hjá embætti ríkislögreglustjóra, tollstjóra eða skattstjóra, hjá fjármálafyrirtækjum og tryggingafyrirtækjum, sem stjórnendur í fyrirtækjum, við stjórnmál, í bönkum, sem sérfræðingar hjá alþjóðastofnunum og margt fleira.
Aðstaðan
Þjónusta og góður aðbúnaður
Öll kennsla fer fram í háskólabyggingu HR. Þar eru jafnframt hópavinnuherbergi, mötuneyti, náms- og starfsráðgjöf og önnur þjónusta við nemendur.
Málflutningur í dómsal
Í HR er áhersla lögð á verkkunnáttu og þjálfun ásamt fræðilegri undirstöðu. Því er aðstaða til verklegrar kennslu til fyrirmyndar. Lagadeild hefur til umráða fullbúinn dómsal sem hannaður er frá grunni og innréttaður sem slíkur. Stofan þjónar m.a. þeim tilgangi að þjálfa nemendur í störfum dómara og lögmanna. Í dómsalnum er fullkominn tölvubúnaður, hljóðkerfi og fjórar tökuvélar sem taka upp hljóð og mynd.
Kennslustofur og lesherbergi
Húsnæði Háskólans í Reykjavík býður upp á afar góða aðstöðu til kennslu, lesturs og samvinnu nemenda. Kennslustofur eru vel búnar og nemendur geta nýtt sér hópavinnuherbergi. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn. Sjá fleiri myndir af aðstöðunni í HR.
Góð þjónusta
Í háskólabyggingunni er greiður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, alþjóðaskrifstofu og tækniaðstoð. Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða. Safnið býður aðgang að bókum og fræðigreinum og upplýsingafræðingar eru með opna tíma þar sem nemendur geta litið við og fengið ráðleggingar og aðstoð vegna heimildavinnu.
Verslanir og kaffihús
Í HR er jafnframt Háskólabúðin sem selur helstu nauðsynjavörur, kaffihús, æfingasalur World Class og Málið veitingasala.
Kennarar
Vísindamenn og sérfræðingar
Nemendur í lögfræði njóta leiðsagnar öflugra vísindamanna í greininni og gestafyrirlesara með sérfræðiþekkingu úr atvinnulífinu. Kennarar við HR eru að jafnaði í miklum samskiptum við nemendur.
Forseti lagadeildar
Eiríkur Elís Þorláksson
Dósent
Sérsvið: Fjármunaréttur og réttarfar
Prófessorar, dósentar, lektorar, sérfræðingar og nýdoktorar
Sérsvið: Félagaréttur og Evrópuréttur. Samningaréttur
Eiríkur Elís Þorláksson
Dósent
Sérsvið: Fjármunaréttur og réttarfar
Dr. Juris Guðmundur Sigurðsson
Prófessor
Sérsvið: Skaðabótaréttur, tryggingaréttur og sjó- og flutningaréttur
Dr. Juris Gunnar Þór Pétursson
Prófessor
Sérsvið: Evrópuréttur og lyfjaréttur
Halldóra Þorsteinsdóttir
Lektor
Sérsvið: Fjármunaréttur, fjölmiðlaréttur og neytendaréttur.
Hallgrímur Ásgeirsson
Sérfræðingur
MSc. Boston University, LL.M Leichester University
Sérsvið: Evrópuréttur, fjármálafyrirtæki, fjármálamarkaðir og fjármálakerfi
Heimir Örn Herbertsson
Sérfræðingur
Sérsvið: Samkeppnisréttur
Dr. Margrét Einarsdóttir
Prófessor
Sérsvið: Evrópuréttur, réttarfar og almenn lögfræði
Sérsvið: Stjórnsýsluréttur, mannréttindi og auðlindaréttur
Dr. Ragnhildur Helgadóttir
Prófessor
Sérsvið: Stjórnskipunarréttur, stjórnsýsluréttur og réttarsaga
Sindri M Stephensen
Dósent
Sérsvið: Réttarfar, skattaréttur, stjórnsýsluréttur og vinnuréttur
Dr. Snjólaug Árnadóttir
Lektor
Stefán A. Svensson
Lektor
LL.M. frá Cambridge
Sérsvið: Fjármunaréttur og félagaréttur
Svala Ísfeld Ólafsdóttir
Dósent
diplóma í afbrotafræði á meistarastigi frá félagsvísindadeild HÍ, diplóma í hagnýtri frönsku
og BA í frönsku frá hugvísindadeild HÍ
Sérsvið: Refsiréttur, afbrotafræði og lagafranska
Þóra Hallgrímsdóttir
Sérfræðingur
Sérsvið: Vátryggingaréttur
Dr. Þórdís Ingadóttir
Prófessor
Sérsvið: Þjóðaréttur, alþjóðastofnanir, alþjóðlegur refsiréttur, mannréttindi
Aðjúnktar
Andri Árnason
Aðjúnkt
Sérsvið: Samkeppnisréttur og almenn lögfræði
Ásdís Magnúsdóttir
Aðjúnkt
Sérsvið: Hugverkaréttur
Dögg Pálsdóttir
Aðjúnkt
Sérsvið: Fjölskyldu– og erfðaréttur, heilbrigðisréttur
Elín Ósk Helgadóttir
Aðjúnkt
Sérsvið: Stjórnskipunarréttur, stjórnsýsluréttur og upplýsingaréttur
Hulda María Stefánsdóttir
Aðjúnkt
Sérsvið: Refsiréttur
Magnús Hrafn Magnússon
Aðjúnkt
Sérsvið: Félagaréttur og vörumerkjaréttur
Þórður S. Gunnarsson
Aðjúnkt og héraðsdómari
Sérsvið: Aðferðafræði, alþjóða viðskiptasamningar og löggjöf um óréttmæta viðskiptahætti
Skipulag
Einingar
Meistaranám í lögfræði er 120 ECTS og er til ML-gráðu. Almennt er gert ráð fyrir að nemandi klári 30 einingar á önn eða 60 einingar á ári.
Námstími
Ljúka þarf fjórum önnum í námi (vor og haust) og því skal lokið eigi síðar en fjórum árum eftir að það hófst.
Samsetning náms
Nemendur hafa mikið val um áherslur og námsleiðir. Nemendur sem ekki hafa lokið grunngráðu í lögfræði þurfa að taka námskeið í aðferðafræði í upphafi náms. Að öðru leyti ræður nemandi samsetningu námsins.
Yfirlit yfir kjörgreinar í ML-námi í lögfræði 2023-2025
Meistaranám af alþjóðasviði
Til að nemandi teljist hafa lokið námi af alþjóðasviði verður hann að ljúka að lágmarki 45 ECTS í kjörgreinum eða málstofum á alþjóðasviði og ennfremur að skrifa meistaraprófsritgerð á því sviði.
Námsframvinda
Námstími
Meistaranám skal að lágmarki vera fjórar annir (vor og haust). Almennt er gert ráð fyrir að nemandi ljúki 30 einingum á önn eða 60 einingum á ári miðað við eðlilega námsframvindu. Hægt er að ljúka náminu á fjórum árum.
Hámarksfjöldi eininga á önn
Nemandi getur óskað eftir skráningu í eitt námskeið á önn umfram 30 einingar enda sé það nauðsynlegt til að ljúka meistaranámi á fjórum önnum, sbr. 1. málsl. 20. gr.
Námsmat og einkunnagjöf
Við námsmat og einkunnagjöf er farið eftir reglum HR um próf og einkunnir. Til að standast próf í meistaranámi í lögfræði verður nemandi að hljóta minnst einkunnina 6,0 í öllum námsþáttum sem nemandi fær skráða einkunn fyrir við lagadeild HR. Þetta gildir einnig eftir því sem við á um fyrra nám sem nemandi fær metið sem hluta af meistaranámi í lögfræði. Til þess að standast námskeið þarf nemandi að fá 6,0 í einkunn á lokaprófi. Ef lokapróf hefur minna vægi en 20% af lokaeinkunn hefur kennari heimild til að víkja frá áðurgreindu ákvæði. Lokaeinkunn til fullnaðarprófs í lögfræði í skilningi 2. gr. reglna þessara skal reiknuð sem vegið meðaltal einkunna úr einstökum námsþáttum í BA-námi og ML-námi.
Endurinnritun
Uppfylli nemandi ekki framangreind lágmarksskilyrði um námsframvindu, fellur réttur til frekara náms við deildina niður. Nemandi getur þó sótt um endurinnritun í deildina. Þau skilyrði eru sett fyrir endurinnritun að námsferill nemanda beri með sér ótvíræða námsgetu eða ótvíræðar framfarir í námi, og að meðaleinkunn í þeim námsgreinum sem nemandi hefur lokið í ML-námi við deildina sé 7,0 eða hærri. Sé slík heimild veitt, heldur nemandi sem þess óskar þeim námskeiðum sem lokið hefur verið með einkunn 7,0 eða hærri. Heimild til endurinnritunar verður aðeins veitt einu sinni á námstímanum.
Námshlé
Nemandi getur sótt um leyfi námráðs til að gera hlé á námi sínu. Beiðnin skal studd fullnægjandi gögnum er sýni að gildar ástæður séu fyrir beiðninni. Meðal ástæðna sem réttlætt geta námshlé eru barneignir og veikindi. Leyfi til námshlés má veita með skilyrðum. Hámarkslengd námshlés er 1 ár. Hámarksnámstími samkvæmt reglum þessum framlengist sem námsleyfi nemur.
Undanþágur
Hafi námsráð komist að þeirri niðurstöðu að undanþágur frá reglum um framvindu náms og námshlé samkvæmt 23. og 24. gr. eigi ekki við getur deildarfundur lagadeildar, ef ríkar ástæður eru til, veitt frekari undanþágur frá þeim reglum. Slík heimild verður aðeins veitt í algjörum undantekningartilvikum.
Náms- og prófareglur
Um prófgögn fer eftir reglum sem lagadeild HR setur þar um. Vísað er í náms- og prófareglur HR sem birtar eru á vefsíðu skólans varðandi önnur atriði.
ML-ritgerðir
Verkefni á síðustu önn meistaranáms
Allir nemendur skulu skrifa meistararitgerð sem skilað er í lok síðustu annar námsins. Hún þarf að vera að minnsta kosti 30 einingar. Ritgerðin skal uppfylla þau markmið sem nemandi hefur sett sér áður en vinnan hófst og leiðbeinandi hefur fallist á. Markmiðin skulu koma skýrt fram í inngangi ritgerðar. Númer námskeiðsins er L-899.
Sjá lista yfir ML-ritgerðir við lagadeild HR
Reglur um 30 ECTS ritgerðir
Efnistök 30 eininga ritgerðar skulu vera með þeim hætti að ljóst sé að ekki liggi færri en 750 vinnustundir að baki ritgerðinni. Lengd 30 eininga ritgerðar skal vera á bilinu 25.000-30.000 orð, eins og þau teljast samkvæmt ritvinnslukerfi.
Reglur um 60 ECTS ritgerðir
Nemandi í meistaranámi sem hefur sýnt afburða námsárangur og fengið samþykki umsjónarkennara, getur sótt um til námsráðs að skrifa 60 eininga meistararitgerð í stað 30 eininga ritgerðar.
Efnistök skulu vera með þeim hætti að ljóst sé að ekki liggi færri en 1500 vinnustundir að baki ritgerðinni. Ritgerð til 60 eininga skal vera 50.000-60.000 orð, eins og þau teljast samkvæmt ritvinnslukerfi.
Vönduð, fræðileg vinnubrögð
Að loknum skrifum ML-ritgerðar eiga nemendur að hafa tileinkað sér vönduð fræðileg vinnubrögð við úrlausn lögfræðilegra viðfangsefna. Í því felst að nemandi:
Þekking
- sé fær um að gera grein fyrir andstæðum sjónarmiðum þar sem það á við.
- geti beitt aðferðafræði lögfræðinnar (einni eða fleiri) og greint á milli ólíkra aðferða
- geti aflað viðeigandi réttarheimilda og afleiddra heimilda og annarra upplýsinga, gert grein fyrir þeim og samspili á milli þeirra, metið þær og valið á milli þeirra eftir þýðingu þeirra fyrir viðfangsefnið
- hafi öðlast djúpa þekkingu og traustan skilning á afmörkuðu viðfangsefni
- hafi vald á lögfræðilegu orðfæri
- geti fært rök fyrir eigin úrlausnum
Leikni
- geti fjallað um lögfræðileg viðfangsefni með sjálfstæðum og fræðilegum hætti
- geti sett viðfangsefni fram með skipulögðum og rökréttum hætti
- geti dregið ályktanir og miðlað þeim í skýru og skiljanlegu máli
- hafi þá getu til heimildaleitar og heimildaöflunar sem nauðsynleg er til að leysa úr flóknum lögfræðilegum viðfangsefnum í námi og starfi
- geti notað heimildir rétt og tileinkað sér heiðarleg vinnubrögð þegar unnið er með
- texta og niðurstöður annarra.
- geti sett niðurstöður sínar í víðara samhengi.
Hæfni
- geti valið lögfræðilegt viðfangsefni til að rannsaka, afmarkað það og greint með skýrum og greinargóðum hætti
- geti gert sjálfstæða fræðilega rannsókn og gert grein fyrir henni í rituðu máli eins og að ofan er lýst
- geti gert grein fyrir þýðingu viðfangsefnis og í hverju frumleiki vinnunnar felst
Námsmat
Deildarforseti skipar prófdómara og skulu leiðbeinandi og prófdómari sameiginlega leggja mat á ritgerð nemanda. Séu þeir ósammála vegur einkunn prófdómara til jafns við einkunn leiðbeinanda. Séu leiðbeinendur fleiri en einn, leggja þeir sameiginlega mat á ritgerðina og er þá ekki þörf á prófdómara.
Einkunn skal gefin fyrir ML-ritgerð með sama hætti og fyrir námskeið við lagadeild. Nái nemandi ekki lágmarkseinkunn getur hann óskað eftir því að fá að skrifa aðra ritgerð. Með annarri ritgerð er átt við að nemandi skrifi nýja ritgerð hjá öðrum leiðbeinanda.
Heimildaskráningarstaðallinn OSCOLA
Lagadeild Háskólans í Reykjavík leggur mikla áherslu á vönduð akademísk vinnubrögð. Við deildina var því tekinn upp heimildaskráningarstaðallinn „Oxford Standard for the Citation of Legal Authorities” (OSCOLA) sem nemendur skulu fylgja í verkefnavinnu. Nánari upplýsingar og öll viðeigandi gögn er að finna á vefsíðu bókasafns og upplýsingaþjónustu HR, http://www.ru.is/oscola.
OSCOLA er hægt að nota með rafrænum heimildaskráningarforritum. Mælt er með að nota Zotero en upplýsingar um það er að finna á vefsíðunni http://www.ru.is/zotero/.
Skemman
Nemendur skila rafrænu eintaki háskólans í Skemmuna – www.skemman.is. Leiðbeiningar við skil í Skemmuna er að finna á www.ru.is/skemman
Inntökuskilyrði
Umsóknarfrestur
Tekið er við umsóknum fyrir haustönn 5. febrúar - 30. apríl og fyrir vorönn 15. október - 5. desember ár hvert.
Val á meistaranemum
Við val á nemendum, hvort sem þeir hafa lokið grunnnámi í lögfræði eða öðru háskólanámi, er einkum litið til samsetningar fyrra háskólanáms, námsárangurs á háskólastigi og annarra atriða sem telja má að gefi vísbendingu um hæfni umsækjanda til að takast á við krefjandi rannsóknartengt meistaranám í lögfræði. Inntökunefnd lagadeildar metur umsóknir og tekur ákvörðun um hverjir fái inngöngu.
Umsækjendur með grunnpróf í lögum
Umsækjandi um meistaranám við lagadeild HR skal hafa lokið BA- /BSc-prófi, eða sambærilegu prófi, frá viðurkenndum háskóla með a.m.k. 6 í meðaleinkunn. Umsækjendur sem lokið hafa BA-prófi frá lagadeild HR með meðaleinkunnina 6,5 eða hærri eiga rétt á inngöngu í meistaranám.
Umsækjendur án grunnprófs í lögum
Umsækjendur með BA- eða BSc-gráðu í öðrum námsgreinum en lögfræði geta fengið inngöngu í ML-nám við lagadeild HR. Við mat á slíkum umsóknum skal inntökunefndin líta sérstaklega til samsetningar náms umsækjenda og námsárangurs í einstökum þáttum þess. Einnig getur nefndin tekið tillit til reynslu og annarra atriða sem geta varpað ljósi á þekkingu, leikni og hæfni umsækjanda til að stunda námið.
Nemendur sem fá inngöngu skulu ljúka BA-námskeiðinu „Aðferðafræði I-réttarheimildir og lögskýringar“, með meðaleinkunnina 6,0 eða hærri sem hluta af ML-námi. Þeir skulu skrá sig í námskeiðið á fyrstu haustönn eftir að þeir hefja nám.
Meistarapróf í lögfræði leiðir ekki til fullnaðarprófs í lögfræði fyrir þessa umsækjendur í skilningi 4. tl. 1. mgr. 6 gr. l. nr. 77/1998 um lögmenn og telst ekki jafngilt embættisprófi í lögfræði í skilningi laga.
Fylgigögn með umsókn
Allir umsækjendur verða að fylla út rafræna umsókn og fylgigögnum skal skila inn í umsóknarkerfið. Eftirfarandi gögn þurfa að fylgja umsókn:
- Frumrit eða staðfest ljósrit af prófskírteinum.
- Stutt greinargerð, 250-1000 orð (sjá d. lið í umsókn) þar sem umsækjandi skýrir áhuga sinn á náminu, gerir grein fyrir væntingum sínum til þess og rökstyður beiðni sína um inngöngu.
- Starfsferilsskrá ef við á.
- Umsögn ef umsækjandi telur slíkt styrkja umsóknina.