Námið
Rannsóknir
HR
Náms- og framvindureglur

Nemendur fylgja þeim reglum sem eru við lýði það ár sem þeir innritast. Ef nemandi er endurinnritaður þá gilda um hann þær reglur sem eru í gildi við endurinnritun.

Prófgráður og forkröfur

Sálfræðinám við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík veitir prófgráðuna BSc í sálfræði. Gráðan er veitt að loknu 180 ECTS námi við deildina með fullnægjandi árangri. Nemendur eru valdir í námið eftir frammistöðu í námi á framhalds- og háskólastigi. Þá verður tekið tillit til annarra þátta svo sem umsagna sem og greinargerðar frá nemanda sjálfum. Gert er ráð fyrir því að nemendur sem fá inngöngu í BSc-námið í sálfræði við Háskólann í Reykjavík hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi. Þá er gert ráð fyrir því að nemendur hafi gott vald á íslensku og ensku.

Uppbygging náms
Skipulag náms frá og með 2024

Til að ljúka BSc í sálfræði þarf að ljúka 180 ECTS einingum:

  • Skyldunámskeið 138 ECTS + BSc rannsóknarverkefni 18 ECTS
  • Valnámskeið 24 ECTS

Nemendur taka fimm námskeið, 30 ECTS einingar, á hverri önn. Undantekning er sjötta önnin, þar sem rannsóknarverkefni (lokaverkefni) er metið sem tvö námskeið (12 ECTS). Lokaverkefni er 18 ECTS og skiptist á tvær annir, 6 ECTS á haustönn og 12 ECTS á vorönn þriðja námsárs.

Skipulag náms - Nemendur sem hófu nám fyrir 2024

Til að ljúka BSc í sálfræði þarf að ljúka 180 ECTS einingum:

  • Skyldunámskeið 132 ECTS + BSc rannsóknarverkefni 18 ECTS
  • Valnámskeið 30 ECTS

Nemendur taka fimm námskeið, 30 ECTS einingar, á hverri önn. Undantekning er sjötta önnin, þar sem rannsóknarverkefni (lokaverkefni) er metið sem tvö námskeið (12 ECTS). Lokaverkefni er 18 ECTS og skiptist á tvær annir, 6 ECTS á haustönn og 12 ECTS á vorönn þriðja námsárs.

Kennsluhættir og vinnubrögð

Námstíminn er þrjú ár og fer námið fram í Háskólanum í Reykjavík. Námskeið byggjast á almennum fyrirlestrum, umræðutímum og verkefnum eftir ákvörðun umsjónarkennara hverju sinni. Þá hafa nemendur kost á að fara í vettvangsnám, t.d. á heilbrigðisstofnanir, í skóla og í fyrirtæki. Í undantekningartilvikum getur forstöðumaður BSc-náms í sálfræði ákveðið að tiltekið námskeið skuli ekki kennt eða fyrirkomulagi kennslu breytt. Þannig eru námskeiðslýsingar og stundaskrár birtar með fyrirvara um síðari breytingar. Námskeið eru í umsjón fastra kennara deildarinnar eftir ákvörðun forstöðumanns námsins. Forstöðumanni er þó heimilt að fela stundakennara umsjón námskeiðs vegna tímabundinna anna fastra kennara.

Námsframvinda

Einkunnir eru gefnar í tölum á kvarðanum 0 - 10. Lágmarkseinkunn í hverju námskeiði er 5. Að öllu jöfnu er nemanda heimilt að fara yfir á annað námsár ef hann hefur lokið a.m.k. 42 ECTS í sálfræði á fyrsta námsári. Til að hefja nám á þriðja námsári þarf nemandi að hafa lokið öllum námsgreinum á fyrsta námsári og a.m.k. 30 ECTS á öðru námsári. Nemandi skal hafa lokið BSc-prófi í síðasta lagi fimm árum eftir síðustu innritun á fyrsta námsár nema námsmatsnefnd hafi veitt honum leyfi frá námi. Lengist þá framangreindur tímafrestur sem leyfinu nemur.

Reglur um próftöku

Nemendum er heimilt að sitja hvert námskeið tvisvar og þreyta þau próf sem í boði eru í bæði skiptin. Að sitja námskeið þýðir að nemandi er skráður í námskeið eftir að frestur um úrsögn er liðinn. Nemendur sem þurfa að sitja námskeið í annað sinn þurfa að skila öllum verkefnum námskeiðsins að nýju sem þýðir að nemendur geta ekki fengið verkefni metin á milli anna. Standist nemandi ekki námskeið eftir setu í annað sinn, telst hann fallinn úr námi. Ber honum þá að sækja um endurinnritun í námið vilji hann stunda námið áfram (sjá grein fyrir neðan). 

Um vinnubrögð, nám og próftöku nemenda í BSc-námi í sálfræði gilda eftirfarandi reglur og viðurlög skólans: 

Endurinnritun

Uppfylli nemandi ekki framangreind lágmarksskilyrði um námsframvindu samkvæmt reglum deildarinnar, fellur réttur hans til frekara náms við deildina niður. Nemandi getur þó sótt um endurinnritun í námið. Umsókn um endurinnritun skal vera skrifleg og skal send til verkefnastjóra námsins. Sé nemanda veitt slík heimild heldur hann, sé þess óskað, einungis þeim námskeiðum sem hann hefur lokið með einkunn 6,0 eða hærri. Sama gildir um nemendur sem hafa hætt námi og kjósa að hefja nám að nýju. Sálfræðideild áskilur sér þann rétt að synja nemendum um endurinnritun. Ekki er hægt að endurinnritast oftar en tvisvar sinnum.

Hlutanám í BSc í sálfræði

Búi nemandi við sérstakar aðstæður sem koma í veg fyrir að hann geti stundað fullt nám, er í undantekningartilvikum gefinn kostur á hlutanámi í BSc námi í sálfræði við HR. Sækja skal sérstaklega um slíkt námsfyrirkomulag til verkefnastjóra námsins. Beiðninni skulu fylgja fullnægjandi gögn sem sýna að gildar ástæður séu fyrir henni. Með beiðni um hlutanám ber jafnframt að skila námsáætlun svo unnt sé að meta hvernig námi umsækjanda verður háttað og hvort áætlunin sé raunhæf. Meðal þeirra ástæðna sem réttlætt geta slíkt hlutanám, eru t.d. erfiðar aðstæður vegna fjárhags eða veikinda. Leyfi til hlutanáms má veita með skilyrðum. Nemandi í hlutanámi skal hafa lokið BSc-prófi í síðasta lagi átta árum eftir síðustu innritun á fyrsta námsár nema námsmatsnefnd hafi veitt honum leyfi frá námi. Lengist þá framangreindur tímafrestur sem leyfinu nemur. Um námsframvindu milli námsára gilda sömu reglur fyrir nemendur í hlutanámi og nemendur í fullu námi.

Undanfarar námskeiða

Nemandi skal kynna sér kröfur um undanfara áður en hann skráir sig í námskeið. Upplýsingar um undanfara námskeiða koma fram í kennsluskrá sem má finna á heimasíðu skólans.

Hámarksfjöldi eininga sem nemandi getur tekið

Nemandi í BSc-námi í sálfræði getur skráð sig í 30 ECTS á önn að hámarki. Sálfræðideild getur heimilað nemanda að skrá sig í eitt námskeið á önn umfram fullt nám (30 ECTS). Óski nemandi eftir slíkri heimild skal rökstudd beiðni send til verkefnastjóra BSc-náms í sálfræði.

Námshlé

Nemandi getur sótt um að gera hlé á námi sínu. Beiðninni skulu fylgja fullnægjandi gögn sem sýna að gildar ástæður séu fyrir henni. Meðal þeirra ástæðna sem réttlætt geta námshlé eru t.d. barnsburður eða veikindi. Með umsókn þarf t.d. að berast læknisvottorð ef sótt er um námshlé vegna veikinda. Sækja þarf um námshlé fyrir upphafsdag viðkomandi annar og skal umsókn send til verkefnastjóra námsins. Námshlé er veitt fyrir eina önn í senn en hámarkstími námshlés er eitt ár.

Mat á fyrra námi

Mat á fyrra námi er ekki framkvæmt fyrr en formleg umsókn um nám í HR hefur verið samþykkt og skólagjöldin hafa verið greidd. Þó er hægt að óska eftir lauslegu mati á fyrra námi sem er hvorki nákvæmt né bindandi. Umsókn skal send til verkefnastjóra námsbrautar. Umsóknareyðublað. Sjá frekari leiðbeiningar um mat á fyrra námi hér: Upplýsingar fyrir nemendur | (ru.is)

Fara efst