Áhugasviðspróf og styrkleikagreining

Hvað veistu um sjálfa/n þig?

Þegar ákveða þarf næstu skref getur verið gott að velta fyrir sér eigin styrkleikum, annað hvort upp á eigin spýtur eða með aðstoð náms- og starfsráðgjafar. Þar er hægt að mæta í viðtal til ráðgjafa og ræða hlutina og/eða taka VIA styrkleikakönnun og áhugasviðsprófið Bendil gegn vægu gjaldi.

Er þörf á setja upp styrkleikagleraugun?

Það getur verið mjög hjálplegt fyrir einstakling sem er á þeim tímamótum að velja sér nám við hæfi að þekkja styrkleika sína. Styrkleikar eru, samkvæmt vísindamönnum sem hafa rannsakað efnið, náttúrulegir hæfileikar sem koma fram í hegðun, tilfinningum og hugsunum sem gerir viðkomandi kleift að takast á við verkefni á sem áhrifaríkastan hátt með farsælustu útkomuna. 

Við byrjum á því að velta fyrir okkur hvaða styrkleika þú hefur og til þess að gera það er einfaldast að þú spyrð þig eftirfarandi spurninga;

1. Hvað er það sem ég er góð/ur í?

2. Hvað er það sem kemur fram á eðlilegan hátt?

3. Hvað er það sem gefur mér jákvæða orku?

Góð byrjun fyrir flesta til að geta svarað þessum spurningum er að draga saman með því að rifja upp stundir þar sem þú ert að njóta þín algjörlega í því sem þú ert að gera þá stundina, þar sem þér finnst tíminn hafa flogið í burtu en eftir á, líður þér vel og ert endurnærð/ur og full/ur af orku.

Þegar talað er um notkun styrkleika er einnig talað um að vera í flæði en það er einmitt þessi tilfinning sem viðkomandi upplifir sig algjörlega í verkefninu. Einnig er gott að hafa í huga að manneskjan hefur tilhneigingu til að einblína á það neikvæða eða veikleika í stað hið jákvæða, styrkleika okkar. Þetta virðist manneskjunni eðlilegt og er talað um tilhneigingu til hið neikvæða (e. Negativity Bias) því er mikilvægt að staldra við og skoða hvað er að skila árangri og hvað ekki.

Rannsóknir sýna að einungis 1/3 fólks veit hvaða styrkleika það hefur. Það er því mikilvægt að manneskjan átti sig á því hvaða áhrif styrkleikaþekking og notkun hefur á vellíðan og hamingju. Ef þú hefur áhuga á að setja upp styrkleikagleraugun þá er tilvalið að nýta þér þjónustu náms- og starfsráðgjafa HR.

VIA styrkleikakönnunin

Ef manneskja á erfitt með að finna hverjir eru styrkleikar hennar getur verið hjálplegt að taka styrkleikakönnun eins og VIA  Könnunin mælir 24 skapgerðarstyrkleika fólks. Hún er vísindalegt mælitæki og hafa yfir sex milljónir manna tekið könnunina í dag í yfir 190 löndum. Hún byggist á sex flokkum; visku, hugrekki, manngæsku, réttlæti, yfirvegun og vitundarstigi.

Þetta eru 120 setningar sem þú þarft að taka afstöðu til. Könnunin er á ensku og niðurstöður sína 24 sameiginlega skapgerðarstyrkleika mannfólksins sem hægt er að flokka niður eftir því hvort þetta eru toppstyrkleikar, meðal eða minna notaðir styrkleikar.

Strengths Profile 

Strengths Profile er styrkleikakönnun sem fyrirtækið Cappfinity hefur þróað og er áreiðanleiki þess og réttmæti í samræmi við gildi og viðmið breska sálfræðingafélagsins. Sextíu styrkleikar eru mældir og niðurstöður settar í fjóra flokka; 

Meðvitaðir styrkleikar (e. Realised Strengths) 

Ómeðvitaðir styrkleikar (e. Unrealised Strengths)

Lærð hegðun (e. Learned Behaviors)

Veikleikar (e. Weaknesses)

Styrkleikar eru mældir út frá notkun, árangri og orku. Því meiri orku sem viðkomandi fær við það að nota tiltekin styrkleika því líklegra er að hann mælist sem styrkleiki frekar en lærð hegðun eða veikleiki. Munurinn á meðvituðum styrkleikum og ómeðvituðum felst fyrst og fremst í notkun þeirra, hversu mikið þeir eru notaðir.

Bendill

Mikilvægt er að taka mið af eigin áhugasviðum þegar ákvarðanir um nám og störf eru teknar. Bendill er samheiti fyrir fjórar ólíkar kannanir sem meta starfsáhuga fólks á ólíkum aldri. Niðurstöður birtast myndrænt. Bendill ýtir undir sjálfsskilning og öflun upplýsinga um nám og störf. Sérhönnuð upplýsingaveita hjálpar til við markvissa og skilvirka leit að námi og störfum. Bendil er aðeins hægt að nálgast með því að hafa samband við náms- og starfsráðgjafa sem aðstoða við fyrirlögn, túlkun og næstu skref. Náms- og starfsráðgjafar HR hafa réttindi til að leggja fyrir og túlka könnunina. 

  • Bendill - III metur sex almenn áhugasvið og einnig 27 sértæk undirsvið. Hann tekur mið af þörfum fullorðinna sem hafa hug á háskólanámi fyrst og fremst.
  • Bendill IV metur sex almenn áhugasvið og einnig 35 sértæk undirsvið. Hann tekur mið af þörfum fullorðinna sem eru á vinnumarkaði.


Nánari upplýsingar:

Athugið að ef hömlur eru á þjónustu og eingöngu er boðið upp á fjarviðtöl er því miður ekki mögulegt að bjóða upp á áhugasviðsprófið Bendil. Nauðsynlegt er að koma í staðviðtal fyrir það.

Áhugsasviðsprófið er lagt fyrir hjá náms- og starfsráðgjöfum og tekur ferlið um klukkustund. Bendill er rafræn áhugakönnun og niðurstöður liggja strax fyrir. Könnunin kostar 6000 krónur sem greiðist á þjónustuborðinu áður en viðtal hefst. Vinsamlegast komið með eigin tölvu til að taka könnunina á, en látið vita ef það er ekki valkostur svo hægt sé að gera aðrar ráðstafanir.

Ef þið hafið áhuga á að taka Bendil, vinsamlegast setjið ykkur í samband við Náms- og starfsráðgjöf HR, namsradgjof@ru.isVar efnið hjálplegt? Nei