Samfélagsábyrgð HR
Það er metnaður starfsfólks Háskólans í Reykjavík að mennta framtíðarleiðtoga sem leggja áherslu á samfélagslega ábyrgð,
jafnrétti, nýsköpun og þróun sem miðar að aukinni sjálfbærni með gott siðferði að
leiðarljósi. Háskólinn í Reykjavík vill jafnframt taka þátt í því að minnka áhrif starfseminnar á umhverfið og leggja sitt af mörkum til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.
Markmið Sameinuðu þjóðanna innleidd í allar deildir
Meðal þess sem Háskólinn í Reykjavík gerir til að ná þessum markmiðum er að vinna markvisst að innleiðingu PRME-markmiðanna þvert á deildir háskólans. PRME (e. Principles for Responsible Management Education) var stofnað árið 2007 á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í Genf sem vettvangur til að auka skilning og hæfni nemenda til að takast á við áskoranir í viðskiptalífinu sem framtíðarleiðtogar og stjórnendur. Innleiðing PRME-markmiðanna þýðir að allir nemendur háskólans munu hér eftir fá fræðslu og innsýn inn í markmiðin um aukna vitund í málefnum sem tengjast samfélagslegri ábyrgð.
Umhverfismál í HR
Háskólinn í Reykjavík hefur skrifað undir yfirlýsingu um loftslagsmál. Samkvæmt henni ætlar HR að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum. Meðal þessara aðgerða hingað til er endurskipulagning flokkunar sorps ásamt því sem dregið hefur verið úr notkun plasts. Stór hluti starfsmannahópsins hefur skrifað undir samgöngusamning og vakin hefur verið athygli á mikilvægi flokkunar með sérstöku átaki sem bar heitið Umhverfisvika í HR.